Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 11:58:00 (5128)

2001-03-01 11:58:00# 126. lþ. 80.5 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv. 7/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[11:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum er enn einn fylgifiskur þeirrar pólitísku ákvörðunar að troða okkur eða gera okkur aðila að Schengen-samstarfinu og Dyflinnarsamningnum sem því fylgir og þeim viðamiklu upplýsingakerfum og þeirri miklu persónuskráningu í tvöföldu upplýsingakerfi sem þessu tengist, þ.e. Schengen-upplýsingakerfið SIS, og síðan Dyflinnarsamningskerfið, EURODAC-kerfið.

Þó að frv. láti ekki mikið yfir sér er það hluti af miklu stærra máli og ástæða til að athuga efnisatriði þess sem slík sérstaklega af því að þau koma inn á tvennt sem hvort tveggja er stórt í þessu efni, þ.e. annars vegar tiltekna samræmingu sem er að fara af stað með þessu á flóttamannapólitík og meðferð mála sem snúa að hælisbeiðnum og öðrum slíku í fyrri grein frv. og í seinni greininni er aflað heimilda til að miðla upplýsingum milli landa með þeim hætti sem aðild að Dyflinnarsamningnum felur í sér og skuldbindur samningsríkin til að gera.

Það hefur verið afstaða okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, herra forseti, að telja það ekki skynsamlegan kost fyrir Ísland að gerast aðili að þessu samstarfi og við höfum lagt til að frv. og tillögur sem því hafa tengst hér, bæði á fyrra þingi og þessu, yrði vísað frá eða þeim vísað til ríkisstjórnar og stjórnvöldum falið að tilkynna að Ísland mundi ekki eða a.m.k. ekki að svo stöddu hefja þáttöku í þessu samstarfi.

[12:00]

Það væri nú fyrir það fyrsta, herra forseti, enginn héraðsbrestur eða stór skaði skeður í öllu falli þó við tækjum okkur betri tíma til að meta stöðu okkar í þessu máli í heild sinni. Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur sáralítil umræða farið fram um hin raunverulegu efnisatriði þessa máls, þó að svo sé komið að innan við mánuður sé þar til aðild okkar að Schengen-samstarfinu taki gildi, a.m.k. til málamynda.

Þetta mál hefur verið kynnt sem tiltölulega lítið mál, sem snerist fyrst og fremst um það, a.m.k. hefur hæstv. utanrrh. gjarnan talað þannig, að varðveita hið svokallaða norræna vegabréfasamband. Smátt og smátt er hins vegar að koma í ljós að hér er um gríðarlega stórt og afdrifaríkt mál að ræða, því það felur í sér víðtækar skuldbindingar. Það hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir Ísland. Það hefur áhrif á stjórnskipulega stöðu okkar í Evrópusamstarfinu því hér er í fyrsta sinn verið að ganga þannig frá málum að Ísland og Noregur reyndar eru þátttakendur í, aðilar að, beinum Evrópusambandsstofnunum ýmist þegar orðnum eða væntanlegum eins og í tilviki Dyflinnarsamningsins og EURODAC-upplýsingakerfisins. Að þessu leyti verður staða okkar önnur en hún hefur verið í fyrri samningum við Evrópusambandið. Hún er í grundvallaratriðum önnur en hún er í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem EES-ríkin eða EFTA-ríkin þrjú sem eiga aðild að því samstarfi við Evrópusambandið byggja þátttöku sína á stofnunum sín megin í samningnum, svonefndu tveggja stoða kerfi, og um aðra stjórnskipulega eða stjórnsýslulega uppbyggingu er að ræða.

Þetta atriði, herra forseti, hefur fengið sáralitla umfjöllun. Ég hef stundum á tilfinningunni þegar ég er að rifja þetta upp og benda á þetta að þá finnist ýmsum velvildarmönnum þess að Ísland gangi inn í þetta samstarf það vera heldur til óþurftar að vera að draga athyglina að því hvað í raun og veru er hér á ferðinni. Mönnum hafi þótt það þægilegast, svona a.m.k. pólitískt, að láta sem minnst fyrir því fara hvað væri hér á ferðinni.

Umræðu um kostnaðinn sem þessu er samfara hefur verið drepið á dreif og því er tekið illa þegar á það er bent að nú er verið að bókfæra kostnað svo nemur hundruðum milljóna króna þessi árin á viðkomandi ráðuneyti, dómsmrn. og utanrrn. fyrst og fremst. Og Íslendingar eru að leggja út fyrir stofnkostnaði og eiga í vændum frekari fjárfestingar svo nemur milljörðum króna vegna aðildar sinnar að Schengen-samningnum einum.

Bara sá samningur sem þetta frv. tengist sérstaklega, þ.e. Dyflinnarsamningurinn og þátttaka okkar í EURODAC-upplýsingakerfinu mun hafa nokkurn kostnað í för með sér, það er óumflýjanlegt.

Þá eru enn ónefnd, herra forseti, þau atriði sem snúa að meðferð persónuupplýsinga og persónuvernd, en þar hafa ýmis ákvæði sætt harðri gagnrýni, bæði utan frá og innan frá. Má þar nefna gagnrýni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það má nefna gagnrýni Mannréttindaskrifstofu Íslands og fleiri mannréttindasamtaka, bæði hér á landi og erlendis. Meira að segja hefur það eftirlitskerfi sem sett er á fót samkvæmt samningnum sjálfum, sérstaklega þá SIS-kerfinu, gefið sjálfu sér, ef svo má að orði komast, falleinkunn. En það var niðurstaða eftirlitsnefndar eða eftirlitsstofnunar Schengen-upplýsingakerfisins eftir fyrstu úttekt á meðferð mála í kerfinu, sem birt var að ég hygg í desembermánuði sl., að gefa þar mörgum þáttum í raun og veru falleinkunn. Þeir stæðust ekki þær kröfur sem nú tíðkaðist að gera til skráningar persónuupplýsinga í miðlægan gagnagrunn, til upplýsingagjafar út úr kerfinu og allra síst hvað varðar ástæðulausa og órökstudda uppsöfnun upplýsinga og geymslu upplýsinga án þess að þeim væri eytt inni í þessu kerfi. Sömu þættir að hluta til hafa verið gagnrýndir harðlega hvað varðar EURODAC-kerfið og Dyflinnarsamninginn.

Ástæða er til, herra forseti, að vekja athygli manna á því og má þar vísa í 15. gr. í fskj. I með frv., 15. gr. samningsins sjálfs, hversu viðamiklar þær persónuupplýsingar sem þarna á að fara að miðla á milli eru. Þar segir, með leyfi herra forseta:

,,1. Hvert aðildarríki skal senda hverju öðru aðildarríki sem þess óskar þær upplýsingar um einstök mál sem nauðsynlegar eru til að:

ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um hælisumsókn,

fjalla um hælisumsókn,

framkvæma allar skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.

2. Í þeim upplýsingum skulu aðeins vera:`` --- þetta orðalag felur í sér að í grunninum gætu verið frekari upplýsingar eða að viðkomandi ríki hefði aflað frekari upplýsinga um viðkomandi einstakling en þarna er skylt að senda. En það sem á að senda er:

,,atriði sem varða persónu umsækjanda, og, þar sem við á, fjölskyldu hans (fullt nafn, og þar sem við á fyrra nafn, gælunöfn eða uppfundin nöfn, núverandi og fyrrverandi ríkisfang, fæðingardagur og fæðingarstaður),

persónu- og ferðaskilríki (tilvísanir, gildi, útgáfudagur, útgáfustjórnvald, útgáfustaður o.s.frv.),

aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sýna fram á hver umsækjandi er,

dvalarstaðir og ferðaleiðir,

dvalarleyfi og vegabréfsáritanir sem aðildarríki hefur útgefið,

umsóknarstaður,

hvenær fyrri umsókn var lögð fram, ef um það er að ræða, hvenær núverandi umsókn er lögð fram, hvaða stigi málsmeðferð hefur náð, og hvaða ákvörðun hefur verið tekin ef því er að skipta.``

Þetta eru sem sagt þær upplýsingar sem á að senda. Þetta eru einstaklingar sem hafa væntanlega stöðu hælisbeiðanda í viðkomandi landi. Það þýðir að þegar þeir komu að landamærum viðkomandi ríkis og lögðu inn sína hælisumsókn voru tekin fingraför af öllum fingrum beggja handa og þau geymd í þessum grunni. Og allar þessar upplýsingar og ýmsar í viðbót verða geymdar í kerfinu í tíu ár. Jafnvel þó viðkomandi aðili fái úrlausn sinna mála og fái varanlegt dvalarleyfi í viðkomandi landi, þá verður þeim ekki eytt fyrr en að tíu árum liðnum. Einustu tilvikin þar sem upplýsingunum er eytt áður en a.m.k. þessi tíu ára frestur er útrunninn, er að viðkomandi aðili hafi beinlínis fengið ríkisborgararétt eða ríkisfang í viðkomandi landi.

Þessi ástæðulausa skráning, sjálfvirka skráning upplýsinga, hefur verið harkalega gagnrýnd. Og það er hún sem hér er verið að heimila með miðlun upplýsinga út úr þessari skráningu með 2. gr. þessa frv. Samt heyrði ég ekki mikið fara fyrir því að í framsöguræðu eða umræðum áðan milli nefndarmanna í allshn. að þessir hlutir hefðu verið þar mikið til umfjöllunar. Eða liggur þetta kannski allt svo ljóst fyrir að mönnum hafi ekki þótt ástæða til að nefna það, að verið er að fara fram á samþykki Alþingis beint og óbeint við þessari víðtæku skráningu persónuupplýsinga sem sætt hefur harðri gagnrýni og miðlun hennar milli landa.

Að lokum, herra forseti, um hitt meginefnisatriði frv. er lýtur að þeirri setningu sem á að koma inn í 10. gr. laganna, um eftirlit með útlendingum, og hér hefur verið nokkuð rædd af fyrri ræðumönnum, það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

Svona fram sett hljómar þessi setning ekki mjög vel. Hún er ekki aðlaðandi af því að hún nálgast málið út frá þeirri forsendu að skilgreina þann rétt sem útlendingurinn á ekki. Í staðinn fyrir að setja málið þannig fram að að tilskildum atriðum fullnægðum eigi útlendingurinn þennan rétt. Með öðrum orðum, ef hann ekki á klárlega þennan rétt annars staða --- en það er í rauninni það sem verið er að segja bara með neikvæðri framsetningu --- þá eigi hann réttinn hér. Ég veit ekki hvort menn hafa farið yfir það hvort mögulegt væri, þó ekki væri nema upp á svipinn að gera á þessum hlutum, að snúa þessu við og skilgreina þetta frá hinum endanum, þeim enda sem snýr að rétti hælisbeiðandans sem er til staðar, að því tilskildu að hann liggi ekki fyrir með skýrum og ótvíræðum hætti annars staðar og þá þar sem eðlilegt væri að hælisumsóknin yrði tekin fyrir og málið afgreitt. Efnislega ætti það að geta komið út á eitt, en þá losnuðu menn við þessa heldur neikvæðu framsetningu sem hér er og kann að vera að einhverju leyti skýringin á því að a.m.k. hluti nefndarmanna í allshn. er með böggum hildar í málinu, samanber nál. minni hlutans, sem þrátt fyrir nokkra aðdáun á Schengen-samstarfinu og stuðning við það treystir sér ekki til að styðja þetta frv. og er það sérstaklega lagt út af því hvernig túlka beri eða skilja þessa setningu og hverjar verði afleiðingar þess að taka ákvæði af þessu tagi upp í lög.

Ég er ekki að gera því skóna að með þessum breytingum í sjálfu sér sem vísa beint í Dyflinnarsamninginn séu menn á nokkurn hátt að breyta réttarstöðu útlendinga eða að þetta sé ávísun á að við Íslendingar ætlum að fara að ástunda meiri þrengslapólitík í þessum efnum en verið hefur. Staðreyndin er nú sú að Ísland hefur verið að mestu leyti lokað land í þessum efnum, ekki endilega vegna þess að við höfum bægt mönnum frá, heldur einfaldlega vegna þess að lítið hefur reynt á að menn hafi leitað hófanna hér með að fá hæli. Þau tilvik eru eins og við þekkjum sárafá. Það segir nú kannski ekki allt of góða sögu á hinn bóginn að meiri og minni vandræðagangur hefur verið í kringum öll þau mál sem ég þekki til. Þau eru fáein þau dæmi sem ég man eftir ,,på stående fod`` eins og Danir mundu segja.

Ég man eftir því, a.m.k. í allmörgum af þeim tilvikum eða nokkrum af þeim tilvikum hafi einmitt orðið hálfgerður vandræðagangur uppi hvernig með skyldi fara. Það er kannski vegna þess, herra forseti, sem út af fyrir sig er alveg skiljanlegt að við Íslendingar séum tiltölulega lítt reyndir í því að takast á við þessi mál. Við höfum, ef svo má að orði komast, komist upp með það og notið þar fjarlægðarverndarinnar og einangrunarinnar að þurfa lítið að sinna þessum málum og hugsa um þau. Ég hef á undanförnum árum hins vegar oft kviðið því þegar ég hef verið að hugsa um það hvernig staðan mundi verða hér ef virkilega færi að reyna á þetta og verulegar holskeflur flóttamanna berðu hér að dyrum. Ég er ekki viss um að við værum að öllu leyti vel í stakk búin til að takast á við slíkt og leyfi mér, því miður, herra forseti, einnig að segja að ég óttast stundum að viðhorfin hér kynnu þá að reynast önnur og neikvæðari heldur en við vildum gjarnan trúa, en ætla ekki að fara lengra út í þá sálma.

Ég óttast hins vegar hitt að við sjáum lítt fyrir endann á því hvert þátttaka okkar, áhrifalítilla í þessu gríðarlega samstarfi Evrópuríkjanna á þessu sviði, kann að leiða okkur og í hvaða stöðu það kann að setja okkur í fyllingu tímans. Mér finnst mjög margt benda til þess og ég er ekki einn um þá skoðun að þetta sé undirbúningur undir það sem sumir kalla ,,fortress Europe`` --- að í vændum sé að víggirða Evrópu á ytri landamærunum meira en hingað til hefur verið og taka þar upp kannski harðari stefnu gagnvart flóttamönnum en menn hingað til a.m.k. í orði kveðnu hafa haft uppi.

Og er það endilega víst að Ísland vilji vera aðili að því og skrifa sig inn í þetta kerfi, taka að sér þessa ytri landamæravörslu Evrópusambandsins og gerast vesturlandamæri norðvesturlandamærissvæðis sem á landamæri sín í suðaustri á mörkum Grikklands og Tyrklands, í suðri á mörkum Ítalíu og Afríku og í suðvestri á mörkum Spánar og norðvestur Afríku, svo einhver dæmi séu tekin?

Hefur það ekki verið lítið rætt og lítið rökstutt, herra forseti, að það sé sjálfgefið að við Íslendingar förum með inn í þetta?

Menn hafa notað mikið röksemdina að með þessu sé verið að varðveita norræna vegabréfasambandið. Í umræðum um þáltill. fyrr á þessu þingi, herra forseti, fyrir nokkrum dögum færði ég að ég tel nokkuð sterk rök fyrir því að þessu væri í rauninni í aðalatriðum öfugt farið. Tilkoma aðildar Norðurlandanna að Schengen muni þýða að þau ferðalög sem voru möguleg án vegabréfa áður innan Norðurlandanna verði það síður og í raun og veru alls ekki eftir þessa breytingu. Ástæðan er sú að svo fremi sem við tökum ekki upp sérstök Schengen-persónuskilríki, þá munu menn enn síður en áður hætta sér út fyrir landsteinana án vegabréfs, jafnvel ekki til hinna Norðurlandanna. Vegna þess að í stað persónueftirlits á landamærum, kemur aukið persónueftirlit innan ríkjanna, þegar menn bóka sig inn á hótel, á tjaldstæði o.s.frv.

[12:15]

Þessi röksemd er því í rauninni, svo grátbroslegt sem það nú er, í öllum aðalatriðum hrunin. Það nægir að fara og kynna sér umræðuna og það sem í vændum er í Svíþjóð, væntanlega einnig í Danmörku og sennilega víðar, til að átta sig á þessu. Svíar eru þegar búnir að ákveða að hefja undirbúning að því að taka upp sérstök persónuskilríki sem fullnægja öllum kröfum Schengen-samstarfsins, þ.e. eru löggilt af stjórnvöldum og fela í sér alþjóðlega viðurkenningu á þjóðerni viðkomandi einstaklings.

Og ætli Íslendingar ekki að fara þá leið sem íslenska dómsmrn. hefur upplýst a.m.k. að enn sem komið er standi ekki til, þá verður niðurstaðan sú, hláleg og grátbrosleg, að ástæða er til að hvetja alla sem hyggja á ferðalög út fyrir landsteinana eftir 25. mars n.k., þó til Norðurlandanna sé, að muna nú eftir því sem aldrei fyrr að hafa með sér vegabréf.

Hitt ætla ég síðan að segja, herra forseti, sem mikill stuðningsmaður norrænnar samvinnu og eftir að hafa margítrekað sagt að ég tel að norræna vegabréfasambandið sem slíkt hafi verið framsækin tímamótaaðgerð á sínum tíma innan Norðurlandanna við þær aðstæður sem þar voru og út af fyrir sig í aðalatriðum eru enn, og hið besta mál eins og sagt er, þá verða menn að hafa í huga að fyrir Ísland var það meira til þess að vera með að við vorum þátttakendur í því en að það hefði mikla praktíska þýðingu. Aldrei hefur mátt ræða þetta eða það hefur enginn lagt í að segja það. Og þá skal það gert hér, loksins. Auðvitað skipti það sáralitlu máli og nánast engu fyrir Ísland vegna þess að menn fóru yfirleitt ekki úr landi nema hafa vegabréf og þurftu oftast að sýna það hvort sem er.

En þetta hafði mikið praktískt gildi fyrir hin Norðurlöndin og sérstaklega þau sem eiga löng sameiginleg landamæri á landi þar sem mikil dægurumferð á sér stað, sérstaklega hin löngu landamæri Noregs Svíþjóðar. Þar var það auðvitað til mikillar einföldunar mála því að dagsdagleg umferð þar, t.d. verslunarumferð yfir landamærin er mikil, menn skjótast yfir landamærin sér til upplyftingar og gera innkaup í leiðinni því viss varningur er stundum ódýrari handan við línuna, þá var þetta praktískt mál og hafði gildi og einfaldaði hlutina. Menn nenntu hvort sem ekkert að standa í því að yfirheyra alla Svíana sem komu úr ferjunum í Frederikshavn um hvort þeir væru Svíar og hvað þeir vildu upp á dekk, því það vissu allir hvert þeir voru að fara með kerrurnar sínar og að þeir færu heim aftur um kvöldið. Sama átti við þegar Norðmenn streymdu suður yfir landamærin, suður yfir Svínasund til að kaupa inn aðeins ódýrari matvæli í Svíþjóð o.s.frv.

Þetta hafði praktískt gildi í Skandinavíu á hinum landbundnu landamærum þar. En fyrir Ísland var þetta fyrst og fremst táknrænt. Fyrst og fremst táknrænt að vera með sem eitt af Norðurlöndunum í hinu svokallaða norræna vegabréfasambandi.

Afleiðingin af því að horfast í augu við þetta og viðurkenna það er auðvitað sú að engin sérstök ástæða er til þess að gefa sér það fyrir fram að þó að við sæjum kannski eftir hinu svokallaða norræna vegabréfasambandi, og að hin Norðurlöndin fjögur gerðust aðilar að Schengen, þá ættum við Íslendingar að gera það einnig. Það var engin sérstök ástæða til þess að gefa sér að þetta væri leiðin. Það var heimatilbúin röksemd til þess að rökstyðja það pólitíska markmið, fyrst og fremst hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar, að við skyldum fara inn í Schengen. Við skyldum fara bakdyramegin inn í þessa þætti Evrópusamstarfsins. Bakdyramegin inn í nokkrar Evrópusambandsstofnanir með þessum hætti, en það er það sem er að gerast. Ég kalla það að fara bakdyramegin inn í Evrópusambandsstofnanir, að gera lítið úr því öllu saman og láta að því liggja að annað í raun og veru sé megintilgangur eða meginröksemd máls sem þegar betur er að gáð stenst ekki, eins og þetta með norræna vegabréfasambandið.

Herra forseti. Ég tel því að allar meginröksemdir sem menn hafa kynnt þetta mál á séu hrundar. Það er ekki verið að varðveita norræna vegabréfasambandið í þeim skilningi að menn eigi þar kost á einhverjum ferðalögum án vegabréfa. Og ég minni aftur á að aðild Íslands að því á sínum tíma var meira táknræns eðlis heldur en hún hefði mikið praktískt gildi.

Þetta kostar gríðarlega peninga. Stjórnskipuleg staða okkar verður mjög ankannaleg þarna. Ég held að allir hljóti að sjá það. Hvað stendur þá eftir? Það eina sem eftir stendur, herra forseti, er að verið er að ná því pólitíska markmiði manna að troða okkur þarna inn. Manna sem vildu nota þetta tækifæri til frekari nálgunar við Evrópusambandið. Það er mergurinn málsins, herra forseti, að mínu mati. Það er það sem eftir stendur. Mönnum er að takast það, þeim sem lögðu upp í þann pólitíska leiðangur að grípa nú gæsina, nota tækifærið og flétta Ísland og eftir atvikum auðvitað einnig Noreg, kemur ekki á óvart að svipuð viðhorf væru þar uppi þar sem kratastjórnir, sú fyrri og sú sem nú situr, hafa rekið málið áfram og minnihlutastjórn Bondeviks sem fór með málið um skeið var í rauninni föst í því neti og gat ekki hreyft Noreg í þeirri stöðu sem hún tók við málinu. Þar á bæ hjá norsku krötunum eru auðvitað mjög svipuð viðhorf uppi um að nota hvert tækifæri til að færa Noreg innar í Evrópusamstarfið. Þannig að þröskuldarnir verði svo lægri að lokum þegar menn leggja í lokaorrustuna, sem þeir vona og trúa sjálfsagt að verði, í Noregi og hér á landi, að koma okkur alla leið.

Og er það ekki þannig, herra forseti, að þeim mun lengra sem við erum komin inn í salarkynnin bakdyramegin, þeim mun lægri verður þröskuldurinn til að fara alla leið?

Þannig held ég að þetta sé vaxið, herra forseti. Það er umhugsunarefni og það er auðvitað tímanna tákn að það skuli vera Framsfl. og formaður hans, hæstv. utanrrh., sem hefur haft alla forgöngu í þessu máli. Og leikur reyndar grunur á að einum og einum sjálfstæðismanni sé nokkuð brugðið og hafi með ákaflega hangandi hendi greitt því stundum atkvæði eða jafnvel horfið hér út úr þingsalnum til þess að losna við að greiða atkvæði með ýmsum þáttum þessa Schengen-, Dyflinnar-, SIS-, EURODAC-pakka sem hér er á ferðinni og er orðinn mikill böggull, herra forseti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Eins og menn ráða kannski af máli mínu stendur ekki til hjá ræðumanni að greiða frv. atkvæði. Ég sé ekki nokkra minnstu ástæðu til þess. Við höfum lagst gegn þátttöku okkar í þessu samstarfi og munum væntanlega halda þeirri gagnrýni og því andófi áfram, enda eins gott að einhverjir geri það, herra forseti. Ef það hefði ekki verið fyrir atbeina Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og atbeina okkar að reyna að vekja einhverja athygli á þessu máli og fá um það einhverja umræðu, þá virðist mér að þetta stóra mál hefði runnið hér í gegn þegjandi og hljóðalaust á tveimur þingum og menn hefðu komist upp með að kynna málið, hér innan veggja sem og því miður að verulegu leyti í fjölmiðlum, eins og á því væri algjörlega bara ein hlið. Það væri ekkert nema kostir við þetta og engar efasemdir og ekkert til þess að hafa áhyggjur af.

Ég verð að segja, herra forseti, að maður er býsna hugsi stundum yfir því hversu lítil umræða verður oft og tíðum um stórmál sem hér er verið að fjalla um og afgreiða af Íslands hálfu, bæði innan þings og utan.

Og fari menn nú til Noregs og beri menn saman þá miklu umræðu sem búin er að geysa í Noregi á Stórþinginu og í norskum fjölmiðlum núna meira og minna samfellt um fimm ára skeið eða svo, um aðild Noregs eða ekki aðild Noregs að Schengen og allar hliðar þess máls. Það er ólíku saman að jafna, herra forseti. Við mættum taka okkur margt til eftirbreytni í þeim efnum, bæði þingmenn á þjóðþinginu og eins fjölmiðlamenn.