Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 12:45:56 (5131)

2001-03-01 12:45:56# 126. lþ. 80.6 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[12:45]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Ég, sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn., hef skrifað undir álit nefndarinnar eins og allir aðrir sem þar voru.

Aðdragandinn að þessari lagasetningu er frá 13. maí 1997, þegar Alþingi ályktar að fela iðnrh. að skipa starfshóp með þátttöku vísindamanna er meti hvort rétt sé að hefja markvissa rannsókn á því hvort olía eða gas finnist á landgrunni Íslands. Hópurinn átti að meta sérstaklega þau svæði á landgrunninu sem fyrirliggjandi rannsóknir benda til að líklegust séu til þess að geyma olíu eða gas.

Við 1. umr. um málið hér í þinginu bárum við fram ýmsar spurningar. Ég spurði t.d. um reynslu Dana, en hjá þeim fór leit og olíuvinnsla í fullan gang á sjöunda áratugnum. Jafnframt setti ég spurningarmerki við vald ráðherra og skyldur fyrirtækjanna sem fá að framkvæma tilraunaboranir og tilraunavinnslu, sérstaklega vegna þess að fréttir komu um það á seinni hluta sjöunda áratugarins og síðan fyrri hluta áttunda áratugarins að í raun og veru hefði átt sér stað heilmikil olíuvinnsla í þessum tilraunafasa stórfyrirtækjanna og má þar til nefna stórfyrirtæki eins og A.P. Möller, sem framleiddi gríðarlega mikið magn af olíu í þessum tilraunafasa.

Eins og fram hefur komið voru fjölmargir aðilar kallaðir á fund nefndarinnar og nefndin gerði brtt. sem hún stóð einhuga að í átta liðum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að nefndin hefur hert á umhverfisþættinum í sambandi við hugsanlega leit og vinnslu á kolvetni í lögsögu Íslands. Og það er lagt til í 3. og 4. lið í brtt. nefndarinnar, að 4. og 7. gr. frv. verði breytt á þann veg að sú skylda verði lögð á iðnrh. að leita umsagnar hjá sjútvrn. og umhvrn. áður en leyfi er veitt til leitar annars vegar og rannsókna hins vegar. Með þessu er tryggt að nægt samráð sé á milli þeirra stjórnvalda sem kolvetnisstarfsemi varðar hvað mest. Eðlilegt er að ráðuneytin muni svo ráðgast við undirstofnanir sínar sem hafa sérþekkingu á þeim atriðum sem um er fjallað hverju sinni.

Þetta er auðvitað ákaflega mikilvægt og við verðum að trúa því að hér sé komið frv., hér sé komin umgjörð sem tryggi fyllilega að eins vel verði staðið að þessum málum og kostur er. Við höfum ekki ástæðu til að ætla annað. Það hefur verið gengið í smiðju hjá nágrannaþjóðum okkar allt í kringum okkur sem hafa a.m.k. 30 ára forskot í kolvetnisvinnslu eins og Skotar, Bretar, Danir, Norðmenn og núna síðast tilraunafasi hjá frændum okkar Færeyingum.

Í framhaldi af samþykkt þessa frv., vil ég leggja áherslu á það fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að ég tel mjög mikilvægt að við eflum allar rannsóknir á landgrunninu. Það liggur ljóst fyrir að við höfum tíma til 16. nóvember 2004. Það verður að segjast eins og er að staða okkar varðandi grunnrannsóknir er frekar bág og ljóst að við verðum með samhæfðu átaki allra undirstofnana okkar að efla rannsóknir til þess að gæta réttar okkar hvað varðar lögsögu yfir hugsanlegum auðlindum á mörkum milli annarra þjóða, Grænlands og Íslands, Færeyja og Íslands, Rockall og Íslands, Noregs og Íslands, Jan Mayen og Íslands o.s.frv. Þetta held ég að við séum öll mjög sammála um.

Ég tel að nefndin hafi unnið mjög vel að þessu máli. Eins og ég sagði áðan voru margir kallaðir til og ýmsir þættir skýrðust. Við erum öll sammála um þær brtt. í átta liðum sem nefndin gerir í nál. sínu, og sammála um að frv. verði til þess að skapa nauðsynlegan ramma til að við getum hafið nýtingu á þessum auðlindum, ef þær finnast, og getum á þeim grunni og með þennan lagaramma gert það á sómasamlegan hátt, í sátt við náttúruna og til hagsbóta fyrir land og þjóð.