Samvinnufélög (innlánsdeildir)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 12:52:08 (5132)

2001-03-01 12:52:08# 126. lþ. 80.7 fundur 449. mál: #A samvinnufélög (innlánsdeildir)# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[12:52]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum, sem er á þskj. 717, mál 449.

Í stuttu máli er með frv. þessu, sem er endurflutt frá síðasta þingi, með tæknilegum breytingum, endurskoðuð ákvæði samvinnufélagalaganna um innlánsdeildir. Er m.a. gert ráð fyrir þrengri skilyrðum og virkara eftirliti en áður, auk jafnræðis í skattamálum tryggingarsjóða innlánsdeilda, innstæðueigenda og fjárfesta.

Endurskoðun laganna byggist á bráðabirgðaákvæði gildandi laga um samvinnufélög, en þar er kveðið á um að taka eigi til endurskoðunar ákvæði laganna um að samvinnufélagi sé heimilt að reka innlánsdeild að fullnægðum nánar tilteknum skilyrðum. Innlánsdeildum samvinnufélaga hefur fækkað á síðustu árum og eru nú einungis starfandi innlánsdeildir við tíu samvinnufélög. Í árslok 1999 voru innlán í þessum deildum að fjárhæð samtals 1.981 millj. kr., eða 0,8% af heildarinnlánum innlánsstofnana. Innlán sjö stærstu innlánsdeildanna námu þá samtals 1.880 millj. kr. með heildarinnlegg í einstökum deildum á bilinu 60 til 590 millj. kr.

Aðstæður á fjármagnsmarkaði hafa breyst verulega frá síðustu endurskðun lagaákvæðanna um innlánsdeildir fyrir nokkrum árum og lög og reglur um starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða og annarra fjármálastofnana hafa á þeim tíma sætt endurskoðun frá grunni. Breytingarnar hafa fyrst og fremst miðað að því að auka öryggi innlánseigenda og annarra viðskiptamanna fjármálafyrirtækja. Á sama tíma hefur samkeppni á milli fjármálafyrirtækja stóraukist og þjónusta þeirra tekið stökkbreytingum.

Samdráttur í starfsemi innlánsdeilda miðað við heildarinnlán innlánsstofnana og breytingarnar á fjármagnsmarkaðnum sýna að stöðu innlánsdeilda samvinnufélaga hefur hrakað á síðustu árum í samanburði við viðskiptabanka og sparisjóði.

Er tæpast lengur unnt að líta á innlánsstarfsemi samvinnufélaga sem framtíðarleið fyrir félögin á fjármagnsmarkaði, enda er innlánsstarfsemi almennt talin fara illa saman við annan atvinnurekstur. Ekki er þó talið rétt að setja í lög einhvers konar sólarlagsákvæði í því skyni að binda endi á starfsemi innlánsdeildanna, enda er ljóst að móttaka innlána hefur enn verulega þýðingu í rekstri einstaka samvinnufélaga. Jafnframt verður ekki talið að innlánseigendum margra innlánsdeilda sé sérstök hætta búin af áframhaldandi starfsemi þeirra. Sum samvinnufélög eru reyndar að kanna leiðir til þess að selja frá sér starfandi innlánsdeildir til viðskiptabanka eða sparisjóða. Þurfa félögin ráðrúm til slíkra ráðstafana án þess að þeim séu sett tímamörk í því sambandi.

Hins vegar er talin full ástæða til að endurskoða ákvæðin um innlánsdeildir, eins og lagt er til í frv. þessu, m.a. í því skyni að setja samvinnufélögum þrengri skilyrði um eigið fé og tryggja virkara efirlit með félögunum en áður. Hlutfall eigin fjár er að vísu lækkað úr 18% í 15%, en jafnframt eru gerðar aðrar breytingar, þ.e. taka þarf tillit til frádráttar eignarhluta í óskráðum félögum og krafna á dóttur- og hlutdeildarfélög. Eru þannig gerðar ríkari kröfur en áður til fjárhagslegs styrks samvinnufélaga sem starfrækja innlánsdeildir.

Jafnframt er kveðið skýrt á um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með starfsemi innlánsdeilda. Þykir þetta rétt þótt einnig sé kveðið á um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með innlánsdeildum í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Einnig er í frv. lagt til að kveðið verði á um skil á endurskoðuðum ársreikningum á sex mánaða árshlutareikningum til Fjármálaeftirlitsins.

Í gildandi samvinnufélagalögum eru ekki tryggð réttindi þeirra samvinnufélaga sem áður hafa gengið úr Tryggingarsjóði innlánsdeilda til endurgreiðsluhlutdeildar úr sameignarsjóði. Er talið nauðsynlegt að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að það hindri ekki samvinnufélög í að hafa frumkvæði að því að slíta innlánsdeildum sínum og selja frá sér innlánin. Er því í frv. lagt til að í samþykktum tryggingarsjóðsins skuli m.a. kveðið á um eignarhald á honum og ráðstöfun eigna hans til samvinnufélaga við slit á honum.

Í 1. gr. er auk framangreindra breytinga kveðið á um að Tryggingarsjóður innlánsdeilda skuli undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti og er það nánar útfært í greininni. Með þessu móti er gætt samræmis við skattalagaákvæði varðandi Tryggingarsjóð innstæðueigenda og Tryggingarsjóð fjárfesta (áður Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða). Samráð hefur verið haft við fjmrn. um skattalagaákvæði frv.

Í 2. gr. er lagt til að ákvæði samvinnufélagalaga um innlánsdeildir verði endurskoðað að nýju eigi síðar en 1. janúar árið 2004, var 2003 í frv. á síðasta þingi, þar eð mikilvægt er að fylgjast vel með þróun þessara mála og bregðast við með löggjöf ef ástæða þykir til. Af hálfu fjárlagaskrifstofu fjmrn. er gert ráð fyrir að endurgreiða verði álagða tekju- og eignarskatta í Tryggingarsjóð innlánsdeilda að fjárhæð 2 millj. kr. á ári, en ekki er talið að frv. hafi að öðru leyti kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.