Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 13:41:09 (5134)

2001-03-01 13:41:09# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ein af forsendum byggðar og búsetu í landinu er gott aðgengi að almennri grunnþjónustu svo sem verslun, síma, fjarskiptum, póstþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntun og ekki hvað síst eldsneyti á bíla og vélar. Í þeirri miklu búseturöskun á öld hagræðingar og markaðsvæðingar vill fara lítið fyrir þessum þjónustuskyldum og jafnræði allra þegna landsins. Hefðbundin almenningsþjónusta breytir um rekstrarform, reglur um samkeppni leysa af reglur um samhjálp og hver verður undir? Jú, einstaklingar og samfélög sem síst geta varið sig, sem eru samkvæmt breyttu gildismati ekki lengur arðbær, en einmitt þessi grunnþjónusta sem ég hef hér minnst á er forsenda byggðar og búsetu í landinu. Bæði sýn, stefna og aðgerðir í byggðamálum verða að taka til þessara þátta með heildstæðum hætti.

Nú er t.d. væntanlegt frv. um sölu ríkisbankanna og heimild til að hlutafélagavæða sparisjóðina. Það er ljóst að við þessar breytingar fjarlægjast þessar þjónustustofnanir neytendur sína. Hvar sem við förum um landið heyrum við af áhyggjum fólks sem segir: Hvað verður nú um bankann okkar, verður honum lokað í næstu hrinu? Og missir þá okkar fólk vinnuna?

Því, herra forseti, verður að setja skilgreindar þjónustukvaðir á allar stofnanir og þau fyrirtæki sem bera ábyrgð á almannaþjónustu á landsvísu. Fólk stendur varnarlaust og getur hvergi snúið sér. Tökum t.d. að einmitt í dag er verið að loka tveim pósthúsum í Skagafirði, í Varmahlíð og á Hofsósi. Tilkynning eða bréf um það var sent út nokkrum dögum áður en umrædd lokun kom til framkvæmda. Fimm starfsmenn missa vinnuna, allt konur.

Íbúarnir hafa ekki mikið svigrúm en þeir bregðast við, safna undirskriftum og senda þær ásamt mótmælabréfi til Íslandspósts og samgrh. En hvað gerist? Þessi mótmæli eru ekki einu sinni kynnt á stjórnarfundi fyrirtækisins. Þarna voru mótmæli og undirskriftir nokkurra hundruða Skagfirðinga ekki virt viðlits. Og þegar leitað er svara um hver ráði hér ferð þá vísar hver á annan.

Hæstv. samgrh. sagði í umræðu hér í þinginu og aftur í fréttaviðtali að stjórn Íslandspósts færi með þetta mál. Framkvæmdastjórar Íslandspósts sögðu á fundi á Hofsósi 21. febr. sl. að lokanir þessara pósthúsa væru ekki mál stjórnarinnar.

Herra forseti. Í leyfisbréfi Íslandspósts frá 28. febr. 1998 stendur, með leyfi forseta, í 3. gr.:

,,Leyfishafa bera að taka við pósti frá almenningi án mismununar. Leyfishafi skal taka við og dreifa öllum pósti sem fellur undir 1. gr. jafnvel þó að þjónustan kunni að vera óarðbær að því er varðar einstakar sendingar.``

Herra forseti. Í 9. gr. leyfisbréfsins stendur:

,,Leyfishafi skal ákveða fjölda afgreiðslustaða fyrir almenning svo og dreifingu þeirra um landið í samræmi við reglur og markmið sem Póst- og fjarskiptastofnun setur til að tryggja aðgengi almennings að grunnpóstþjónustu.``

Þessar reglur hafa enn ekki verið settar.

Og í 12. gr. leyfisbréfsins stendur, með leyfi forseta, og ég bið að tekið sé vel eftir:

,,Leyfishafa [þ.e. Íslandspósti] er óheimilt að framselja rétt sinn og skyldur samkvæmt leyfisbréfi þessu.`` --- Er óheimilt að gera það samkvæmt því leyfisbréfi sem hann hefur fengið.

Herra forseti. Þrátt fyrir nokkuð skýrar reglur stendur almenningur ráðþrota að koma mótmælum sínum á framfæri. En öll þessi þjónusta, hvert starf, hver þjónustueining er hluti af heild í þeirri byggð sem við hér viljum hafa og byggðastefnu þjóðarinnar.

Ég hef því leyft mér, herra forseti, að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. iðnrh. sem fer jafnframt með málefni byggðamála:

1. Hefur iðnrn., sem fer með byggðamál, dregið saman upplýsingar um fækkun starfa og samdrátt í opinberri þjónustu sem orðið hefur á landsbyggðinni að undanförnu?

2. Hefur áætlun Íslandspósts hf. um fækkun pósthúsa, uppsagnir starfsfólks og skerta þjónustu víða um land verið kynnt iðnrh. eða hefur ráðherra beitt sér í málinu að eigin frumkvæði?

3. Verður við endurskoðun byggðaáætlunar gerð sérstök úttekt á stöðu almannaþjónustu úti um byggðir landsins með tilliti til forsendna fyrir þróun byggðar?

4. Verða við endurskoðun byggðaáætlunar sett viðmið um lágmarksgæði og aðgengi að almannaþjónustu svo sem hvað varðar póstþjónustu, síma og fjarskipti, þjónustu banka og annarra peningastofnana, verslunar og eldsneytisafgreiðslu?