Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 13:55:22 (5138)

2001-03-01 13:55:22# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér hefur verið efnt til umræðu um stöðu almannaþjónustu á landsbyggðinni og er það af hinu góða að fá tækifæri til að fara yfir þau mál vegna þess að það er nú svo að til viðbótar við þann vanda sem við Íslendingar erum í vegna byggðaþróunar eru gerðar tilraunir til þess, og þá ekki síst í pólitískum tilgangi, að gera aðgerðir tortryggilegar.

En eins og hæstv. iðn.- og viðskrh. hefur gert grein fyrir er unnið að því fullum fetum að standa sem best að hinni opinberu þjónustu um landið allt og það er sá ásetningur sem ríkisstjórnin hefur.

Póstþjónustan kemur inn í þessa umræðu og í fjölmiðlum að undanförnu hefur verið töluvert fjallað um þær breytingar sem verið er að gera á rekstri Íslandspósts hf. Ég vil undirstrika og láta það koma alveg skýrt fram við þessa umræðu að það er ekki verið að leggja af póstþjónustu. Það er verið að leggja á ráðin um að stórauka og bæta póstþjónustuna í landinu með því að hún verði fimm daga vikunnar um land allt, ekki bara í mesta þéttbýlinu. Og um leið og við erum að standa að þeim breytingum þá erum við að viðurkenna staðreyndir og reyna að hagræða í rekstri pósthúsanna og ná samstarfi við ágæt fyrirtæki, banka og viðskiptafyrirtæki í héruðunum og ná þannig þeim tilgangi okkar að styrkja stöðu póstþjónustunnar í landinu. Sá er tilgangurinn og ekkert annað.