Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:00:03 (5140)

2001-03-01 14:00:03# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu virðist vera fyrst og fremst breytingar á póstþjónustu í Skagafirði og ég vil af því tilefni segja að ég tel að það skipti mestu máli hvaða þjónustu verið er að bjóða upp á fremur en það form þjónustunnar sem er valið. Til að meta breytinguna sem þar er að verða þarf maður að hafa meiri upplýsingar um hvernig þjónustan verður að loknum breytingum borið saman við það sem hún er í dag.

Ég tek hins vegar undir það að ákveðið lágmarksþjónustustig þarf að vera skilgreint. Það er nauðsynlegt til þess að mönnum standi til boða ýmis grundvallarþjónusta í dreifðum byggðum að ríkið taki að sér að veita hana a.m.k. að vissu lágmarki.

Ég er ekkert viss um að breytingarnar í Skagafirði séu neikvæðar, það getur vel verið að þær hafi það í för með sér að þjónustan batni að einhverju leyti.

Að öðru leyti vil ég segja um byggðamálin almennt að í nærri hálfa öld hefur verið rekin mjög öflug byggðastefna hér á landi sem hefur verið ákaflega sértæk að því leyti til að hún hefur fyrst og fremst miðað að því að byggja upp öflugt höfuðborgarsvæði. Árangurinn af þeirri stefnu hefur verið býsna góður. Það hefur tekist að byggja upp mjög öflugt svæði á suðvesturhorni landsins með fjölbreytta atvinnumöguleika, gott tekjustig og mjög góða þjónustu. Sú breyting sem þarf að verða er að við förum úr þeirri stefnu að leggja áherslu á eitt svæði á landinu yfir í aðra stefnu sem leggur áherslu á mörg svæði í landinu og að við beitum okkur fyrir því að á fleiri svæðum en höfuðborgarsvæðinu verði að finna sambærilegt val og er að finna á svæðinu hér.