Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:15:49 (5147)

2001-03-01 14:15:49# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. mælti í dag fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög sem snertir innlánsdeildirnar. Nú er einnig á dagskrá frv. um breytingu á lögum um samvinnufélög sem snertir þá rekstrarumgjörð. Um er að ræða möguleika til að breyta samvinnufélögunum í hlutafélög með það að markmiði að styrkja samvinnufélögin.

Í frv. sem kom til umræðu fyrr í dag var um að ræða ýmis ákvæði til að styrkja eiginfjárhlutföll innlánsdeilda samvinnufélaga og tryggja þar virkara eftirlit. Jafnframt var lagt til að skilyrði um eiginfjárkröfu samvinnufélaganna yrðu hert frá því sem nú er og ákveðið að miða við 15% í staðinn fyrir 18%, muni ég það rétt. Allt er þetta rétt og eðlilegt og í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á fjármagnsumhverfi og fjármálamarkaðnum. Sé litið á stöðuna núna, miðað við eiginfjárstöðu hjá innlánsdeildum sem sennilega eru um 15 þá standa fjórar innlánsdeildir mjög veikt. Hjá þessum fjórum kaupfélögum sem töluvert vantar upp á að ná því markmiði sem sett er um eiginfjárstöðu í frv. sem mælt var fyrir fyrr í dag og þarf það sérstakrar skoðunar við.

Ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég kem upp er frv. sem hér er á dagskrá. Það tengist frv. sem kemur á dagskrá á eftir. Það snertir þetta mál og varðar breytingu á tekjuskattslögum. Þessi mál voru einnig til umræðu á síðasta þingi og gengu þá til efh.- og viðskn. Leitað var umsagna ýmissa aðila um þessi frv. Ekki var mikið fjallað um þessi mál í efh.- og viðskn. á síðasta þingi en ég fór yfir þær umsagnir sem komu um þetta mál fyrir þessa umræðu.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér brá nokkuð við umsögn sem kom um þetta mál frá ríkisskattstjóraembættinu. Í því eru atriði sem ég tel nefndin þurfi að skoða mjög nákvæmlega. Ég furða mig á því að umsögn embættisins gengur út á að með þeim breytingum sem eru lagðar til á þessari rekstrarumgjörð samvinnufélaganna sé ríkissjóður að afsala sér skatttekjum með ýmsum ívilnandi reglum eins og þar kemur fram. Ríkisskattstjóri veltir því fyrir sér hvort ívilnanir í þessu frv. geti talist réttlætanlegar og geti haft fordæmisgildi.

Ég er hálfhissa á að þetta skuli ekki hafa komið fram í öðrum umsögnum um eitthvað af þessum frv., þ.e. að verulegar skattaívilnanir geti falist í ákvæðum frv. Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að fara yfir þessa umsögn frá ríkisskattstjóraembættinu og spyrja um leið hæstv. ráðherra hvort hann geti svarað því sem fram kemur í athugasemdum ríkisskattstjóraembættisins. Að öðru leyti ætla ég að geyma mér að fjalla um þessi þrjú frv. þar til þau koma fyrir efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti.

Í umsögn ríkisskattstjóra sem er frá apríl á síðasta ári kemur fram, þá er hann að gefa umsögn um þetta mál, þ.e. um breytingar á lögum um samvinnufélög og þessa rekstrarumgjörð, með leyfi forseta:

,,Markmið frumvarpsins er að auðvelda breytingu á rekstrarumgjörð samvinnufélaga og skilgreina eignaraðildina. Gengið er út frá því að framkvæmd þeirra reglna sem settar verða hafi ekki sem slík skattalegar afleiðingar fyrir viðkomandi félög og félagsaðila. Með frumvarpinu er skattskyldu við afhendingu verðmæta milli aðila aflétt. Tekjur sem samkvæmt almennum skattareglum teldust til skattstofns hjá móttakanda verða samkvæmt því að fullu skattfrjálsar. Hvorki leggst á almennur skattur né fjármagnstekjuskattur. Afsalar ríkissjóður sér því skatttekjum með slíkum ívilnandi reglum.``

Þetta er það fyrsta sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um. Getur hún tekið undir það að með þessu sé ríkissjóður að afsala sér skatttekjum og hversu miklum skatttekjum er ríkissjóður þá að afsala sér?

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið gengur út frá því að ákveðið verði nýtt stofnverð eigna í hendi viðtakenda. Gildir það stofnverð síðan við skattákvörðun við frekara framsal eignanna. Til að koma þessu í kring er annars vegar lagt til að séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs félaganna verði hækkaðir um fjárhæðir sem eftir standa þegar félögin hafa ráðstafað hagnaði í samræmi við lög og samþykktir sínar með því að afhenda félagsmönnum samvinnuhlutabréf í B-deild stofnsjóðs félagsins. Hins vegar er áformað að framkvæma sértækt endurmat sem skal byggt á verðmæti hreinnar eignar félaganna í árslok 1996. Hækkunin skal afhent félagsaðilum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félaganna.``

Ég spyr um það sem næst kemur. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Bent skal á að ekki virðast liggja fyrir upplýsingar um umfang breytinganna að því er varðar fjárhæðir þess sem um er að tefla eða fjölda þeirra félagsaðila sem tilkall gætu átt í slíka eignarhluta.``

Önnur spurning mín er varðandi þetta mál.

Þá segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Ríkisskattstjóra þykir rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum frumvarpsins sem við fyrstu sýn gætu vakið upp vafa.

Í greinargerð með frumvarpinu er að finna samlíkingu á breytingu á eigin fé við það sem heimilt er samkvæmt 43. gr. hlutafélaga um hækkun hlutafjár. Hér er ekki um að ræða sambærileg ákvæði.`` --- Það er lykilatriði, herra forseti, að hér er ekki um að ræða sambærileg ákvæði.

,,Í lögum um hlutafélög er útgangspunktur að hlutfallsleg skipting hlutafjár haldi sér.`` --- Hér komum við að öðru lykilatriði, herra forseti.

Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Aðferð frumvarpsins gerir ekki kröfu um jafna hlutfallsskiptingu.`` --- Aðferð frv. gerir ekki kröfu um jafna hlutfallsskiptingu eins og er útgangspunktur í lögum um hlutafélög.

Því næst segir:

,,Er það að vísu skýrt í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins að við hækkun stofnsjóðs kunni að þykja eðlilegt að nokkuð af hækkuninni skiptist jafnt milli allra sem félagsréttindi hafa en að öðru leyti verði hækkunin reiknuð í hlutfalli við einstakar stofnsjóðsfjárhæðir og að teknu tilliti til þess hve lengi þær hafa staðið inni hjá félaginu. Er ljóst að þarna geti verið um misvægi að ræða. Sama getur átt við um sértæka endurmatið.

Ríkisskattstjóri vill vekja athygli á því að með lögleiðingu þessa frumvarps er verið að afhenda félagsaðilum endurgjaldslaust verðmæti úr samvinnufélögum sem þeir hafa aldrei átt tilkall til samkvæmt lögum um samvinnufélög.``

Þetta finnst mér nokkuð alvarleg og athyglisverð ábending og spyr hæstv. viðskrh. hvort hún sé sammála ríkisskattstjóra um að með lögleiðingu þessa frv. sé félagsaðilum afhent endurgjaldslaust verðmæti úr samvinnufélögum sem þeir hafa aldrei átt tilkall til samkvæmt lögum um samvinnufélög.

Ég les áfram úr sömu umsögn, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt almennum reglum skattalaganna er þessi afhending tekjur sem greiða ber skatt af. Að hluta til eru þær orðnar til af óskattlögðum tekjum félagsins. Auk þess að fella niður skattlagninguna við afhendingu er búið til nýtt stofnverð í hendi eigenda sem leiðir til þess að þær tekjur sem mynduðust við afhendinguna koma ekki heldur til skattlagningar síðar, þ.e. við eftirfarandi sölu.``

Hér sýnist mér, herra forseti, að búnar hafi verið til sérkennilegar leiðir til skattaívilnunar með þessari breytingu sem ríkisskattstjóri gerir að mínu viti nokkuð alvarlegar athugasemdir við og ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra um.

Áfram heldur, með leyfi forseta:

,,Augljóst er að sú tilhögun sem lögð er til felur í sér frávik frá gildandi skattalögum og meginreglum þeirra.

Þótt slík frávik kunni að vera réttlætanleg í því tilviki sem frumvarpið fjallar um, þarf að hafa fordæmisgildi slíkrar ákvörðunar í huga þannig að þetta leiði ekki til krafna að eigin fé annarra félaga með óljósa eignaraðild verði deilt á milli nánar skilgreindra félagsaðila án skattlagningar.``

Ég spyr hæstv. ráðherra líka: Ef hún getur sýnt fram á réttlæti þessarar skattaívilnunar, hefur þá verið skoðað af hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh. hvort þessar skattaívilnanir, ef þær hafa sérstöðu í skattalögum og hægt er að réttlæta þær með einhverjum hætti, hvort þessar skattaívilnanir gætu haft fordæmisgildi?

Ríkisskattstjóri segir síðan að frv. sem er á dagskrá á eftir þessu og snertir þetta mál, væntanlega mælir hæstv. fjmrh. fyrir því, þ.e. um tekjuskatt og eignarskatt, fylgi engir sérstakir erfiðleikar við framkvæmd ákvæðanna. Engu að síður, herra forseti, hefur hann gert þessar athugasemdir.

Þetta var aðalerindi mitt í ræðustól þó ég gæti gert ýmislegt annað að umtalsefni varðandi þetta frv. Ég fór yfir það við 1. umr. þessa máls á síðasta þingi og tel óþarft að endurtaka það sem ég sagði þar, að yfir þau atriði og fleiri sem snerta innlánsdeildirnar og rekstrarumgjörðina verði farið í efh.- og viðskn. Mér finnst nauðsynlegt og eðlilegt að ég fái fram álit hæstv. viðskrh. eða þá hæstv. fjmrh. á athugasemdum ríkisskattstjóra sem lúta að frv. sem hæstv. viðskrh. hefur mælt fyrir, um rekstrarumgjörðina. T.d. þegar mælt verður fyrir frv. sem tengist þessu síðar í dag. Eðlilega hlýtur hæstv. viðskrh. að hafa gert sér grein fyrir skattalegri meðferð á þeim þáttum í frv. af því að um það snúast þær athugasemdir og ábendingar, alvarlegar að mínu viti, frá ríkisskattstjóra.

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hennar.