Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:29:41 (5148)

2001-03-01 14:29:41# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það ber vel í veiði að hér skuli frv. til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög vera á dagskrá. Reyndar hafði ég hugsað mér að segja nokkur orð um það mál hvort eð er en til þess hafa gefist fleiri tilefni. Það vildi svo til að hæstv. viðskrh. var í sínum besta ham áðan. Eins og oft ber við nú orðið með ráðherra, notaði hún þá aðstöðu sína, sem síðasti ræðumaður í takmarkaðri umræðu til að ráðast að þeim sem hafa kannski áður tekið þátt í umræðunni og eiga ekki samkvæmt þingsköpunum möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér eða svara fyrir sig. Ég hef tekið eftir því, herra forseti, að mikil breyting hefur orðið á framgöngu manna á þinginu og ekki til hins betra, verð ég að segja. Menn virðast hættir að taka tillit til þess, séu menn síðustu ræðumenn umræðu og beri því að haga ekki ummælum sínum þannig að aðrir hafi ástæðu til að svara fyrir sig eða bera hönd fyrir höfuð sér án þess að geta það samkvæmt þingsköpunum. Sú var tíðin að menn reyndu að fara með þetta hlutverk af tillitssemi, að vera síðustu ræðumenn og ljúka umræðum. Það er liðin tíð, a.m.k. í tilviki hæstv. viðskrh. sem hefur ítrekað leikið þetta. Ég hef tekið eftir því og oftar en ekki hefur það beinst að þeim sem hér talar. Þá á svona að reyna að nota tækifærið og jafna aðeins reikningana í trausti þess að menn geti ekki komið aftur og svarað fyrir sig. Það er ekki mjög hátt risið á þessari framgöngu hjá stjórnmálamönnum, er það?

[14:30]

Hæstv. viðskrh. gerði það sérstaklega að umtalsefni að ég væri einn fárra manna, það er sjálfsagt rétt, sem haft hefði fyrir því að segja mig úr kaupfélagi. Það lá í orðunum hennar að það væri til marks um hversu mikill óþurftarmaður ræðumaður væri. Hún sagði að kaupfélögin hefðu verið mikilvægar máttarstoðir byggðarlaganna, erfiðleikar þeirra áfall að sama skapi o.s.frv. Auðvitað er ýmislegt til í því. Ég mun fara aðeins yfir það en ég ætla líka að gera grein fyrir því hvers vegna ég sagði mig úr kaupfélagi. Það kann að vera að hæstv. viðskrh. þyki fróðlegt að vita hvers vegna.

Nú er það svo, herra forseti, að ég er alinn upp sem samvinnumaður og ég er það í hjarta mínu. Ég er ákaflega hlynntur því að fólk vinni saman og leggi saman kraftana til að ná fram sameiginlegum markmiðum. Það er engin spurning um að samvinnuhugsjónin er í grunninn göfug hugsjón og vakningin samfara tilkomu samvinnuhreyfingarinnar í landinu á síðustu áratugum 19. aldar og framan af 20. öldinni var stór hluti af framfarasókn þjóðarinnar. Ekki síst átti það við um landsbyggðina og til sveita. Það er alveg ljóst.

Hvað voru menn að gera með því að byggja upp samvinnuhreyfinguna? Menn náðu fram forræði verslunarinnar í eigin hendur inn í landið og menn tóku forræði í þessari atvinnuuppbyggingu, verslun og ýmissi þjónustu sem síðan tengdist henni, úrvinnslu og útflutningi afurðanna o.s.frv. Menn byggðu það upp á þennan hátt, í raun í formi sjálfseignarstofnunar. Samvinnufélögin eru það í eðli sínu því að inneign stofnfélaga er mjög sambærileg við, getum við sagt, stofnfjáreign í sparisjóði. Nú er viðurkennt að í eðli sínu eru sparisjóðirnir sjálfseignarstofnanir. Þar af leiðandi má segja svipað um samvinnufélögin. Ég er hlynntur þessu formi og tel ágætt að menn reyni að vinna saman með þessum hætti, ekki síst í litlum byggðarlögum.

Þess vegna er dapurlegt, herra forseti, hvernig komið er fyrir þessari merku hreyfingu, samvinnuhreyfingunni og kaupfélögunum víða um land. Það er ákaflega dapurlegt. Hverjir skyldu bera mesta ábyrgð á því? Hverjir skyldu bera mesta ábyrgð á því hvernig málum samvinnuhreyfingarinnar var stjórnað síðustu áratugina? Framsóknarmenn. Að halda því fram er ekki rógur eða einhverjar dylgjur. Það er algerlega borðleggjandi að framsóknarmenn hegðuðu sér því miður víða eins og Framsfl. og samvinnuhreyfingin eða kaupfélögin væru eitt og hið sama. Það er hluti af ógæfu samvinnuhreyfingarinnar, m.a. vegna þess að aðrir en framsóknarmenn í viðkomandi byggðarlögum fengu á tilfinninguna að ekki væri ætlast til stuðnings þeirra við þetta fyrirbæri. Þeir upplifðu sig þannig að væru þeir ekki í Framsfl. þá ættu þeir ekkert að skipta sér af því sem kaupfélögin og samvinnuhreyfingin stæðu fyrir. Því miður var þetta víða svona.

Ég get t.d. upplýst að ég talaði við forsvarsmenn í kaupfélögum í kjördæmi mínu á sokkabandsárum mínum, ef svo má að orði komast. Ég ræddi þetta við suma þeirra, a.m.k. þá þeirra sem ég gerði mér vonir um að væru það víðsýnir að þeir áttuðu sig á hversu vitlaust væri fyrir samvinnuhreyfinguna að reyna ekki að laða menn úr fleiri flokkum en Framsfl. til stuðnings við sig og þátttöku í stjórnun fyrirtækjanna. Það bar því miður oftast lítinn árangur. Þessi inngróni samgróningshugsunarháttur framsóknarmanna varð bara ekki yfirstiginn. Þannig var m.a. í litlu kaupfélagi á heimaslóðum mínum sem ég var, mér liggur við að segja, alinn upp inn í og mér þótti vænt um. Ég var starfsmaður þess, á sláturhúsum og víðar um árabil o.s.frv.

Svo urðu þau ósköp, því miður, að ákveðið var að reisa hernaðarmannvirki í þessu litla byggðarlagi. Heimamenn snerust þar mjög almennt öndverðir við, höfðu ekki áhuga á sambúðinni við hernaðarmannvirki á nýjan leik. Menn voru brenndir af þeirri reynslu. Á Heiðarfjalli á Langanesi var radarstöð bandaríska hersins um árabil og reyndist mönnum lítil búbót þegar upp var staðið. Satt best að segja var allt atvinnulíf í því byggðarlagi drepið í dróma á meðan menn höfðu nóga vinnu hjá hernum. Hann gufaði svo upp einn góðan veðurdag, pakkaði saman og fór og eftir sat byggðarlagið í sárum. Það hafði vanrækt að byggja upp eigin atvinnuvegi á meðan. Þegar átti á nýjan leik að veifa dollurunum framan í menn þá höfðu menn lítinn áhuga á því. Yfirgnæfandi meiri hluti íbúa byggðarlagsins við Þistilfjörð skrifaði undir mótmæli gegn því að reist yrði radarstöð þar í byggðarlaginu. Það leiddi til þess að stjórnvöld, með Geir Hallgrímsson, þáv. hæstv. utanrrh., í broddi fylkingar, hrökkluðust út úr sveitarfélögunum og fengu land undir radarstöðina í Austfjarðakjördæmi, í landi Skeggjastaðahrepps.

En þá tók ekki betra við. Forkólfar kaupfélagsins á staðnum, framsóknarmennirnir, ákváðu að gera kaupfélagið að hluthafa ásamt með sjálfum sér í fyrirtæki til að standa fyrir hermanginu á staðnum. Það gat ég sem félagsmaður í þessu kaupfélagi ekki lagt nafn mitt við af samviskuástæðum og sagði mig úr því. Ég gerði það í og með fyrir hönd fjölmargra annarra sem langaði til þess en áttu ekki eins hægt um vik þar sem þeir voru viðskiptavinir og þátttakendur í ýmiss konar starfsemi á vegum kaupfélagsins. Það er ekkert leyndarmál, það var í og með táknræn aðferð og ég gerði þetta fyrir hönd margra annarra sem hefðu vel getað hugsað sér hið sama. Ef hæstv. viðskrh. telur að þetta sé sérstaklega saknæmt eða óhreinn blettur á minni stjórnmálasögu þá er ég tilbúinn að mæta hæstv. viðskrh. í rökræðum um það. Ég skammast mín ekki fyrir að hafa sagt mig úr kaupfélagi sem gera átti að þátttakanda í hermanginu --- ekki tommu, ekki gramm.

Hitt er svo annað mál að framsóknarmenn voru auðvitað hagvanir í þessum efnum. Ein ógæfa samvinnuhreyfingarinnar var auðvitað sú að þeir höfðu þvælt Sambandinu inn í hermangið með stofnun Regins. Það var hluti af helmingaskiptunum víðfrægu, þegar flokkarnir sem studdu hersetuna skiptu með sér bitanum með þeim hætti sem alkunna er. Svona var nú þetta. Skömmu síðar fór þetta litla kaupfélag því miður á hausinn. Það var dapurlegt að sjá það enda þannig. Það hafði verið hluti af uppbyggingu þessa byggðarlags um áratuga skeið og gert margt ágætt í þeim efnum. Reyndar er það svo að sú starfsemi sem var á þess hendi undir lokin er að mestu leyti áfram til staðar í byggðarlaginu undir öðrum nöfnum. Í þessu tilviki varð ekki stórfellt áfall að svona skyldi fara þó þannig hafi það orðið víða annars staðar.

Mætti ekki líka spyrja: Hvar liggur ábyrgð þeirra sem horft hafa upp á slíka þjónustustarfsemi á landsbyggðinni lenda í miklum erfiðleikum og lognast út af án þess að lyfta litla fingri henni til stuðnings? Hvar var Framsfl. þá? Hann hefur setið í ríkisstjórn mestalla öldina með þessum glæsilega árangri, m.a. í byggðamálum en staða kaupfélaganna er eins og raun ber vitni. Í nágrannalöndunum hafa menn iðulega gripið til aðgerða til að treysta rekstrargrundvöll, einmitt þessarar mikilvægu þjónustu sem þarf að vera til staðar í byggðarlögunum. Auðvitað verður hún að vera til staðar.

Stjórnvöld hafa enga fjarvistarsönnun, hvort sem um rekstur á hendi einkaaðila eða samvinnufélaga er að ræða, þegar menn lenda í erfiðleikum í byggðarlögunum ef um er að ræða lífsnauðsynlega undirstöðuþjónustu. Það er jafnmikill hluti af byggðavandanum og annað þó að í hlut eigi starfsemi sem hafi verið á höndum einkaaðila. Annars staðar þar sem byggðastefna stendur undir nafni er iðulega gripið til ráðstafana til þess að tryggja tilveru slíkrar þjónustu. Það hefur ekki verið gert hér. Framsóknarmennirnir, þrátt fyrir alla ást sína á kaupfélögunum, voru þvílíkar lyddur að horfa upp á þau drepast, þar á meðal verslun þeirra í strjálbýlinu, í stórum stíl án þess að gera neitt, sitjandi á lúkunum á sér í ríkisstjórn eiginlega allan tímann. Þannig er nú það. Þeir koma svo upp og ætla að gera aðra tortryggilega vegna þess að þeir hafi af hugsjónaástæðum neyðst til að segja sig úr kaupfélögunum sem átti að gera þátttakendur í hermangi. Ég gef ekki mikið fyrir slíkan keiluslátt. Það er nú þannig.

Einnig mætti velta öðru fyrir sér, herra forseti, úr því að samvinnuhreyfingin er hér undir og frv. sem á að reyna að lappa upp á leifarnar af samvinnufélagsrekstrinum í landinu. Það er vonum seinna að eitthvað sé reynt í þeim efnum. Það má velta því fyrir sér, með fullri virðingu fyrir því mikilvæga hlutverki sem er uppbygging kaupfélaganna og að mörgu leyti Sambandsins þjónaði á sínum tíma, hvort það fyrirkomulag hafi svo smátt og smátt farið að snúast upp í andhverfu sína, jafnvel verkað þannig að flytja fjármuni frá hinum dreifðu byggðum. Það verður að þora að ræða þetta eins og það er.

Í reynd gerðist það smátt og smátt að samvinnuhreyfingin varð í skipulagi sínu gríðarlega miðstýrð. Miklir fjármunir fluttust frá einstökum kaupfélögum í gegnum umboðslaun og viðskipti við miðstýrða batteríið hér, enda fór hér fram gríðarleg uppbygging. Það á kannski eftir að gera upp alla þá sögu einhvern tímann. Gerðist það í tilviki kaupfélaganna og Sambandsins, eins og í mörgum fleiri tilvikum vissulega, líka hjá einkageiranum, að þessi mikla miðstýringarárátta sem hér hefur ráðið ferðinni í uppbyggingu stjórnsýslu og atvinnulífs flytti fjármagn meira en þurft hefði frá framleiðslustarfseminni og byggðunum til miðstýrðra höfuðstöðva á suðvesturhorni landsins, fyrst og fremst í Reykjavík. Ætli samvinnuhreyfingin og uppbygging hennar hafi ekki átt sinn hlut í því? Ég segi: Jú, þannig kemur það mér fyrir sjónir. Ég hef ekki stúderað það eða gert á því rannsókn en mér sýnist það blasi við þegar maður flettir spjöldum þessarar sögu. En ég endurtek: Það sama á við um fleiri geira. Við getum tekið þar sölusamtök í sjávarútveginum sem voru að vísu að hluta undir hatti samvinnuhreyfingarinnar.

Ég býst við að hitt samvinnufélagið í sjávarútveginum, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hafi með uppbyggingu sinni hér að mörgu leyti verkað svipað. Sama má segja um mörg önnur landsfyrirtæki sem fjárfestu fyrir arðinn af starfsemi sinni í verulegum mæli í uppbyggingu höfuðstöðva hér á mölinni þó að auðvitað væri líka uppbygging á þeirra vegum eins og gengur vítt og breitt um landið. Kannski eiga menn einhvern tímann eftir að fara yfir alla þessa sögu. Varla fá framsóknarmenn fullkomna fjarvistarsönnun frá því eða vilja þeir hana? Spurningin er hvort þeir vilja bera þarna ábyrgð. Ætla þeir að reyna að þvo það af sér líka? Það er að reyna að bæði éta kökuna og geyma hana. Ekki stóð á því að þeir ættu kaupfélögin, samvinnuhreyfinguna, þegar það átti við. Ég man þá tíð að það þótti sjálfsagt að Framsfl. fengi ókeypis húsnæði undir kosningaskrifstofur sínar í kaupfélögum. Það þótti sjálfsagt. Ég man þá tíð að það var talið sjálfsagt að Tíminn væri skuldfærður í reikninga viðskiptamanna í kaupfélaginu. Það þótti sjálfsagt og eðlilegt. Þetta var eiginlega eitt og sama batteríið í hugum þeirra sem þarna um véluðu. Það var hluti af ógæfunni, hluti af því að bakstuðningurinn við þessa hreyfingu, andrúmsloftið í kringum hana, varð þrengra en ella hefði þurft að vera. Það gekk lítið að fá því breytt, því miður.

Að síðustu, herra forseti, varðandi þetta frv., þá verð ég að segja að mér finnst aðalumhugsunarefnið í því sambandi hversu seint það er fram komið. Þá meina ég ekki á þessu þingi heldur hversu seint það er fram komið fyrir hönd samvinnuhreyfingarinnar, samvinnufélaga og þess rekstrar sem þar er þó eftir undir því nafni í landinu. Hafa menn trú á því að þetta geti orðið þeim sem þar eru eftir til einhverra bóta? Telja menn til bóta að geta farið þessa millileið, á milli hreins samvinnufélags og hlutafélags? Það þekkist sums staðar erlendis að samvinnufélögin, ,,kóoperatífin``, hafa í raun umbreyst í einhvers konar millistig milli hlutafélags og samvinnufélags. Ég tel þess virði að skoða það. Ég ætla ekki að leggjast gegn því fyrir fram að lítt athuguðu máli. Mér finnst það koma vel til greina.

Mér finnst að vísu að menn þurfi að fara varlega í þeim efnum til að missa ekki sjónar á eðli þessa rekstrar og þeirri hugsun sem á bak við liggur. Nákvæmlega sama verður uppi á teningunum ef menn breyta sparisjóðunum í hlutafélög. Þá þarf virkilega að vanda sig til að missa það ekki út í vitleysu, liggur mér við að segja, missa það ekki út í að þessi tegund rekstrar, hugsunin og hugsjónin sem á bak við liggur glatist, því hún er góð. Sparisjóðirnir hafa, sem sjálfstæðar stofnanir í heimabyggð og með forræði á málum sínum, verið ákaflega þarfar og góðar stofnanir þar sem rétt er að málum staðið og vel á málum haldið. Þess vegna þurfa menn að mínu mati, herra forseti, að reyna að útfæra þessar breytingar þannig að menn geti haft eitthvert gagn af þessum formbreytingum. Væntanlega er hugsunin fyrst og fremst sú að menn geti ef svo ber undir sótt sér viðbótarfjármagn, sótt sér styrk í formi viðbótarfjár, hlutafjár, án þess að glata þó eðli sínu og einkennum sem samvinnufélög, sjálfseignarstofnanir eða hvað við nú viljum kalla það.

Ég hef, herra forseti, í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja að þessar lagabreytingar verði teknar til umfjöllunar í þingnefnd og skoðað hvort skynsamlegt sé að standa svona að málum. Ég fagna tækifærinu til að fá að ræða um samvinnuhreyfinguna og samvinnuhugsjónina. Ég er meira en tilbúinn til að halda því áfram, bæði nú í dag sem og endranær.