Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:49:19 (5150)

2001-03-01 14:49:19# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. er samkvæmt venju ákaflega málefnaleg í málflutningi sínum. Maður fer auðvitað að skilja betur örlög samvinnuhreyfingarinnar ef frammistaða glæstustu málsvara hennar er álíka og við höfum fengið að hlýða á hér. Þá er kannski ekki von á góðu.

Það er eins og mig minni að hv. þm. eigi frama sinn m.a. að þakka því að hafa ung verið kjörin fyrsta konan í stjórn Kaupfélags Eyfirðinga. Síðan stóð svo á í framhaldinu að það vantaði konu í stjórn SÍS og þá var hv. þm. einnig kjörin þar inn til forustu. Síðan lá leiðin áfram upp í þingsæti eins og kunnugt er. Hér talar sá sem gerst á að þekkja.

Hæstv. ráðherra spyr hvort ég sé stoltur af því að hafa sagt mig úr kaupfélagi af hugsjónaástæðum, af því að gera átti kaupfélagið þátttakanda í hermanginu. Svarið er já. Ég er mjög stoltur af því. Ég er ákaflega sáttur við að hafa þar fylgt sannfæringu minni. Ég vona að hún sé þannig í dag og ég mundi gera slíkt hið sama ef aftur kæmu upp sambærilegar aðstæður. Ég er ekki einn á báti í þessari afstöðu. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Sögunnar vegna læt ég það koma hér fram --- því má fletta upp ef hæstv. viðskrh. ætlar að vefengja orð mín --- að meiri hluti íbúa þessa byggðarlags lagðist gegn þessum áformum. Það liggja ósköp einfaldlega fyrir undirskriftir íbúa á þessu svæði gegn þeim áformum stjórnvalda að leyfa Bandaríkjamönnum að byggja ratsjárstöð á svæðinu.

Ég vil ekkert frekar hafa með hernaðarbrölt Bandaríkjamanna að gera í dag en á þessum árum. Ég væri ekki hótinu sáttari við að leggja nafn mitt eða stuðning við það sem Bandaríkjamenn gera um þessar mundir, t.d. í Írak og víðar, að svelta fólk í hel. Að því leyti er sannfæring mín alveg óbreytt, herra forseti.