Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:52:10 (5152)

2001-03-01 14:52:10# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hafi orð mín verið á þann veg að þau mætti skilja þannig að ég væri að tala niður til hv. þm. þá biðst ég velvirðingar á því, ég dreg það til baka. Það sem ég ætlaði að segja, og hefur þá tekist óhönduglega, var að samvinnuhreyfingin var vettvangur hv. þm. til að taka sín fyrstu skref á framabrautinni. Mér hlýtur að leyfast að kalla það svo. Hún varð þekktur einstaklingur í gegnum það, ef ég fer rétt með, að verða fyrsta konan til að sitja í stjórn Sambandsins. Er það ekki rétt með farið, hæstv. ráðherra? Síðan þekkja menn framhaldið.

Ég taldi innlegg hæstv. ráðherra hér áðan ekki sérlega málefnalegt. Þar vísaði ég m.a. til nafngifta. Það er ekki viðkvæmt mál fyrir mig þó ég sé kallaður kommúnisti og þó menn reyni að slá niður andstæðinga sína með því að klína á þá einhverjum nafngiftum sem þeir reikna með að séu neikvæðar og hlaðnar neikvæðum gildum. Ég tók hins vegar eftir því að það voru veigamestu rökin sem hæstv. ráðherra hafði fram að færa í glímu sinni við mig, að ég hefði verið kommúnisti á þessum árum og hæstv. ráðherra heyrðist ég vera það enn þá.

Mér er eiginlega alveg sama hvaða nöfnum menn reyna að klína á andstæðinga sína. Mér finnst skipta mestu máli fyrir hvað menn standa, hvernig þeir gera grein fyrir sér í pólitík en þó sérstaklega hvað menn gera. Að lokum dæmir það mennina, þ.e.: Fyrir hvað stóðu þeir og hvað gerðu þeir? Hvað voru þeir í reynd, ekki í orði heldur á borði?

Við skulum bara láta söguna, herra forseti, um að gefa okkur, mér og hæstv. núv. viðskrh., einkunnir í þeim efnum þegar frá líður.