Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:54:10 (5153)

2001-03-01 14:54:10# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. flutti hér mikla stólparæðu. Mér datt í hug hin góða bók, Ljós heimsins, þegar ég heyrði í honum. Í þeirri bók lét Pétur Þríhross móðan mása um ýmsa hluti en við tækifæri, eins og krían þegar hún stakk sér eftir æti, kom hann að því umræðuefni sem var á dagskrá. Ég fann það út í lokin að hér var frv. um samvinnufélögin, sem á að laga þau að nútímaviðskiptaumhverfi, til umræðu.

Varðandi þessar söguskýringar, þá verð ég að leiðrétta aðeins yfirferð hv. þm. um sögu samvinnuhreyfingarinnar og þátt Framsfl. í henni. Þáttur framsóknarmanna var vissulega mikill í samvinnuhreyfingunni og þeir aðhylltust hana. Ég vil t.d. ekki láta hjá líða að minnast samstarfs við fjölda góðs fólks úr öðrum flokkum innan hreyfingarinnar. Ég hef lengi unnið í þessari hreyfingu, fyrst sem starfsmaður og síðan sem fulltrúi starfsmanna í stjórn og þá stjórnarformaður í einu af stærri kaupfélögunum. Þar vann með mér fjöldinn allur af ágætu fólki, sérstaklega af vinstri væng stjórnmálanna en einnig af hægri vængnum. Það skipti við félagið, var í stjórnum og gegndi fleiri trúnaðarstörfum.

Hér í Reykjavík var hins vegar kaupfélag orðað við önnur stjórnmálaöfl. Það bjargaði því ekki að vera orðað við önnur stjórnmálaöfl en Framsfl.