Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:58:29 (5155)

2001-03-01 14:58:29# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. er farinn að bakka svolítið og viðurkennir að menn frá öðrum flokkum kunni að hafa komið inn í stjórnirnar en þeir hafi bara verið til sýnis. Ég ætla ekki að deila við hann um það. Í sjálfu sér er ástæðulítið að setja á langar ræður um þessa sögu.

Það er alveg rétt að eftir löng kynni af samvinnuhreyfingunni þá er nokkurt tilfinningamál fyrir mig að tala um hana. Ég viðurkenni það vel. Það er kannski tilfinningamál út af því að ég hugsa að innan samvinnuhreyfingarinnar hafi verið brugðist of seint við breyttum tímum og ekki lagað hana að breyttu umhverfi. Það er nokkurt tilfinningamál fyrir mig að tala um það. Ég viðurkenni það vel. Þau frv. sem hér liggja fyrir miða að breytingum. Það má vel vera að þau séu of seint fram komin en fyrir mig skiptir mestu máli að þessi frv. nái fram að ganga og gerðar verði þær tímabæru breytingar sem þau fjalla um. Það vil ég segja núna. Ég get hins vegar farið í stælur um söguna við annað tækifæri og ætla ekki að gera það í ræðum í dag.