Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 15:00:09 (5156)

2001-03-01 15:00:09# 126. lþ. 80.8 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég segi að ég viti að það sé hv. þm. Jóni Kristjánssyni tilfinningamál að ræða um kaupfélögin og stöðu eða örlög samvinnuhreyfingarinnar, þá meina ég það undir jákvæðum formerkjum. Ég skil það mjög vel og það liggur ákaflega nærri mér einnig að sýta þau dapurlegu örlög að mörgu leyti sem þessi merka félagsmálahreyfing hefur mátt þola. Mér finnst t.d. og fannst gjaldþrot Kaupfélags Þingeyinga, elsta kaupfélags landsins, alveg óskaplega dapurlegur atburður í ljósi þeirrar stórmerku sögu sem var að baki þess hvaða hugsjónaeldur og hvaða hugsjónamenn lögðu þar á ráðin þegar það félag var stofnað og þess sem það hafði þó afrekað í gegnum tíðina. En endalokin voru svo sem að mörgu leyti fyrirsjáanleg í kjölfar og í gegnum mikla erfiðleika á löngu árabili.

Ég held að það sé heldur ekki endilega svo að orsakanna sé eingöngu að leita í mistökum kaupfélagsmanna sjálfra og því að menn hafi brugðist of seint við. Jú, vissulega hefðu menn kannski mátt taka öðruvísi á ýmsu. En ég held að við eigum líka að horfa á það að ytri aðstæður þróuðust þannig að það varð þessum rekstri mjög óhagstætt. Þar koma til jafnóskyldir hlutir og byggðaþróunin, samdrátturinn í landbúnaðinum og síðan aftur ýmsar aðrar breytingar í samkeppnislegu og verslunarlegu tilliti þar sem það umboðssölukerfi og fleiri hlutir sem þetta byggði á reyndust bara ekki ganga upp og hafði í för með sér þær afleiðingar sem við þekkjum. Og líka vegna þess að stjórnmálamenn horfðu á þessa erfiðleika árum og áratugum saman án þess að gera mikið í málinu. Þar minni ég aftur á nærvist Framsfl. sem var yfirleitt ekki langt undan þar sem ráðum var ráðið í landinu á þeim áratugum sem erfiðleikar (Forseti hringir.) gengu m.a. yfir strjálbýlisverslunina.