Vátryggingarsamningar

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 15:21:43 (5165)

2001-03-01 15:21:43# 126. lþ. 80.11 fundur 460. mál: #A vátryggingarsamningar# (slysa- og sjúkratryggingar) frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Það mál sem ég tala fyrir er m.a. um það frjálsræði sem tryggingafélög búa við varðandi ákvörðun um hvern þau vilja tryggja og hvern þau vilja ekki tryggja. Það er, herra forseti, að mínu mati óeðlilegt að það sé háð geðþótta þess tryggingafélags sem um það fjallar í hvert skipti hvernig slíkum málum er háttað. Ef einstaklingur eða aðili er ábyrgur og metinn heill heilsu og flekklaus hlýtur krafan að vera að hann eða hún sem hefur vottorð læknis eða vitnisburð valinkunnra aðila um heilsu eða almennt sem samfélagsþegn á að fá slysa- eða sjúkratryggingu ef hann sækir eftir því.

Ýmsir aðilar telja sig vera afskipta og að þeir sitji ekki við sama borð og aðrir. Þar á meðal má benda á t.d. feita einstaklinga sem hafa orðið fyrir því að vera teknir af tryggingu hjá tryggingafélögum og svo ýmsir aðrir sem hafa verið óheppnir gagnvart slysum og fleiru eða þeir sem af einhverjum ástæðum hafa lent í höfnun tryggingafélaga þegar þeir hafa beðið um tryggingu af ástæðum sem ókunnar eru. Af þeirri ástæðu, virðulegi forseti, flyt ég frv. um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, og þá sérstaklega við 119. gr.

,,Við 119. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Nú er það sannað með vottorði læknis að sá sem óskað er eftir að slysa- eða sjúkratrygging taki til hefur að fullu náð sér af afleiðingum slyss sem hann hefur orðið fyrir eða sjúkdóms sem hann hefur átt við að stríða, og er þá félaginu óheimilt að neita honum um slysa- eða sjúkratryggingu.``

2. gr. Lög þessi öðlist þegar gildi.``

Í 119. gr. núgildandi laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, segir að vátryggingu megi taka gegn slysum og sjúkdómum, hvort heldur er vátryggjanda sjálfs eða þriðja manns. Tryggingafélög hafa um langa hríð haft þann hátt á að neita einstaklingum um slysa- eða sjúkratryggingar sem hafa orðið fyrir alvarlegum slysum eða átt við skæða sjúkdóma að stríða. Mat tryggingafélaganna hefur verið að áhættan af því að veita þeim slysa- eða sjúkratryggingar væri of mikil, auk þess sem iðgjöld fyrir slíkar tryggingar yrðu svo há að þeir sem helst þyrftu á þeim að halda hefðu ekki efni á að taka þær.

Sé málum hins vegar þannig farið að sá sem óskað er eftir að slysa- eða sjúkratrygging taki til geti lagt fram vottorð læknis um að hann hafi algerlega náð sér af afleiðingum slyss sem hann hefur orðið fyrir eða sjúkdóms sem hann hefur átt við að stríða eiga þessi rök ekki lengur við. Ástæðulaust er fyrir tryggingafélög að neita heilbrigðum einstaklingum um slysa- eða sjúkratryggingar. Í þessu tilviki verður jafnframt að hafa í huga ákvæði I. kapítula laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, en þar er að finna reglur sem geta leyst félag frá ábyrgð ef einstaklingur hefur gefið rangar upplýsingar um atvik sem ætla má að máli skipti fyrir félagið, eða leynt slíkum atvikum. Verði frumvarp þetta að lögum mun það því ekki koma í veg fyrir að hægt verði að hafna beiðni um slysa- eða sjúkratryggingar á öðrum forsendum en þeim sem um ræðir í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Greinargerð fyrir þessum málflutningi er ekki meiri en um þetta mál má hafa mörg orð og þau helst að hér er um mjög alvarlegt réttlætismál að ræða, réttlætismál einstaklinga gagnvart tryggingarisunum sem geta að geðþótta hagað sér eins og þeir nánast vilja því að þeir geta hafnað hverjum sem er í tryggingu. Þetta er sett fram vegna þess að einstaklingar, sem til mín hafa leitað varðandi þessi mál, hafa ekki getað fengið tryggingu þar sem þeir eru að reka atvinnustarfsemi af ýmsum ástæðum sem tryggingafélög telja sér þó ekki vera skylt að gefa upp. Meðal annars er eitt atvikið þannig að um er að ræða einstakling sem hafði fengið höfuðmein og fór í aðgerð og fékk það lagfært. Þessi einstaklingur stundar hestatamningar og vegna þess að tryggingafélaginu sýndist ekki ástæða til að tryggja þennan einstakling vegna þessa höfuðmeins sem hann hafði orðið fyrir, þá er því hreinlega hafnað að taka þann einstakling í tryggingu. Það er því eðlilegt að menn fari þá að velta fyrir sér hvaða skyldur og hvaða ábyrgð hvíli á tryggingafélögunum. Það er engin ábyrgð og engar skyldur sem hvíla á tryggingafélögunum nema það sem þeim sýnist sjálfum að þau vilji taka upp. Ekki er farið fram á meira en það að einstaklingar sem væru með gilt læknisvottorð og vitnisburð um heilsu njóti jafns réttar á við alla aðra og þeir fái tryggingu hjá tryggingafélögum óski þeir eftir því ef þeir eru ekki sekir á einhvern annan hátt eins og hér er getið um í greinargerð.

Herra forseti. Að lokinni þessari framsögu og umræðu óska ég eftir að málinu verði vísað til hv. allshn. og ég vona að það hljóti skjóta afgreiðslu vegna þess að þó nokkuð margir einstaklingar eiga þarna í hlut og hafa lagt fram gild vottorð lækna um algert heilbrigði og hafa ekki á neinn hátt annan komist í kast við lög sem gefa ástæðu til höfnunar beiðni um tryggingu.

Herra forseti. Ég læt þetta nægja en vonast til að málið fái skjóta afgreiðslu.