Útboðsstefna ríkisins til eflingar íslenskum iðnaði

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 15:53:12 (5169)

2001-03-01 15:53:12# 126. lþ. 80.12 fundur 487. mál: #A útboðsstefna ríkisins til eflingar íslenskum iðnaði# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka undir þessa þáltill. sem ég hefði svo gjarnan verið á hefði mér boðist það. Meginhugsun þáltill. snýst um útboðsstefnu íslenska ríkisins sem tengist atvinnusköpun, iðnþekkingu og þróun íslensks iðnaðar. Því miður er svo komið fyrir okkur á Íslandi að við stöndum orðið að baki nágrannaþjóðum í tækni varðandi viðgerðir vegna þess að við höfum ekki haft tækifæri til þess að sinna þeim verkum eða getað sinnt þeim verkum vegna þeirrar útboðsstefnu sem hér hefur ríkt. En ég minni á að tilskipun VII frá Evrópusambandinu fjallaði um að heimilt var fyrir ríkin sem aðild eiga að EES-samningnum, að greiða fyrir eða greiða niður ákveðin verkefni með ákveðnum hætti. Þetta var tekið af 1995 og ég vil segja því miður því meðan þetta var í gangi stóðust íslenskar skipasmíðastöðvar fullkomlega samkeppni við erlendar, ég tala nú ekki um í viðgerðarverkefnum.

Til að styðja mál mitt vil ég segja frá því að í Danmörku og Noregi og fleiri nágrannalöndum kepptust stjórnvöld við að skrifa undir samninga byggða á tilskipun VII sem tryggir viðgerðarverkefni hjá mörgum skipasmíðastöðvum í allt að tvö ár fram í tímann af því að þeir voru undirritaðir fyrir síðustu áramót. En íslensk stjórnvöld gæta því miður ekki að sér og Ísland skal bara standast hvaða samkeppni sem er við hvaða láglaunasvæði sem er, og það er óviðunandi.

Mér er sem ég sjái hvað varðar þau skip sem fara núna til Póllands og ekki munar nema 7 millj. kr. á verðtilboði, að það verði ódýrara þegar upp er staðið. Hér er um að ræða a.m.k. 20 ára gömul skip þar sem stálið er farið að láta á sjá og ég er alveg klár á því að þegar kemur að aukaverkum sem munu fylgja fer kostnaðurinn langt upp fyrir það sem menn gera ráð fyrir. Ég segi þetta úr þessum ræðustóli til að geta vitnað um þetta og menn líti í Alþingistíðindi þegar upp kemur að farið verður að greiða umframkostnaðinn. Síðan eru það eftirlitsmenn, dagpeningar, ferðalög og eitt og annað sem á eftir að bætast við sem ég tel að muni skipta mjög miklu.

Eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, tek ég heils hugar undir meginþema þessarar þáltill. og hefði gjarnan verið á henni hefði það boðist.