Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:08:50 (5172)

2001-03-05 15:08:50# 126. lþ. 81.6 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. kom inn á tengist þetta frv. um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt þeim frv. sem hæstv. viðskrh. mælti hér fyrir fyrir helgina og einkum öðru þeirra sem snertir rekstrarumgerð samvinnufélaga. Við þá umræðu fór ég nokkuð inn á athugasemdir sem fram komu í umsögn ríkisskattstjóra við þessi þrjú frv. frá síðasta þingi, þ.e. umsögn sem efh.- og viðskn. barst 28. apríl á síðasta ári. Mér fannst þar koma fram ábendingar og athugasemdir sem væru þess eðlis að eðlilegt væri að þingmenn fengju skoðun hæstv. viðskrh. eða eftir atvikum hæstv. fjmrh. á þeim athugasemdum sem fram koma hjá ríkisskattstjóra og að við mundum fá hana þegar við 1. umr. þessa máls.

Hæstv. viðskrh. var ekki kunnugt um þessa umsögn þótt hún hafi legið fyrir í nokkurn tíma, eða frá því í apríl á síðasta ári, og taldi sig því ekki í stakk búna til að svara þeim athugasemdum sem fram komu hjá ríkisskattstjóra. Því vil ég endurtaka nú við umræðu um þetta mál, sem snýr að breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þær athugasemdir sem fram koma hjá ríkisskattstjóra og kalla eftir viðbrögðum hæstv. fjmrh. við þeim.

Ég hef ekki borið ítarlega saman frv. sem nú er lagt fram og það frv. sem lagt var fram á síðasta þingi en sá ekki í fljótu bragði og heyrði ekki á máli ráðherra að nokkuð hefði verið tekið tillit til athugasemda sem fram komu hjá ríkisskattstjóra við efni þessara frv. nú þegar frv. er flutt á nýjan leik.

Ríkisskattstjóri gerir í umsögn sinni ekki út af fyrir sig athugasemd við þetta frv. sem við ræðum hér og segir að það séu engir erfiðleikir fyrirséðir við framkvæmd þessara ákvæða, en athugasemdir ríkisskattstjóra lúta einkum að frv. sem snýr að breytingu á rekstrarumgerð samvinnufélaga. Ég vil því, með leyfi forseta, fara yfir þær athugasemdir í örstuttu máli og kalla eftir svörum ráðherra og viðbrögðum við þeim athugasemdum sem fram koma hjá ríkisskattstjóra. Í fyrsta lagi segir ríkisskattstjóri:

,,Með frumvarpinu er skattskyldu við afhendingu verðmæta milli aðila aflétt. Tekjur sem samkvæmt almennum skattareglum teldust til skattstofns hjá móttakanda verða samkvæmt því að fullu skattfrjálsar. Hvorki leggst á almennur skattur né fjármagnstekjuskattur. Afsalar ríkissjóður sér því skattekjum með slíkum ívilnandi reglum.``

Fyrsta spurningin til hæstv. fjmrh. er hvort hann sé sammála því að ríkissjóður sé að afsala sér skatttekjum með slíkum ívilnandi reglum.

Í umsögn við þetta frv. frá fjmrn. kemur fram að frv. hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs en þá er spurning eins og ríkisskattstjóri nefnir hvort það hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ég fer yfir, herra forseti, aðeins stærstu atriðin sem ríkisskattstjóri bendir á í umsögn sinni en í annan stað segir hann, með leyfi forseta:

,,Bent skal á að ekki virðast liggja fyrir upplýsingar um umfang breytinganna að því er varðar fjárhæðir þess sem um er að tefla eða fjölda þeirra félagsaðila sem tilkall gætu átt til slíkra eignarhluta.`` Um það vil ég spyrja, hvort eitthvað liggi fyrir um það, herra forseti. Síðan segir í umsögn ríkisskattstjóra:

,,Í greinargerð með frumvarpinu er að finna samlíkingu á breytingu á eigin fé við það sem heimilt er skv. 43. gr. hlutafélaga um hækkun hlutafjár. Hér er ekki um að ræða sambærileg ákvæði. Í lögum um hlutafélög er útgangspunktur að hlutfallsleg skipting hlutafjár haldi sér. Aðferð frumvarpsins gerir ekki kröfu um jafna hlutfallsskiptingu. Er það að vísu skýrt í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins að við hækkun stofnsjóðs kunni að þykja eðlilegt að nokkuð af hækkuninni skiptist jafnt milli allra sem félagsréttindi hafa en að öðru leyti verði hækkunin reiknuð í hlutfalli við einstaka stofnsjóðsfjárhæðir og að teknu tilliti til þess hve lengi þær hafa staðið inni hjá félaginu. Er ljóst að þarna gæti verið um misvægi að ræða. Sama getur átt við um sértæka endurmatið.

Ríkisskattstjóri vill vekja athygli á því að með lögleiðingu þessa frumvarps er verið að afhenda félagsaðilum endurgjaldslaust verðmæti úr samvinnufélögum sem þeir hafa aldrei átt tilkall til samkvæmt lögum um samvinnufélög.`` --- Um þetta vil ég spyrja, hvort hæstv. ráðherra sé sammála því mati að verið sé að afhenda félagsaðilum endurgjaldslaust verðmæti úr samvinnufélögum sem þeir hafa aldrei átt tilkall til samkvæmt lögum um samvinnufélög. En síðan segir í umsögninni: --- ,,Samkvæmt almennum reglum skattalaganna er þessi afhending tekjur sem greiða beri skatt af. Að hluta til eru þær orðnar til af óskattlögðum tekjum félagsins. Auk þess að fella niður skattlagninguna við afhendinguna er búið til nýtt stofnverð í hendi eigenda sem leiðir til þess að þær tekjur sem mynduðust við afhendinguna koma ekki heldur til skattlagningar síðar, þ.e. við eftirfarandi sölu.

Augljóst er að sú tilhögun sem lögð er til felur í sér frávik frá gildandi skattalögum og meginreglum þeirra. Þótt slík frávik kunni að vera réttlætanleg í því tilviki sem frumvarpið fjallar um þarf að hafa fordæmisgildi slíkrar ákvörðunar í huga þannig að þetta leiði ekki til krafna að eigin fé annarra félaga með óljósa eignaraðild verði deild á milli nánar skilgreindra félagsaðila án skattlagningar.``

Um þetta spyr ég. Getur hæstv. fjmrh. fallist á að þessi ákvæði séu þannig sett fram að þau geti haft fordæmisgildi?

[15:15]

Þetta eru þau atriði sem ríkisskattstjóri vekur athygli á varðandi frv. um rekstrarumgjörð sem ég fæ ekki betur séð en séu þess eðlis að ákvæði þessa frv. feli í sér verulegar skattaívilnanir og sumar að mínu viti, a.m.k. á meðan ég ekki hef aðrar upplýsingar, séu út af fyrir sig óeðlilegar, þ.e. ef rétt er að með lögleiðingu þessa frv. sé verið að afhenda félagsaðilum endurgjaldslaust verðmæti úr samvinnufélögum sem þeir hafa aldrei átt tilkall til samkvæmt lögum um samvinnufélög.

Varðandi frv. sem hæstv. viðskrh. mælti fyrir einnig fyrir helgi um innlánsdeildirnar þá gerir ríkisskattstjóri ákveðnar tillögur um breytingar og nefnir þar til, með leyfi forseta:

,,1. gr. frumvarpsins er ákvæði um að Tryggingarsjóður innlánsdeilda skuli vera undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti. Þá er jafnframt í lokamálslið 6. mgr. kveðið á um það að skattfrelsi samkvæmt þessari málsgrein gildi einnig fyrir álagningu tekjuskatts og eignarskatts árin 1998 og 1999 sem þegar hafi farið fram.

Ríkisskattstjóri leggur til að í stað þess að fella niður þegar framkvæmda álagningu verði álagður skattur endurgreiddur á grundvelli laga.

Ríkisskattstjóri telur að betur fari á því að slíkt ákvæði um svo afmarkað tímalegt atriði verði tekið út úr 1. gr. frumvarpsins`` --- og það sett inn í ákvæði til bráðabirgða. Efni þessa ákvæðis til bráðabirgða er á þá leið: ,,Ríkissjóður skal endurgreiða álagðan tekjuskatt og eignarskatt á Tryggingarsjóð innlánsdeilda samkvæmt álagningu gjaldáranna 1998 og 1999.`` Þetta eru náttúrlega minni háttar atriði en samt leggur ríkisskattstjóri til að ákvæðið sé þess eðlis að eðlilegra væri að því sé fundinn staður í ákvæði til bráðabirgða.

Herra forseti. Það eru fyrst og fremst athugasemdir ríkisskattstjóra sem snúa að frv. um rekstrarumgjörð samvinnufélaga sem ég vil beina fyrirspurn til ráðherra um og heyra hvað hann hefur að segja um það mál áður en því verður vísað til efh.- og viðskn.