Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:34:41 (5175)

2001-03-05 15:34:41# 126. lþ. 81.6 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir skýr og skilmerkileg svör við fyrirspurnum mínum. Þau hafa varpað hafa nokkru ljósi á athugasemdir ríkisskattstjóra og verða örugglega rædd í efh.- og viðskn. og farið dýpra ofan í þessi mál. Hæstv. ráðherra fullyrðir að hann telji að ríkissjóður afsali sér ekki neinum skatttekjum með þessum breytingum. Ég ætla að leyfa mér að trúa því nema annað komi upp á borðið þegar við fjöllum um málið í efh.- og viðskn.

Ráðherrann telur líka að á hugsanlegu fordæmisgildi sé tekið í frv. hæstv. viðskrh. um sparisjóði. Við munum auðvitað skoða þann þátt líka í efh.- og viðskn.

Hið alvarlegasta í þessu máli og það sem mér fannst hæstv. ráðherra stoppa mest við er sjötta atriðið sem ríkisskattstjóri veltir fyrir sér, þ.e. hvort með lögleiðingu þessa frv. sé verið að afhenda félagsaðilum endurgjaldslaus verðmæti úr samvinnufélögum sem þeir hafa aldrei átt tilkall til samkvæmt lögum um samvinnufélög.

Hæstv. ráðherra bendir á að þarna eigi enginn annar meira eigendatilkall en þessir aðilar. Ég veit ekki hvað um það skal segja. Þetta eru atriði sem ég vil kanna vel í meðförum nefndarinnar. Ég spyr hæstv. ráðherra, um leið og ég þakka aftur fyrir svörin, ég spyr þá hæstv. viðskrh. ef hæstv. fjmrh. getur ekki svarað: Hvað erum við að tala um mikil verðmæti þarna á bak við? Hér er fullyrt að þau verði afhent félagsaðilum endurgjaldslaust úr samvinnufélögum sem þeir hafa aldrei átt tilkall til. Hvað erum við að tala um mikil verðmæti?

Ég ítreka að við munum fara vel ofan í þessi mál í efh.- og viðskn. Ég vona þó að hægt sé að fá svör við þessari spurningu við þessa umræðu.