Umgengni um nytjastofna sjávar

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:50:37 (5182)

2001-03-05 15:50:37# 126. lþ. 81.7 fundur 504. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (veiðar umfram aflaheimildir) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki lýst ánægju með svar hæstv. sjútvrh. Staðreyndin er eins og ég sagði áðan. Þetta er eini fiskurinn sem hægt er að sleppa lifandi í sjó þó hann hafi verið í allt að klukkutíma á dekki. Þá segir hæstv. ráðherra að skylt sé að koma með allan afla veiddan úr sjó að landi. Ég vildi óska að satt væri og farið væri eftir því almennt. Á sama tíma er talað um að allt 100 þús. tonnum sé hent í sjóinn aftur af afla sem er kvótabundinn. Ég segi það við hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, að á þessum málum þarf að taka.

Varðandi hættuna á því að verið sé að ganga á stofninn má vel vera að það sé engin hætta en þó vil ég benda á að á síðasta ári var sennilega ekki nema einn þriðji af hrognkelsagengd við Faxaflóasvæðið á móti því sem verið hefur og ekki var það mál rannsakað nokkurn skapaðan hlut. Ég held að kominn sé tími og ástæða til að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að rannsaka á hvern hátt þessi fiskur er nýttur og á hvern hátt menn umgangast þennan hluta af auðlindinni sem eru hrognkelsin. Það er virkilega ástæða til þess. Ég vonast til þess að eitthvað verði gert að frumkvæði hæstv. ráðherra en ekki að koma þurfi með þáltill. varðandi málið. En það mun ég gera verði ekki gripið til einhverra ráða núna á næstu dögum.