Umgengni um nytjastofna sjávar

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:52:34 (5183)

2001-03-05 15:52:34# 126. lþ. 81.7 fundur 504. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (veiðar umfram aflaheimildir) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. er ekki ánægður með svarið þar sem ég veit að hann er sérstakur áhugamaður um hrognkelsaveiðar og veit meira um þær en ég.

Mjög gildar ástæður þurfa að vera til þess að gerðar séu undantekningar á þeirri meginreglu að allan afla skuli komið með að landi og ef ekki er sérstök ástæða til að ætla að stofninn sé í hættu þá sé ég ekki ástæðu til að leggja fram tillögu til að gera þessar breytingar.

Vegna þess sem hv. þm. sagði um hrognkelsagengd og ástand þeirra veiða á síðustu vertíð og jafnvel má segja á síðustu tveimur vertíðum þá er það ekki rétt að ekkert hafi verið athugað í því máli. Fram hefur farið sérstök athugun á því máli og ég hef fengið þær niðurstöður að hluta og hluti af þeim niðurstöðum er að ekki sé sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af stofninum en jafnframt það að hluti af ástæðunni fyrir því að ekki veiddist eins mikið af hrognkelsi eins og áður var að þeir sjómenn sem stunda þessar veiðar stundi þær ekki af sama kappi og áður vegna markaðsaðstæðna.