Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 16:32:01 (5187)

2001-03-05 16:32:01# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með framsögumanni þessa máls, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, að hér er um geysilega stórt mál að ræða, hvernig við stýrum fiskveiðum okkar og hvernig aðgengi manna er háttað inn í greinina. Það er og hefur verið eitt af stærstu deilumálum undanfarin ár og áratug. Fyrst og fremst hefur kannski deilan um hvernig veiðiréttinum er úthlutað verið áberandi og síðan hafa menn auðvitað velt vöngum yfir eignarhaldinu, velt vöngum yfir því hversu mikið hald sé í ákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Hins vegar liggja fyrir dómar sem staðfesta að það er að marka 1. gr., það er að marka ákvæðið um þjóðareignina. Og dómar liggja fyrir um það að Alþingi geti breytt því hvernig veiðiréttinum er úthlutað með lögum.

Herra forseti. Eins og hér kom fram byggir frv. sem hér liggur fyrir á því að aflamarkskerfið verði notað áfram. Það byggir á því að ákvarðað verði með sambærilegum hætti og nú er hvert heildaraflamark hverrar veiðitegundar er og síðan hafi menn þá aðgang að veiðirétti sem verði í formi aflahlutdeildar.

Við erum fyrst og fremst að taka á því hvernig veiðiréttinum er úthlutað og lagt er til að úthlutun aflahlutdeilda án endurgjalds verði afnumin í jöfnum áföngum. Hér er lagt til að það gerist á tíu árum og að útgerðum fiskiskipa gefist þá í staðinn kostur á öflun aflahlutdeilda á markaði þar sem öllum útgerðum sambærilegra fiskiskipa er fenginn jafn réttur. Miklu skiptir, herra forseti, að lögin séu þannig að þeim sem svipað er ástatt um séu búnar sams konar reglur og með því sé leitast við að hafa jafnræði meðal aðila.

Í frv. er einnig ákvæði um að ef útgerð nýtir ekki þá aflahlutdeild sem hún hefur aflað sér á markaði er henni ekki heimilt að framselja þá hlutdeild, heldur skuli hún skila henni inn og er það í samræmi við það sem sú sem hér stendur og fleiri hafa viljað halda fram í umræðunni um framsal aflahlutdeilda, framsal og leigu, að óeðlilegt er, herra forseti, að menn hafi þann rétt að selja eða leigja það sem þeir ekki hafa greitt fyrir.

Samkvæmt þeim ákvæðum sem hér er lagt til að sett verði í lögin er það svo að menn greiða árlega fyrir þær aflahlutdeildir sem þeir hafa gert samning um til næstu ára, þannig að þeir eru í rauninni aldrei búnir að greiða nema þá fyrir það ár sem þeir eru að veiða á. Þeir hafa sem sé ekki greitt fyrir þær aflahlutdeildir sem þeir eru þó búnir að tryggja sér til ákveðinnar framtíðar í gegnum uppboð.

Eins og hér var farið yfir áðan er gert ráð fyrir að menn greiði í þremur jöfnum afborgunum árlega, jafnharðan og veiðunum vindur fram.

Það varð niðurstaða okkar eftir nokkra skoðun að eðlilegt væri að Fiskistofa hefði umsjón með útboðum aflahlutdeilda. Fiskistofa er sá aðili sem hefur yfirsýn yfir hvaða aflahlutdeildir skip hafa og hvernig veiðum þeirra er háttað. Það var því talið eðlilegt að Fiskistofa væri sá aðili sem hefði umsjón með útboðunum. En jafnframt er tekið fram að Fiskistofu sé gefin heimild til þess að fela öðrum aðilum einstaka þætti framkvæmdarinnar.

Einnig er mikilvægt, herra forseti, að fram komi að á þessum tíu ára aðlögunartíma verði útgerðum sem kaupa eða hafa keypt aflahlutdeild í núverandi stjórnkerfi, vegna þess að það verður auðvitað að ganga út á þessu tíu ára tímabili og ekki er fyrirhugað að breyta því, heimilt að afskrifa þær aflahlutdeildir sem þær kaupa eða hafa keypt í núgildandi kerfi.

Þetta er auðvitað mjög mikilvægt og mikilvægt að það komi fram vegna þess að stundum er bent á það að einstöku aðilar hafi keypt þær hlutdeildir sem þeir eru að vinna með. Það hafa menn gert fullkomlega á eigin ábyrgð því að lögin eru sannarlega þannig að fram kemur að það myndar ekki varanlegan eignarrétt þó að menn hafi aflahlutdeildir, einnig hitt að mönnum hefur verið heimilt að afskrifa fram til þessa það sem þeir hafa keypt. Og á meðan þetta kerfi er að ganga út teljum við eðlilegt að það sé þannig áfram. Einnig að þau útgjöld sem útgerðir verða fyrir vegna leigðs aflamarks innan ársins verði talin til rekstrarútgjalda eins og útgjöld vegna annarra aðfanga. Og jafnframt, herra forseti, að þróunarsjóðsgjaldið sem nú er innheimt af öllum aflahlutdeildum verði aðeins innheimt af þeim hluta sem úthlutað er samkvæmt núgildandi kerfi. Þeir sem farnir eru að fá aflahlutdeildir samkvæmt uppboði eða kaupa til sín hlutdeildir á uppboði greiði ekki þróunarsjóðsgjald af þeim, heldur verði það eingöngu þeir sem halda áfram að fá aflahlutdeildir samkvæmt gamla kerfinu á meðan það er að ganga út og auðvitað þarf að aðlaga lögin um Þróunarsjóðinn að þeim breytingum.

Fram kemur á hvern hátt við teljum að hægt verði að taka tillit til sjávarbyggða þar sem við mikla atvinnuörðugleika er að etja vegna skorts á afla til vinnslu. Ljóst er að ákvæði sem víkja frá lögunum með þeim hætti sem þar er lagt til hljóta alltaf að vera tímabundin og hljóta að miðast við sérstakar aðstæður. Og hér er það áskilið að viðkomandi sveitarstjórn hafi snúið sér til Byggðastofnunar sem gerir úttekt á stöðu atvinnumála á því svæði og unnt verði þá, ef það þykir eina úrræðið, að bregðast við með þeim hætti sem hér er lýst.

Sömuleiðis er brýnt að fram komi að hér er lagt til hvernig tekist verði á við umræðuna um brottkast og á brottkastinu í leiðinni, ef mönnum verður heimilt að koma að landi með það sem þeir veiða. Við höfum margoft ítrekað það í umræðu um brottkast og sjávarútvegsstjórnina að sú aðferð að viðhafa einungis boð og bönn er ekki til þess fallin að menn nái árangri. Betra er að reyna að búa til þannig reglur að þær laði menn til réttrar breytni. Þetta er nokkuð sem menn hafa komist að niðurstöðu um það almennt þegar fjallað er um auðlindanýtingu að ekki nægi að banna eða bjóða, heldur sé hitt til muna líklegra að skila árangri að menn hafi af því efnahagslegan ábata að ganga eins vel um auðlindina og mögulegt er og það skili sér þá í betri stöðu fyrir alla.

Við leggjum til að skipuð verði sérstök nefnd sérfræðinga sem hafi eftirlit með því hvernig framkvæmd laganna kemur til með að virka. Þetta er eins konar varnagli sem kemur í staðinn fyrir endurskoðunarákvæði í lögunum eins og við höfum vanist hingað til. En eðlilegt er, herra forseti, að menn viðhafi slík vinnubrögð, fylgist með því nákvæmlega hvernig lagaákvæði virka og skili síðan Alþingi skýrslu eftir tiltekinn tíma þar sem hægt verði að taka afstöðu til þess hvort ástæða er til breytinga eða hvort ástæða er til að skerpa á einstökum ákvæðum eða hvernig væri þá betra og réttara að standa að hlutum.

Ég ætla síðan loksins að nefna að í frv. segir að við viljum auk þess leggja til að óheimilt verði að fresta greiðslu skatta af hagnaði af sölu hlutabréfa og vekja athygli á því að frv. þess efnis var flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar fyrr í vetur. Skömmu síðar, eða nokkrum vikum síðar, flutti hæstv. fjmrh. frv. sem tók skref í sömu átt og við afgreiðslu þess frv. voru ákvæði frv. Samfylkingarinnar borin upp sem brtt. en þau voru öll felld. Því er ljóst að ekki er vilji fyrir því að fara þá leið sem við töldum að rétt væri að fara. Eigi að síður er í þessu frv. gert ráð fyrir að sú leið verði farin og í fyllingu tímans átti menn sig á því að rétt sé að skoða það ákvæði enn frekar en gert var nú fyrir áramótin.

Eins og fram komi hjá 1. flm. frv. er þetta frv. stefna Samfylkingarinnar hvað varðar úthlutun veiðiréttar og stjórn fiskveiða. Auðvitað er hægt að útfæra einstaka þætti frekar, en hér hafa útlínurnar verið dregnar og þær byggja á því, herra forseti, að kerfið sé einfalt. Það sé gegnsætt. Það sé kerfi sem allir skilja. Það sé kerfi sem sé líklegt til að skapa sátt. Það sé kerfi þar sem útgerðarmenn geta reiknað með því að þeir hafi vinnufrið, að þeir viti nokkurn veginn hvað við tekur á næstu árum og hvernig umhverfi þeim verði búið. Þetta kerfi byggir á markaðslausnum. Það byggir á því að þeir sem eru best til þess fallnir að stunda útgerð hafi til þess tækifæri, þeir fái slíka möguleika. Að kerfið sé opið fyrir endurnýjun en ekki lokað eins og það kerfi sem við búum við í dag, sem eins og menn þekkja er þannig að tilteknum hópi hafi verið færð þau forréttindi að geta tekið ákvörðun um hvort sú aflahlutdeild sem úthlutað er er veidd af viðkomandi útgerð, hvort hún er seld og þá hverjum eða hvort hún er leigð og þá hverjum.

Reyndar hefur verið reynt að stemma stigu við því að menn gætu valið sér kaupanda eða leigjanda, en eigi að síður er kerfið í grófum dráttum þannig að það færir tilteknum hópi óhemjumikil völd gagnvart því hverjir fái að ráðslaga með þessa mikilvægu auðlind og ekki bara það hverjir fá að veiða, heldur virðist í mörgum tilfellum sem veiðiréttinum fylgi einnig vinnsluréttur, þannig að menn geti haft nokkurs konar hald á því hvernig fer með auðlindina allt frá því að aflinn er veiddur eða allt frá því kvótanum er úthlutað skulum við kannski segja og fram til þess að fullunnin vara er seld á erlendum markaði. Sumum finnst þetta ákjósanlegt fyrirkomulag, finnst að einokun í þessum efnum hljóti að vera ákjósanleg, en á það hefur verið bent hér í umræðum, bæði um sjávarútveg og önnur efni, að í öðrum greinum þykir það ekki. Við hljótum því að setja stórt spurningarmerki við það, hvort það hæfir í þessari mikilvægu auðlind að menn bjóði upp á slíka einokun. Ég vek athygli á því að síðar á dagskránni í dag er frv. sem gerir ráð fyrir aðskilnaði veiða og vinnslu. Fyrsti flm. þess er hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og er sú sem hér stendur meðflutningsmaður, ásamt með fleiri hv. þm.

[16:45]

Ljóst er að vilji er fyrir því, herra forseti, á hv. Alþingi að taka skipulagsmál sjávarútvegsins til gagngerrar endurskoðunar, einmitt með það að leiðarljósi að skapa viðskiptaliðamót þannig að þeir sem hafa til þess burði og getu, hafa nýjar hugmyndir, eigi möguleika á því að taka þátt í þessum atvinnurekstri en hann sé ekki lokaður af eins og verið hefur.

Mér finnst ástæða til þess, herra forseti, í umræðu um þessa stefnu Samfylkingarinnar að gefa ákveðna yfirlýsingu. Ég varð satt að segja svolítið klumsa í vikunni þegar Finnbogi Hermannsson, fréttamaður á Ísafirði, átti viðtal við hæstv. forsrh. sem var þá staddur á Flateyri og hann spurði hæstv. forsrh. um fyrningarleið og vísaði í skýrsu auðlindanefndar. Ugglaust er fyrningarleiðin honum ofarlega í huga því einn þingmaður Vestf. hefur nefnt hana sem möguleika í úthlutun veiðiréttar. Ekki var hægt að skilja annað af svörum hæstv. forsrh. en að niðurstaða auðlindanefndar hefði verið sú að um aðra leið nefndarinnar, svokallaða veiðigjaldsleið, hefðu allir verið sammála. En einungis þeir tveir sem skrifuðu undir með fyrirvara um að þeir vildu bara þá leið, hefðu verið þeir nokkrir sem gátu ekki sætt sig við hvora leiðina sem var.

Herra forseti. Þetta er mikill misskilningur og hefði verið hægt að forða ef eftir hefði verið spurt, ef menn hefðu velt því aðeins fyrir sér eða skoðað texta nefndarinnar betur en gert hefur verið. Í skýrslu nefndarinnar segir að varðandi greiðslu fyrir afnot auðlindarinnar hafi tvær meginleiðir verið teknar til skoðunar. Þar er nefnd fyrningarleiðin sem byggist á því að allar aflahlutdeildir verði skertar árlega um fast hlutfall en síðan verði þær endurseldar á markaði. Síðari leiðin, svokölluð veiðigjaldsleið, felst í beinni gjaldtöku. Síðan segir hér, með leyfi hæstv. forseta:

,,Tekið skal fram að einstakir nefndarmenn hafa mismunandi skoðanir á því hvora þessara leiða sé æskilegra að fara, þar á meðal hvernig orða skuli 3. mgr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Nokkrir telja aðeins aðra leiðina ásættanlega.``

Fyrst það hefur farið á milli mála, herra forseti, er eins gott að það fari að koma fram að sú sem hér stendur er ein af þessum nokkru. Hún er ein af þessum nokkru. Mér fannst aldrei koma til greina að fara svokallaða veiðigjaldsleið og hefur aldrei fundist koma til greina eftir að ég fór að skoða þessi mál, með þeirri nákvæmni og af þeirri íhygli sem ég hef gert á undanförnum missirum. Niðurstaða okkar í Samfylkingunni var enda löngu áður en auðlindanefnd skilaði áliti sínu orðin sú að fyrningarleiðin væri eina færa leiðin ef menn ætluðu að ná sátt í samfélaginu um úthlutun veiðiréttarins. Ég hafði líka skrifað og talað í þá veru að mér kom ekki til hugar að nokkur maður velktist í vafa um það í hvorum hópnum ég mundi vera ef þessir nokkrir væru skilgreindir. Þetta lá fyrir í nefndinni allan tímann og ef menn hefðu einu sinni innt eftir því, eða lesið heimasíðuna mína og séð hvað Morgunblaðið hafði eftir mér, þá hefðu menn getað séð þetta og sparað sér að gefa yfirlýsingar sem standast ekki.

Herra forseti. Mér fannst ástæða til þess að þetta kæmi fram einfaldlega vegna þess að það er vont ef ráðamenn gefa sér að nefndin hafi verið einhuga um aðra leiðina og ætla sér síðan að velja hana hugsanlega í ljósi þess. Svo var sannarlega ekki og ég vil ráðleggja hæstv. ráðherrum, því ég hef grun um að hæstv. sjútvrh. hafi kannski verið að hugsa á svipuðum nótum, þó hann hafi ekki fullyrt með sama hætti, að leita sér upplýsinga um það hvað orðið nokkrir merkir í skýrslu auðlindanefndar. Ég get fullyrt að það merkir ekki tveir. Það merkir nokkrir. Ef menn vilja vita hverjir þetta voru, þá er ugglaust hægt að fá upplýsingar um það, ég tala hér einungis fyrir sjálfa mig.

Herra forseti. Það er skylda okkar að sjá til þess að nýting auðlinda, náttúruauðlinda Íslands, sé hagkvæm. Skynsamleg nýting er hagkvæm nýting og skynsamleg nýting er líka nýting sem stuðlar að vernd og viðhaldi í þágu komandi kynslóða. Menn hafa á tyllidögum talað um aflamarkskerfið, talað um kvótakerfið eins og það væri verndarkerfi. Auðvitað er alveg ljóst að kvótakerfið er fyrst og fremst kerfi sem hefur tekið tillit til efnahagslegra þátta. Hins vegar eru menn, a.m.k. margir, á þeirri skoðun að með því sé líka hægt að halda veiðunum sjálfbærum, að við getum stundað sjálfbærar veiðar með því að nýta þetta kerfi en þá þarf að sníða af ákveðna galla eins og hér er verið að leggja til.

Herra forseti. Ég held að við getum að mörgu leyti notað það kerfi sem við höfum þróað en þær breytingar sem hér eru lagðar til eru þá líka nauðsynlegar.