Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 16:52:39 (5188)

2001-03-05 16:52:39# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að biðja hæstv. forseta að afsaka að ég skuli koma undir þessum lið en mér láðist í ræðu minni hér á undan að fá upplýsingar um það hjá hæstv. forseta hvort menn viti örugglega ekki af því að þessi umræða sé að fara fram, sérstaklega formenn þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Ég veit t.d. að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti því yfir í umræðum einhvern tímann í vor sem leið að hann vildi mjög gjarnan koma til umræðu um þetta þingmál okkar samfylkingarmanna til að benda okkur á vankanta á málinu sem þyrfti að fara betur yfir. Ég fagna því mjög ef við getum fundið betri leiðir en eru í þessu frv. Þó við höfum vandað okkur eins og við höfum getað er ekki ástæða til annars en að reikna með því að hægt sé að bæta þetta mál. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann láti formenn þingflokka á hv. Alþingi vita af því að þessi umræða sé í gangi.