Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 17:54:09 (5194)

2001-03-05 17:54:09# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[17:54]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða hér mjög mikilvægt mál. Þetta mál er á öðrum stöðum til umfjöllunar á vegum Alþingis. Formaður Samfylkingarinnar var rétt í þessu að ljúka ræðu sinni og bar fram ýmsar spurningar til hæstv. sjútvrh. Það hefði verið, að mér finnst, gott fyrir umræðuna til þess að hún gæti gengið vel fram og menn hefðu hér gagnleg skoðanskipti um þetta stóra mál að það hefðu komið einhver svör við þessum spurningum. Mér finnst satt að segja að hér á hv. Alþingi þurfi menn að sjá til þess að umræður fari þannig fram að þær skili árangri. Þær gera það ekki ef menn bregðast ekki við eðlilegum spurningum og umfjöllun um mál sem er til meðhöndlunar. Það fer sérlega fyrir brjóstið á mér a.m.k. þegar mál eins og þetta er til umfjöllunar að menn skuli ekki bregðast við og sjá til þess að umræðan skili því sem hún getur skilað þannig að menn taki þátt í henni og skili áfram þeim verkefnum sem eru fólgin í því að vinna einhvern sigur í málinu og koma á einhverri sátt með þjóðinni í þessu stóra máli.