Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:27:51 (5209)

2001-03-05 18:27:51# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hyggst nú halda áfram að hluta til þeirri ræðu sem ég var með fyrr í dag. Ég held að ég hafi verið þar staddur í máli mínu sem ég var að tala um möguleika á endurleigu aðila á aflaheimildum og lýsti mig ósammála því að slíkt fyrirkomulag héldi áfram þar sem það byði upp á þau leiðu afbrigði og afleiðingar sem verið hafa samfara því sem ég hef leyft mér að kalla kvótabrask og er alþekkt, þ.e. bæði þegar leiguliðinn er settur í þá stöðu að þurfa að borga þeim sem aflaheimildirnar hefur yfirverð, eða mjög hátt verð fyrir aflaheimildirnar, oft svo hátt að vandséð er hvernig menn gera út á það og verður í raun og veru að segja sem svo að þeir leiguliðar sem hafa verið að gera út í þessu kerfi í nokkur ár svo til aflaheimildarlausir hljóti að vera hinir hæfustu útgerðarmenn sem til eru í landinu. Að geta yfirleitt lifað við það kerfi sem er í dag að þurfa að leigja til sín aflaheimildir eins og í þorski fyrir 100 kr. kg og komast af við það. Reyndin hefur hins vegar verið sú að menn hafa stundum verið að láta áhafnir taka þátt í þessari leigu með hinum eða þessum hætti þó að það hafi verið talið óheimilt.

Ég hef hins vegar ekki komið auga á það eða mér hefur yfirsést það og verð þá vonandi leiðréttur af hv. flm. þessa frv. að því leigutímabili sem ég hef gert að umræðuefni, þessum leigumöguleikum milli manna sem aflaréttinn hafa sé lokið innan tíu ára. Ég alla vega skil þetta svo í 3. gr. frv., þar sem segir:

,,Heimilt skal þeim útgerðum sem leigja til sín aflahlutdeild að framleigja 50% aflamarks og skipta á veiðiheimildum innan síns útgerðarflokks á því fiskveiðiári sem stendur hverju sinni.``

[18:30]

Mér hefur kannski sést yfir að þetta væri tímabundið ákvæði. Ég leit svo á að það væri ótímabundið. Ég hef ekki komið auga á að þetta ákvæði væri fellt út eftir tíu ár. Ég skil að þetta er á aðlögunartíma en ég sé ekkert sem fellir það út eftir að tíu árum er lokið og held því þess vegna fram að leiguframsalið sé áfram inni og þurfi þá athugunar við. Ef það hefur verið vilji flutningsmanna og meining að þetta hyrfi út eftir tíu ár, þá er þess a.m.k. ekki getið eða ég kem ekki auga á það en kannski hefur mér yfirsést það. Ég ætla ekki að fullyrða um það en það verður þá leiðrétt síðar.

Það er annað atriði sem mig langar til að fræðast um í þessu. Það segir svo í 2. gr.: ,,Heimilt er að svæðisbinda veiðar einstakra tegunda enda liggi fyrir tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um hámarksveiðiþol þeirrar fisktegundar sem um ræðir á viðkomandi svæði.`` Nú þekkjum við auðvitað þessar veiðar um svæði, innfjarðaveiðar á rækju, skelfisksveiðar og kannski fleiri veiðar sem eru svæðisbundnar og hafa verið það í mörg ár. Ég vil hins vegar spyrja þeirrar spurningar hvort hér sé þá ekki líka verið að víkja að því að fleiri fisktegundir en þær sem hafa verið svæðisbundnar í veiðum undanfarin ár gætu verið svæðisbundnar ef því væri að skipta, ef þannig útfærsla væri sett upp, við skulum segja t.d. að strandveiðiflotinn og byggðirnar hefðu alltaf ákveðinn forgang til þess að fá að stunda sjó og sá réttur yrði ekki af mönnum tekinn að einhverju lágmarki. En maður hefur nú verið að velta fyrir sér hvernig mætti setja í löggjöf að byggðir sem eiga alla sína afkomu undir sjósókn og fiskveiðum, að ekki sé hægt í löggjöf að taka af þeim þann rétt eins og kannski hefur komið upp í fiskveiðistjórnarlögum okkar þegar kvótinn hefur horfið algerlega úr byggðarlagi og enginn veiðiréttur verið eftir í byggðinni. Ég held að það sé gjörsamlega óásættanlegt ástand.

Ef það er svo að formaður útgerðarmanna, Kristján Ragnarsson, telur að hann geti farið í sérstök málaferli út af einhverri mismunun út af smábátakerfinu, hvað þá með þá aðila í byggðum sem þar hafa búið alla sína tíð, sest þar að og stundað fiskveiðar á skipum útgerðarmanna og unnið úr aflanum, þegar búið er að selja þær heimildir í burtu? Hvar er þá réttur þeirra ef menn telja að það sé einhver voðaleg mismunun að hafa sérstök stýrikerfi, annars vegar varðandi smábáta og strandveiðiflota og hins vegar varðandi stærri skip? Reyndar hef ég aldrei skilið það markmið núgildandi laga að reyna að stýra smábátum eða reyna að færa þá til sömu aðferðar og frystitogurunum er stýrt og ég held raunar að engin þjóð hafi tekið sér það fyrir hendur nema Íslendingar að stýra fiskveiðum þannig. Þetta er vafalaust atriði sem ég fæ skýringar á hér á eftir og þetta kemur líka fram í 3. gr.: ,,Heimildir til sérveiða skulu boðnar til leigu sérstaklega aðgreint eftir svæðum og tegundum.`` Og þá spyr ég líka: Getur þetta ekki alveg eins átt við t.d. um fjórðungana sem menn tala oft um, Norðlendingafjórðung, Austfirðingafjórðung, Vestfirðingafjórðung o.s.frv. eins og eftir svæðum eins og við höfum skilið það í dag, þ.e. skelfisksveiðar innan Breiðafjarðar, eða rækjuveiðar innan Húnaflóa eða Öxarfjarðar o.s.frv.? Þetta var það sem ég hafði áhuga á að fá nánari skilgreiningu á hjá flutningsmönnum og fæ það vafalaust í svörum þeirra á eftir.

Að öðru leyti vil ég segja það að ég tel það nokkur tímamót þegar við erum að ræða í hv. Alþingi frv. sem tekur á breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og ég taldi það líka nokkur tímamót á síðasta ári þegar við vorum að ræða tillögur sem við fluttum saman, Frjálslyndi flokkurinn og vinstri grænir, um stefnumótun um það hvernig mætti komast frá núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og yfir til annars sem að sumu leyti byggir á hugsun sem er einnig í frv. Samfylkingarinnar, þ.e. varðandi fyrningu veiðiheimilda og eins varðandi skiptingu flotans í aðgreinda útgerðarflokka. Það virðist ekki vera með vanþörf á að menn séu með hugmyndir og ræði þær fram og til baka í þessu stórmáli því að ekki virðist mér á fréttum frá endurskoðunarnefndinni að það gangi svo vel hjá mönnum að komast þar áfram enda kannski ekki við því að búast. Ég var nýlega á fundi á Kaffivagninum hér í Reykjavík og hlustaði þar á orð forustumanns útvegsmanna, framkvæmdastjórans Friðriks Arngrímssonar, og hvað talaði sá ágæti maður um á þessum fundi? Jú, hann talaði um það að sennilega væri bara eðlilegast, og hv. þm. Kristinn Gunnarsson leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, ég held að hann hafi sagt að það væri sennilega eðlilegast að taka bara upp séreignarrétt fyrir útgerðarmenn á veiðiheimildum. Ég held að hann hafi bara orðað þetta ósköp einfaldlega svona.

Það skyldi þó ekki vera að það væru í raun og veru þær hugmyndir sem blunda hjá ríkisstjórninni og hæstv. sjútvrh. að halda þannig áfram á málum um stjórn fiskveiða að útgerðarmenn fái séreignarrétt til framtíðar litið á fiskveiðiheimildum í hafinu. Ég vona svo sannarlega að þetta séu getgátur einar hjá mér en ég heyrði framkvæmdarstjórann segja þessi orð og honum fannst það mjög eðlilegt, held ég, að setja þetta svona fram, að útgerðarmennirnir eignuðust bara þennan séreignarrétt á þessum heimildum.

Að lokum langar mig til að víkja örstutt að því að hv. þm. Gísli S. Einarsson talaði um, að Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh., hefði talað um það á síðasta landsfundi Framsfl. að mönnum fyndist það sárt og það særði réttlætiskennd fólks að horfa á menn taka mikla peninga út úr kvótakerfinu með sölu veiðiréttarins. Ég vil hins vegar minna á það sem var í bók sem hæstv. ráðherra gaf út 1991, þá leit hann svo á að slíkur söluréttur væri sárabót þeim sem hugsanlega þyrftu að hverfa frá útgerð.