Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:55:56 (5212)

2001-03-05 18:55:56# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:55]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það gæti verið áhugavert að fara yfir það hverjir eru mestir miðstýringarmenn á hinu háa Alþingi. Það er alla vega ljóst að við í Samfylkingunni studdum ráðherrann í þessu tegundartilfærslumáli hans en erum jafnframt á markaðsleiðinni þegar kemur að þessu frv. Og af því að hæstv. ráðherra var að tala um auðlindanefndarskýrsluna þá ætla ég að lesa upp lýsingu úr skýrslunni á svokallaðri fyrningarleið, en þar segir:

,,Fyrri leiðin, sem hér verður nefnd fyrningarleið, byggist á því að allar aflahlutdeildir verði skertar árlega um fast hlutfall en síðan verði þær endurseldar á markaði (eða á uppboði).``

Þetta er nákvæmlega sú meginlína sem liggur í gegnum það frv. sem hér er til umfjöllunar. Útfærslan er síðan kannski önnur, enda segir, svo ég haldi áfram að vitna í skýrsluna, með leyfi hæstv. forseta:

,,Einnig eru skiptar skoðanir um hversu hátt veiðigjald eða fyrningarhlutfall eigi að vera, enda hljóti það að lokum að ráðast af stjórnmálalegu mati, þar sem m.a. verði tekið tillit til afkomuskilyrða sjávarútvegsins.``

Herra forseti. Auðvitað varð að orða þetta svona vegna þess að fyrst veiðigjaldsleiðin er á annað borð tekin hér upp, þá þarf auðvitað að taka þetta fram því að þar er um að ræða leið þar sem stjórnmálamenn eiga að taka að sér að meta hvers virði aðgangurinn að auðlindinni er. Ef stjórnmálamenn eiga að gera það en ekki atvinnugreinin sjálf, þá hlýtur að þurfa m.a. að taka tillit til afkomuskilyrða sjávarútvegsins og þess vegna kemur þetta inn, um hversu hátt veiðigjald eigi að vera og svo fyrningarhlutfall, enda hljóti það að lokum að ráðast af stjórnmálalegu mati.