Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 19:03:13 (5217)

2001-03-05 19:03:13# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[19:03]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði aldrei að það væru engin vandamál og vissulega vildi ég að staðan væri betri hvað varðar ýsustofninn og ufsastofninn. Þar er vissulega verið að grípa til aðgerða og reyna að hafa áhrif á viðkomu stofnsins.

En varðandi fæðingartíðni þorsksins, þá fer það auðvitað að einhverju leyti eftir því hvað mæðurnar eru margar og það hefur einmitt verið eitt af helstu markmiðum uppbyggingar fiskstofnanna, þorskstofnsins sérstaklega, að stækka hrygningarstofninn og það hefur tekist mjög vel þannig að hann hefur náð þeim mörkum sem menn töluðu fyrir fram um að skipti sköpum í þessu efni, 500 þúsund tonn og að við þau mörk væri líkur til þess að við fengjum klak sem heppnaðist oftar en ekki og það virðist hafa gengið eftir. Ég get ekki bent á annað en þær tölur sem við höfum út úr mælingum Hafrannsóknastofnunar og síðan reynslu kollega hv. þm., skipstjóranna úti á sjó sem núna eru að berjast við að það er of mikill smáfiskur á miðunum sem gefur til kynna að klakið sé að umbreytast yfir í það að verða veiðanlegur fiskur á næstu missirum.

Það er hugsanleg skýring á því með íslenska síldarstofninn að það sé einhver náttúruleg stærð sem markast af náttúrulegum aðstæðum þessa dagana, þessi 500 þús. tonn. Ég get ekki svarað því hérna, en mér finnst það ekkert óeðlilegt og það er líffræðilega þekkt fyrirbrigði. En við höfum nýtt þennan stofn skynsamlega í langan tíma og byggt hann upp og það var það sem ég var að segja að okkur hefði tekist. Það sýnir að við getum náð árangri með vísindalegri fiskveiðistjórn sem ég vil reyndar heldur fara að kalla nútímalega fiskveiðistjórn.