Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 19:10:05 (5222)

2001-03-05 19:10:05# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Þar sem mér skilst að þessi umræða sé að taka enda ætlaði ég að hafa fáein orð um hana. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið að mörgu leyti athyglisverð og við höfum heyrt í fulltrúum allra flokka sem eiga aðild á Alþingi nema vinstri grænum sem hafa ekki mætt í þessa umræðu. En þetta er stór dagur í mínu lífi vegna þess að ótrúlega margir sem hafa talað og fyrir ótrúlega marga flokka hafa tekið undir sjónarmið sem ég hef staðið fyrir mjög lengi, þ.e. að það eigi að innkalla veiðiheimildir og leigja þær út á markaði. Ég tel að það sé í raun og veru eina ásættanlega niðurstaðan að menn finni einhvern sáttaflöt á leið sem verður í grunninn byggð á þessum aðferðum.

Ég ætla ekki að fara að kveikja í mönnum endilega til umræðu af því að ég veit að hæstv. forseti mun þá fresta fundi því að hann hefur ákveðið að hafa ekki fundinn mikið lengri en þetta. En ég get ekki að mér gert að nefna örfá atriði.

Um það að í þessari tillögu sé farið mjög bratt í aðlögunina, þ.e. tíu ár, vil ég segja að ég tel að það sé skynsamlegt að vera ekki með mjög langan aðlögunartíma hvað varðar þessar veiðiheimildir. Ég held að þegar menn fara að skoða þessi mál nánar og ef menn bera gæfu til þess að fara inn á þessa leið muni þeir komast að þeirri niðurstöðu að það væri betra fyrir útgerðina að það yrði ekki mjög langur leigutími á veiðiheimildum og menn gætu metið markaðinn, þ.e. hvað afurðirnar leggja sig á og í samhengi við útgerðarkostnað til skamms tíma því að það er ævinlega þannig að menn sjá ekki langt fram í tímann hvað varðar þessa kostnaðarliði hjá útgerðinni. Þess vegna væri betra að menn gætu metið þetta betur og það gera menn með því að meta það til skemmri tíma.

Um auðlindanefndina og það hvernig hún skilaði af sér er það að segja að ég hef alla vega skilið þá niðurstöðu með þeim hætti að þar hafi menn aldrei skuldbundið sig til þess eða hefðu aldrei verið að skrifa upp á niðurstöðu auðlindanefndar með þeim aðskilnaði, að þeir væru að meina það að þeir styddu hvora leiðina sem væri. Hvers vegna hefði þá átt að hafa það orðalag í afskilnaði nefndarinnar sem þar er og að það skuli vera tekið fram bæði að tveir menn skrifa sig algjörlega frá annarri leiðinni og um aðra er sagt um að nokkrir muni ekki geta fylgt báðum leiðunum?

Ég hef það fyrir satt að í þessari nefnd hafi verið stór meiri hluti fyrir því að fara fyrningarleiðina og það kemur mér ekki á óvart. Þess vegna finnst mér að svona frýjuorð, eins og mér finnst vera hægt að segja að hæstv. sjútvrh. hafi verið með um það að menn standi við sáttina, eigi ekki við og menn eigi að fara vel yfir þetta. Það verður þá bara að koma betur í ljós hvað er þar á bak við. Hins vegar verða menn líka að horfast í augu við það að þessi niðurstaða getur ekki orðið endanlega nema að sátt sé um hana hér á hv. Alþingi og að hún gangi þá það langt að hægt sé að búast við því að einhver sátt verði um þessa niðurstöðu með þjóðinni. Það gæti náttúrlega þýtt að þetta mál frestaðist enn þá lengur.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið hérna fram. Við höfum verið að færast í áttina til sáttar. Það er auðséð á þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í dag og að það skuli hafa komið fram jákvæð sjónarmið gagnvart þeirri leið sem hér er lögð fyrir frá svo mörgum aðilum sem hafa talað í dag og frá svo mörgum flokkum.

Ég hef þá lokið máli mínu, hæstv. forseti.