Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 14:31:45 (5227)

2001-03-06 14:31:45# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við sumpart frjálslega útleggingu hv. þm. Halldórs Blöndals á orðum mínum en vil segja það eitt að ég er að sjálfsögðu fylgjandi því og hef verið talsmaður þess að stórefla rannsóknir við Mývatn og þar hefði svo sannarlega mátt búa betur að ýmsu á undanförnum árum. Ég nefni sem dæmi að enn hefur ekki tekist að koma á heilsárslandvörslu á þessu svæði og er þó þarna talsvert af ferðamönnum allan ársins hring.

Það er hins vegar að mínu mati fullkomlega ósæmilegt að taka til orða eins og hv. þm. gerði að rannsóknastöðin hafi aldrei orðið til þess að lyfta undir eitt eða neitt í Mývatnssveit og leggja þá hluti þannig út að hún hafi nánast verið til óþurftar og einskis gagns og aðalvandamálið sé það að forstöðumaðurinn hafi ekki búið í Mývatnssveit. Staðreyndin er sú að rannsóknastöðin hefur skipt þarna miklu máli. Fyrir tilverknað hennar var t.d. gamli prestsbústaðurinn á Skútustöðum gerður upp og komið í myndarlegt og gott stand og er varðveittur og þjónar glæsilegu hlutverki. Þar er mikið um að vera frá því snemma á vorin og fram á haust. Það er einu sinni þannig að vettvangsrannsóknir í náttúrufræðum fara mjög gjarnan fram að sumrinu til eða yfir sumartímann, sérstaklega eins og aðstæðum er háttað í Mývatnssveit. Úrvinnslan fer síðan oft fram að vetri til og fer fram víða. Rannsóknirnar eru unnar af fjölda vísindamanna úr ólíkum greinum náttúrufræði og líffræði. Það eru engir slíkir fjölfræðingar til í dag að þeir gætu tekið sig upp og sett sig niður og unnið einir að öllum þessum fjölbreyttum rannsóknum á sviði líffræði, efnafræði, jarðfræði o.s.frv. þannig að þetta er unnið af fjölmörgum mönnum og úrvinnslan fer fram á fjölmörgum stöðum. Eftir stendur að það getur verið æskilegt markmið að reyna að byggja þetta eins mikið upp og aðstæður leyfa á staðnum. En menn verða að hafa þær aðstæður í huga sem rannsóknirnar verða að lúta og hvernig að þeim er staðið ef þeir vilja sýna umræðum einhverja sanngirni.