Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 14:59:33 (5233)

2001-03-06 14:59:33# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Kannski er ekki tilefni til að lengja mikið þessa umræðu. Ég get þó ekki látið hjá líða að takast á við hv. síðasta ræðumann um það sem fram kom í ræðu hans, þegar hann reyndi að búa til þá mýtu hér í ræðustól að ekki megi snúa við steini úti á landi án þess að allt verði vitlaust og allt þurfi að senda í umhverfismat í dreifbýli en hins vegar sé aldeilis annað uppi á teningnum hér í Reykjavík þar sem aldrei þurfi að gera neitt slíkt.

[15:00]

Herra forseti. Fullyrðingar af þessu tagi eru einfaldlega rangar og dæma sig sjálfar. Að sjálfsögðu gilda sömu lög um mat á umhverfisáhrifum í Reykjavík og annars staðar á landinu. Að halda því fram hér úr þessum ræðustóli að á höfuðborgarsvæðinu gildi önnur lög en á landsbyggðinni er einfaldlega rangt.

Hins vegar verðum við líka að vita og viðurkenna að hér í þessum sölum voru sett lög, árið 1973 eða 1974, um verndun Mývatns og Laxársvæðisins. Eftir þeim lögum er farið og langri og stórri reglugerð með þeim lögum. Eftir þeirri reglugerð og þeim lögum hefur verið unnið og samkvæmt þeim lögum nýtur svæðið sem hér um ræðir mjög víðtækrar verndar. Við getum ekki horft fram hjá því þegar við ræðum þau mál sem hér hefur borið á góma. Umrædd lög voru sett eftir mjög langvinnar og harðar deilur um virkjanir í Laxá. Þeir sem þekkja þá sögu eru færari en sú sem hér stendur til að rekja hana en sannleikurinn er sá að það var vegna umhverfisáhrifa sem orðið hefðu ef virkjanaáformin hefðu náð fram að ganga að þau lög voru sett.

Síðan hefur verið deilt um Kísiliðjuna og töku kísilgúrs úr vatninu. Öllum sem vilja vita er kunnugt um að í gildi hefur verið ákveðið samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar og Náttúruverndar ríkisins, sem þá var Náttúruverndarráð reyndar, um að námaleyfið sem Kísiliðjan er rekin á núna yrði tímatakmarkað og ekki endurnýjað. Í þetta samkomulag hefur verið vitnað í þingræðum, blaðagreinum, vísindagreinum og víðar. Flestum er því kunnugt um að námaleyfið er takmarkað og það hefur verið vitað a.m.k. allt aftur til ársins 1993.

Herra forseti. Ég get heldur ekki orða bundist vegna þeirrar gagnrýni sem kemur fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. e. á rannsóknastöðina við Mývatn. Ég verð að segja, herra forseti, að það eru ansi stór orð hjá hv. þm. að segja að rannsóknarstöðin hafi hvorki lyft undir eitt né neitt í Mývatnssveit. Sú gagnrýni sem forstöðumaður rannsóknastöðvarinnar, dr. Árni Einarsson varð fyrir úr þessum ræðustóli er líka ámælisverð, herra forseti. Sú gagnrýni var allsendis órökstudd og helst studd þeirri skoðun hv. þm. að mál væri til komið að afnema lögin um vernd Mývatns og Laxár.

Hv. þm. má hafa sínar skoðanir á þessum málum en, herra forseti, órökstudd gagnrýni af þessu tagi, úr ræðustóli hér í umræðu um kísilgúrnám úr Mývatni, á að mínu mati ekki rétt á sér nema til þess að vera vísað til föðurhúsanna. Það að hv. þm. skuli vera þeirrar skoðunar að taka eigi umsýslu hins verndaða svæðis úr höndum Náttúruverndar ríkisins segir líka sína sögu. Mér þykir það ábyrgðarhluti hjá þingmönnum, sem eiga að standa vörð um stofnanir á borð við Náttúruvernd ríkisins, að tala svo lágkúrulega niður til þeirra stofnana. Ég fullyrði, herra forseti, að rannsóknastöðin við Mývatn hefur látið afskaplega margt gott af sér leiða. Ég get nefnt eitt einfalt dæmi sem er mjög nýlegt. Síðasta vor var unnið afskaplega merkilegt þemaverkefni skólabarna í Mývatnssveit í samvinnu við rannsóknastöðina þar sem nemendur í skólunum fóru ásamt vísindamönnum rannsóknastöðvarinnar yfir náttúru vatnsins. Þar var kannað varp á fyrri tímum og fjallað um vatnsnytjar á Hofsstöðum, eggjatínslu og fjallað um lífríki vatnsins á breiðum grunni. Krakkarnir unnu stórkostleg og merkileg verkefni í samvinnu við vísindamenn rannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Rannsóknastöðin er til staðar í sveitinni og tekur að sér uppeldishlutverk nánast óumbeðin. Ég verð að viðurkenna að ég tel það til göfugra hlutverka og bendi á það hér til að það sé á hreinu að rannsóknastöðin lætur gott af sér leiða í Mývatnssveit, í daglegu lífi fólksins þar, jafnvel þó forstöðumaður stöðvarinnar hafi ekki fasta búsetu í sveitinni.

Hvað vitum við sem hér stöndum um þarfir stöðvarinnar og óskir, t.d. um aukið fjármagn til að gera stöðina öflugri? Hvað vitum við nema fjármagnsskorti sé um að kenna? Hvað vitum við nema hugur fólks sem þarna starfar standi til að gera meira og leggja meira af mörkum til lífsins í sveitinni heldur en stöðin er fær um að gera í dag? Í öllu falli er starf rannsóknastöðvarinnar í mínum huga merkilegt starf. Ég hef haft mikla ánægju af því að heimsækja hana. Ég hef notið þeirrar ánægju að lesa það sem frá vísindamönnum hennar kemur. Ég veit að sveitungarnir í Mývatnssveit hafa haft gagn og gaman af sambýli við þessa stöð. Hún á skilið að njóta sannmælis úr þessum ræðustóli.