Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 15:37:54 (5241)

2001-03-06 15:37:54# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að tala skýrt gagnvart þeim einstaklingum sem áttu hér í hlut með því að nefna Gísla Má Gíslason, formann stjórnar rannsóknastöðvarinnar. Í fyrri ræðu talaði hv. þm. um framkvæmdastjóra rannsóknastöðvarinnar þannig að þá er það hygg ég alveg skýrt til hvers verið var að vísa og til hvaða einstaklinga.

Í öðru lagi er það þá gott, ef það hefur leitt af þessum orðaskiptum hér, að það er að myndast hugur og samstaða um að blása til sóknar fyrir því að byggja upp og efla myndarlegt --- við getum kallað það eða notað á það vinnuheitin fræða- og rannsóknasetur eða fræða- og rannsóknamiðstöð, af því að hv. þm. hefur ímugust á orðinu setur og við skulum þá sleppa því og tala um fræða- og rannsóknamiðstöð. Vel má það vera sjálfstæð stofnun eins og rannsóknastöðin er reyndar, byggjandi á sérlögum og með sjálfstæðri stjórn. Þar yrði reynt bæði að halda utan um þær vísindarannsóknir sem vonandi verða áfram á þessu svæði og miðla fróðleik um svæðið sem er ærin ástæða til. Á Skútustöðum er kominn vísir að náttúrufræði- eða Mývatnssafni. Þetta mætti tengja mjög vel saman og síðan að einhverju leyti þjónustu við þann mikla fjölda ferðamanna sem leggur þangað leið sína og væri ekki til einskis unnið ef menn gætu tvinnað þarna saman fjölþætt hlutverk á sviði rannsókna, fræða og atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Varðandi lögin um Laxá og Mývatn, svo það sé algerlega á hreinu og það sé talað úr mínum munni hvaða viðhorf ég hef til þess, það sem ég sagði hér og endurtek er að ég get vel hugsað mér að taka þátt í því að fara yfir það hvort tímabært sé að endurskoða þessi lög í ljósi breyttra aðstæðna. Það er með öllum fyrirvörum gagnvart því að þau verði felld úr gildi. Ég tel ekki heppilegan tíma til þess meðan átök standa enn um málefni svæðisins heldur þegar friður og kyrrð hefur komist á. Þá er tímabært að huga að því en fyrr ekki.