Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 15:41:15 (5242)

2001-03-06 15:41:15# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða. Frv. gerir ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag sem taki við rekstri, eignum og skuldbindingum sameignarfélagsins Orkubús Vestfjarða.

Aðdraganda stofnunar Orkubús Vestfjarða má rekja aftur til 7. áratugar síðustu aldar en þá fór vaxandi áhugi fyrir því á Vestfjörðum að heimamenn tækju orkumál svæðisins í sínar hendur. Í kjölfar ályktana Fjórðungssambands Vestfirðinga fól Alþingi ríkisstjórninni að kanna óskir sveitarfélaga á Vestfjörðum um þátttöku í virkjunarframkvæmdum með það fyrir augum að stofna sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna.

Með lögum nr. 31 frá 31. maí 1976 var ríkissjóði og sveitarfélögum á Vestfjörðum heimilað að stofna Orkubú Vestfjarða og 26. ágúst 1976 undirrituðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna síðan sameignarsamning um Orkubú Vestfjarða. Hugmyndin byggðist á hagkvæmnisjónarmiðum fyrir þjóðarheildina. Talið var eðlilegt að staðarþekking sveitarstjórnar kæmi til við stjórn þessara mála sem varða hag fólksins og framtíð byggðar auk þess sem orkuframleiðslan á Vestfjörðum var staðbundið verkefni. Var talið eðlilegt að ríkisvaldið með sína fjármálalegu ábyrgð, heildarstjórn og yfirsýn yfir orkumál landsins tæki þátt í slíku sameignarfélagi ásamt íbúum sveitarfélaganna sem tækju á sig skyldur samfara rétti til að ráða eigin málum í samvinnu við og með aðstoð ríkisvaldsins. Frá stofnun Orkubús Vestfjarða hafa hins vegar orðið verulegar breytingar á stöðu raforkumála og áreiðanleiki og öryggi kerfisins aukist auk þess sem raforkuframleiðsla nægir til að mæta eftirspurn hvar sem er í raforkukerfinu.

Breytingar á rekstrarformi raforkufyrirtækja hafa verið mjög til umræðu undanfarin ár og skoðanir skiptar um ágæti þess að ráðast í slíkar breytingar. Árið 1996 var skipuð sérstök viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins. Urðu eignaraðilar sammála um að fyrir 1. jan. 2004 skyldi endurskoða sameignarsamning um Landsvirkjun, m.a. hvort ástæða væri til að stofna hlutafélag um Landsvirkjun.

Á 122. löggjafarþingi lagði þáv. iðnrh. fram till. til þál. um framtíðarskipan raforkumála sem hlaut eina umræðu og var afgreidd úr hv. iðnn. en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Í tillögunni var m.a. lagt til að rekstrarform raforkufyrirtækja, sem ríkið ætti eignarhlut í, yrði yfirfarið. Nýverið var skipuð viðræðunefnd sem hefur það hlutverk að ganga til viðræðna við fulltrúa eigenda Norðurorku um hugsanlega sameiningu Rariks og Norðurorku. Í störfum sínum skal nefndin miða við að stofnað verði hlutafélag um rekstur hins sameinaða fyrirtækis í starfsumhverfi nýrra raforkulaga. Þá hef ég lagt fram í þinginu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja. Á næstunni verður lagt fram frv. til raforkulaga sem kveður á um breytt skipulag raforkumála. Í tengslum við þær breytingar sem það felur í sér er eðlilegt að skoðað verði hvort rétt sé að breyta rekstrarformi orkufyrirtækjanna.

Breytingu á rekstrarformi Orkubús Vestfjarða má að nokkru rekja til viðræðna um kaup ríkisins á hlut rekstrarfélaganna í fyrirtækinu. Í gildandi lögum um Orkubú Vestfjarða er kveðið á um að eignarhlutföllum verði ekki breytt nema til samræmis við íbúafjölda á Vestfjörðum og að engum sameiganda sé heimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis allra sameigenda. Var það niðurstaða sameigenda að skynsamlegt væri að breyta Orkubúi Vestfjarða í hlutafélag. Með því yrði eigendum frjálst að ráða því hvort þeir seldu hlut sinn í fyrirtækinu, óháð vilja annarra eigenda og fyrirtækið betur undirbúið að starfa í nýju umhverfi raforkumála.

Í síðasta mánuði undirrituðu sameigendur Orkubús Vestfjarða svo samkomulag um breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins. Samkomulagið felur í sér að sameignarfélaginu verður slitið og stofnað hlutafélag um reksturinn. Samkomulagið, sem er fylgiskjal með frv., kveður á um helstu atriði þessarar breytingar og fylgir frv. samkomulaginu í öllum meginatriðum. Í frv. er gert ráð fyrir að hið nýja hlutafélag taki við öllum eignum, réttindum, skyldum og skuldbindingum Orkubús Vestfjarða og að réttarstaða fyrirtækisins haldist óbreytt að öðru leyti en því sem rekja má til rekstrarforms. Þannig er gert ráð fyrir að hlutafélagið yfirtaki einkarétt Orkubús Vestfjarða til orkudreifingar og sölu á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða og hlutafélagið verði undanþegið skattskyldu með sama hætti og sameignarfélagið er nú. Sameigendur eignast hluti í hlutafélaginu í samræmi við hlutdeild sína í Orkubúi Vestfjarða svo sem hún var 1. des. 2000. Þá er gert ráð fyrir að starfsmenn sameignarfélagsins eigi rétt á sambærilegum störfum hjá hinu nýja félagi. Í samkomulaginu er loks kveðið á um stöðu hlutafélagsins þar til breytt skipulag raforkumála tekur gildi.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni þá legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.