Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 17:15:34 (5250)

2001-03-06 17:15:34# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[17:15]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það fari ekkert á milli mála að þetta frv. felur í sér formbreytingu á félaginu. Þessi bókun ríkisvaldsins er auðvitað skoðun ríkisvaldsins. Það liggur líka fyrir hver er skoðun sveitarfélagsins.

En það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að sú hugmynd að kaupverði sem hefur verið sett fram af hálfu ríkisvaldsins miðast við það að gengið sé til uppgjörs á tilteknum skuldum. En það út af fyrir sig raskar engu um þetta frv., frv. er sjálfstæður gjörningur. Frv. er flutt af hæstv. iðnrh. vegna þess að undir hæstv. iðnrh. heyrir þetta fyrirtæki og það er hæstv. iðnrh. sem leggur það til að gerð sé þessi formbreyting á fyrirtækinu. Það er þess vegna sem ég stend alveg við það að samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna, sem fylgir með sem fylgiskjal, er, a.m.k. við þann yfirlestur sem ég hef gert á því, í samræmi við frv. sjálft, í samræmi við frumvarpstextann sjálfan, og þess vegna er það rétt sem ég sagði áðan í ræðu minni.

Varðandi Evróputilskipanirnar þá held ég að ég hafi orðað það þannig að Evróputilskipanirnar breyttu auðvitað rekstrarumhverfinu. Ég vakti síðan athygli á því að það væri ýmislegt annað að gerast sem gerði það knýjandi að breyta rekstrarfyrirkomulaginu úr því að vera sameignarfélag í hlutafélag, m.a. þær breytingar sem eru að verða í okkar viðskiptalífi, þær breytingar sem við sjáum að eru að gerast núna á raforkumarkaðnum með sameiningu ýmissa fyrirtækja, uppstokkun þeirra o.s.frv., sem gerir það að verkum að ef fyrirtæki á borð við Orkubú Vestfjarða á að hafa möguleika í þessum bardaga þá verður það að hafa öll tæki til að geta tekið þátt í þeim slag.