Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 17:50:23 (5257)

2001-03-06 17:50:23# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[17:50]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í ræðum þingmanna stjórnarandstöðunnar hefur komið fram að þeir gera því skóna að af hálfu ríkisvaldsins sé verið að fara illa með sveitarfélögin, pína þau og neyða til hluta sem sveitarfélög vilja ekki og samninga sem þeim séu óhagstæðir. Ég held að rétt sé að svara slíkum ásökunum, þessum samsæriskenningum sem eiga ekki við nein rök að styðjast, eins og fram hefur komið m.a. hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni.

Ef við förum aftur til þess tíma þegar orkubúið var stofnað fyrir rúmum 23 árum voru það fyrst og fremst Rafmagnsveitur ríkisins sem voru með raforkudreifingu og sölu á Vestfjörðum. Fyrir utan Rafmagnsveitur ríkisins voru tvær rafveitur ef ég man rétt, annars vegar Rafveita Patreksfjaðrar eða Patrekshrepps og hins vegar Rafveita Ísafjarðar. Þessar veitur voru lagðar inn í sameiginlegt félag ásamt eigu Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum og það var reiknað út að sveitarfélögin mundu eiga 60% í þessu sameinaða fyrirtæki. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram á Vestfjörðum í þau 20 ár sem ég hef komið nálægt þessum málum að sá samningur sem gerður var í upphafi hafi verið sveitarfélögunum óhagstæður. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram að ríkisvaldið hafi hlunnfarið og þvingað sveitarfélögin þar í þessum stofnsamningi á þann veg að ríkið tæki til sín stærri hlut en því bar og sveitarfélögin fengju minni hlut en þau áttu rétt á. Þvert á móti hafa menn talað um þennan samning í upphafi á þann veg að ríkið hafi í raun og veru lagt býsna vel í púkkið. Ef menn vildu eitthvað efast um skiptahlutföllin væri það frekar að menn gætu fært rök fyrir því að ríkisvaldið hefði fengið minna en hugsanlegt var að það gæti gert kröfu til. Strax í upphafi málsins er til orkubúsins þannig stofnað af hálfu ríkisvaldsins að ekki er hægt með nokkrum rökum svo mér sé kunnugt um að halda því fram að ríkisvaldið hafi farið illa með sveitarfélög á Vestfjörðum.

Það sem gerist í framhaldinu er að orkubúið ræðst í gríðarlega miklar framkvæmdir sem var vissulega full þörf á. Ekki er dregin fjöður yfir það. Þær framkvæmdir námu á nokkrum árum yfir liðlega 3 milljörðum kr. í ýmsum framkvæmdum sem lutu að því að treysta dreifingu og afhendingaröryggi sem full þörf var á að ráðast í. En hvernig skyldi þetta hafa verið borgað? Var stofnkostnaði velt yfir á raforkukaupendur eða var honum velt yfir á sveitarfélögin? Nei. Það var hvorugt gert. Þessum stofnkostnaði var velt yfir á ríkissjóð. Ríkissjóður yfirtók stóran hluta af þessum skuldum og létti þeim af Orkubúi Vestfjarða og því sem eftir stóð var síðan létt af orkubúinu með þeim hætti að því var breytt í víkjandi lán þannig að ef orkubúið var gert upp með rekstrartapi var ekkert greitt af þessu láni. Þeir sem hafa stjórnað orkubúinu síðan þetta var gert hafa gætt þess vandlega við ákvörðun um gjaldskrá að ekki yrði hagnaður af orkubúinu og því ekki komið til þess að það og þar með raforkukaupendurnir á Vestfjörðum hafi greitt af þessu láni. Hvað verður um þetta lán við þessi skilyrði? Það fellur auðvitað niður. Ríkið tekur þetta á sig. Þannig er heldur ekki hægt að segja að í þessum þætti málsins sé ríkið að fara illa með sveitarfélögin á Vestfjörðum. Öðru nær. Það eru full rök til þess að halda því fram að ríkisvaldið á þessum tíma sé að gera vel við þá sem eru raforkukaupendur og viðskiptavinir Orkubús Vestfjarða á Vestfjörðum. Bæði við upphaf málsins og síðan þegar orkubúið tekur til starfa og ræðst í sínar gríðarlega miklu framkvæmdir kemur ríkisvaldið því vel að því máli Vestfirðingum til hagsbóta.

Nú rísa hér upp þingmenn stjórnarandstöðunnar hver á fætur öðrum og reyna að búa til samsæriskenningar um að núna sé ríkisvaldið að fara illa með Vestfirðinga. Skyldi vera nokkuð til í því? Hvað er orkubúið verðlagt á mikið? 4,6 milljarða kr. Ég bið hv. þm. sem hafa verið uppi með þessar kenningar að gefa mér upplýsingar um hvers virði þeir telja að orkubúið sé. Telja þeir að orkubúið sé meira virði og því sé verið að hlunnfara Vestfirðinga ef sveitarfélögin kjósa að selja á því verði? Halda þeir því fram að þetta verð sé of lágt og verðmæti fyrirtækisins sé í raun meira en þarna kemur fram? Ég hef ekki heyrt einn einasta hv. þm. halda því fram.

Ég hef hins vegar heyrt menn halda því fram, þó að það hafi ekki verið í dag úr þessum ræðustól, að þetta verð væri allt of hátt og ríkið sé að verðleggja orkubúið til kaups á verði sem er mun hærra en ætla megi að sé markaðsverð. Því hef ég heyrt menn halda fram. Og ef eitthvað skyldi vera til í því, er þá ríkisvaldið að hlunnfara Vestfirðinga?

Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á verðmæti fyrirtækisins. Ég hef hvorki sökkt mér neitt ofan í það né tel mig hafa neina þekkingu til þess að kveða upp úr með það. En ég treysti því að þegar ríkisvaldið og sveitarfélögin á Vestfjörðum ná samkomulagi um verðlagningu á hlut sem hugsanlega gæti leitt til viðskipta þeirra á milli, þá sé eðlilega að því staðið. A.m.k. hef ég ekki heyrt einn einasta sveitarstjórnarmann af Vestfjörðum segja að þessi verðlagning sé óeðlileg og verið sé að hlunnfara sveitarfélögin á Vestfjörðum.

Ég er dálítið undrandi á hv. þm. vinstri grænna sem hér tala mjög gegn því að ríkið eignist fyrirtækið. Það er alveg nýtt. Ég hef þá misskilið þeirra pólitísku stefnu ef hún felst í því að þeir leggist mjög gegn því að ríkið eignist orkudreifingarfyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða. Kannski þurfa þeir að varpa betra ljósi á pólitíska stefnu sína, en ég hélt að hún fælist dálítið í því að treysta á ríkisvaldið. Í þessu máli virðist ríkja í garð ríkisvaldsins mikið vantraust og ég átta mig ekki á hvað veldur að þessu sinni, sérstaklega í ljósi áhugans sem ég heyri frá þingmönnum flokksins í öðrum málum á hlut ríkisins fyrir hönd almennings. En kannski kemur það fram síðar í umræðum á hverju sú andúð þeirra á ríkisvaldinu byggist í þessu máli.

Ég fæ ekki séð, herra forseti, að það séu nein rök fyrir þeim ummælum sem hér hafa fallið að ætla megi að verið sé að hlunnfara Vestfirðinga í málinu. Ég bið þá hv. þm. að koma með rökstuðning fyrir þeim kenningum sínum. Þvert á móti, miðað við alla sögu málsins sem ég er bærilega kunnugur frá upphafi, tel ég að ríkisvaldið hafi virkilega komið fram í málinu á þann veg að Vestfirðingar hafi notið góðs af. Og þó að ríkisvaldið eignist 100% hlut í Orkubúi Vestfjarða hef ég enga ástæðu til að ætla að fyrirtækinu verði lokað eða það flutt. Hvernig ætla menn að flytja slíkt fyrirtæki? Það sér hver maður að það verður ekki flutt.

Ég hef miklu fremur ástæðu til að ætla að ríkisvaldið geti og muni skoða möguleika á því að styrkja fyrirtækið með því að ætla því stærri hlut en það hefur í dag og ég bendi á að ríkisvaldið hefur tök á því að skoða slíka hluti og hrinda þeim í framkvæmd ef talið er skynsamlegt að gera það og mér finnst margt benda til þess að athuga eigi það mjög gaumgæfilega hvort ekki sé unnt að styrkja stöðu fyrirtækisins frá því sem nú er.

[18:00]

Herra forseti. Hinu er hins vegar ekki að leyna að málið er þannig vaxið að upphaf þess er hjá sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum. Ég þekki ekki annan flöt á þessu máli en þann að sveitarstjórnarmenn hafi óskað eftir því við ríkisvaldið að það kæmi til viðræðna við þá um möguleika á því að ríkið keypti af sveitarfélögunum. Það má vel vera að einhver annar telji sig vita betur og haldi því fram að ríkisvaldið eigi þar frumkvæði í málinu en mér er algerlega ókunnugt um það. Ég veit ekki annað en allt frumkvæði í málinu til margra ára hafi komið frá sveitarstjórnarmönnum.

Það er að mörgu leyti eðlilegt að sveitarstjórnarmenn velti þessum hlutum fyrir sér í þeirri stöðu sem vestfirskar byggðir eru og hafa verið á síðustu árum. Þegar menn horfa upp á það að möguleikar sveitarfélaganna til að fylgja eftir sveitarfélögum í öðrum landshlutum um þjónustu og uppbyggingu eru mjög svo af skornum skammti vegna fólksfækkunar, þá átta menn sig auðvitað á því að það dregur í sundur með vestfirskum sveitarfélögum annars vegar og sveitarfélögum annars staðar á landinu hins vegar. Þegar vestfirsk sveitarfélög standa höllum fæti í þessum samanburði, þá virkar það á þann veg að heldur stuðlar það að því að Vestfirðingar eigi undir högg að sækja en hitt. Menn hljóta því að velta því fyrir sér hvernig hægt er að bregðast við.

Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það er hægt að losa um eignir sem sveitarfélögin eiga. Ef það gæti leitt til þess að skuldastaða sveitarfélaga lækkaði verulega, þá gætu þau verið í þeirri stöðu að þau hefðu bolmagn til þess að sækja fram, bæta sína þjónustu og sækja fram. Hvert ár sem líður í þeirri stöðu sem vestfirsk sveitarfélög eru núna um þessar mundir er afar erfitt. Það ríður á að breyta þeirri stöðu fyrr en seinna. Ég tel því algert glapræði ef farið yrði að ráðum hv. þm. sem hér hafa lagt til að slá málinu á frest. Frestur þýðir í þessu máli að það kemur ekkert verr vestfirskum byggðum en aðgerðaleysi og frestur. Það er alveg ljóst. Þeir sem leggja til frest og hafa engar aðrar hugmyndir eða tillögur uppi í málinu eru að gera vestfirskum byggðum illt þó að það sé kannski ekki þeirra meining. Ég ætla mönnum það ekki að gera það af illum hug, en slík tillaga, ef farið yrði eftir henni, yrði versti kosturinn í stöðunni.

Ég tel hins vegar að fleira þurfi að koma til til þess að sú aðgerð að lækka skuldir komi að fullum notum. Það þarf að treysta grundvöll sveitarfélaganna þannig að á nýjan leik safnist ekki upp skuldir vegna fólksfækkunar því að við getum búist við því að að óbreyttu muni halda áfram að fækka í þessum byggðarlögum og þá mundi byrja að safnast upp á nýjan leik svipaður vandi og orðið hefur til vegna mikillar fólksfækkunar á síðasta áratug. Það þarf að girða fyrir að slík staða geti komið upp á nýjan leik og ég hef fulla trú á því að hæstv. félmrh. og hæstv. iðnrh. finni í sameiningu grundvöll af því tagi þannig að treysta megi að ekki sæki í sama farið á nýjan leik.

Ég vil svo segja varðandi félagslega íbúðakerfið, sem mikið hefur verið rætt um í þessu sambandi, að það var kerfi sem hefur skilað Vestfirðingum og öðrum mjög góðum árangri í gegnum tíðina. Mér finnst að menn tali um þessar mundir oft mun verr um þennan tíma en efni standa til. Það leynir sér hins vegar ekki að þegar fækkar í byggðarlögunum, þá kemur upp sú staða að það eru ekki til íbúar í öllum þessum íbúðum. Þá verður einfaldlega að horfast í augu við þann veruleika og bregðast við.

Ég hef þá skoðun að það sé langeðlilegast að bregðast við því með því að selja slíkar íbúðir á almennum markaði á því verði sem menn eru tilbúnir að borga fyrir þær. Það þjónar engum tilgangi að láta íbúðir standa auðar og halda uppi verði á þeim. Það þjónar hins vegar tilgangi að selja íbúðir, fá eiganda að íbúð sem notar hana og býr í henni jafnvel þó að söluverðið yrði lágt. Það lendir auðvitað á hinu opinbera að bera það tap og ég held að það sé mál sem mönnum sé ljóst að hlýtur að enda á þennan veg að ef ekki tekst að snúa íbúaþróuninni mjög hratt við þá verður a.m.k. næstu árin allmikið af íbúðum á þessu svæði sem erfitt verður að manna og þá sé eðlilegast að grípa til þess að koma þeim út, fá fólk til að eignast þær og nýta þær. Það muni aftur styrkja byggðirnar þegar frá líður og stuðla að því að íbúðaverð að öðru leyti verði styrkara og jafnvel hærra en það er í dag. Það er mín skoðun varðandi lausn á þeim vanda sem er í dag í félagslega íbúðakerfinu.

Eins og hér hefur komið fram í umræðum gera menn sér grein fyrir að þetta er margþætt vandamál. Menn eru að bregðast við vanda sem skapast vegna mjög hraðrar íbúafækkunar og það kemur fram á mörgum sviðum og því verða lausnirnar að vera margþættar líka. Vestfirskir sveitarstjórnarmenn hafa valið þann kost að sækjast eftir samningum við ríkisvaldið um sölu á hlut sínum í Orkubúi Vestfjarða. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það að öll sveitarfélög kjósi að selja en það væri blekking að halda öðru fram en því sem menn vita, að nokkur þeirra ætla sér að selja og hafa hugsað sér að gera það svo fljótt sem verða má. Og til þess eru auðvitað refirnir skornir með þessu frv. Menn eru að bregðast við vandanum eins og hann er og þetta er hluti af lausninni, að breyta orkubúinu í hlutafélag og gera mönnum kleift að breyta eign sveitarfélaganna sem þar er í peninga og grynnka þannig á skuldum þeirra.