Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:13:28 (5261)

2001-03-06 18:13:28# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:13]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þrátt fyrir það að ég hafi ekki haft tækifæri til þess að fylgjast með allri þessari umræðu og hef einungis heyrt nokkrar síðustu ræður, þá vil ég leggja örfá orð í belg.

Það er fyrst spursmálið hver á þá hugmynd að gera sveitarfélögum á Vestfjörðum mögulegt að koma eignarhlut í orkubúinu í verð. Ég heyrði fyrst af þessari hugmynd þegar við vorum á fyrri hluta síðasta kjörtímabils að ræða sérstakan fjárhagsvanda í Reykhólahreppi. Ég þori ekki að fullyrða hver átti hugmyndina, en þá heyrði ég hana fyrst.

Ég vil taka það fram að ríkisstjórnin mun ekki hafa frumkvæði að því að kaupa eignarhlut einstakra sveitarfélaga í orkubúinu. Frumkvæðið að sölunni verður að koma frá heimamönnum og það er þeirra val hvort þeir selja. Með þessari lagasetningu er einungis verið að gera það mögulegt fyrir sveitarfélögin að koma hlut sínum í verð í orkubúinu, ef þau svo kjósa, og ríkisstjórnin er tilbúin að standa fyrir kaupum af einstökum sveitarfélögum ef þau óska eftir því.

Eins og hér kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni er þetta svipuð leið og farin var á Siglufirði. Ég man ósköp vel eftir þeim viðskiptum og satt að segja var það með hálfum huga sem ég gekk að því máli. Þannig háttaði til á Siglufirði að þar var virkjun, Skeiðsfossvirkjun, sem var búin að borga sig upp og hún var farin að mala Siglufirði gull. Hins vegar var Siglufjörður með hitaveitu sem var mjög erfið í rekstri og sveitarfélagið var komið með mjög erfiða skuldastöðu. Sú leið var farin að Rafmagnsveitur ríkisins keyptu orkuveiturnar á Siglufirði og sú leið gafst Siglfirðingum vel. Ég efast um að menn finni nokkurn Siglfirðing núna sem álítur að sú leið sem farin var hafi verið röng eða komið illa við Siglufjörð.

Það er hægt að fara svipaða leið í miklu fleiri sveitarfélögum en á Vestfjörðum. Sem betur fer eiga mörg sveitarfélög hitaveitur eða rafveitur eða eitthvað sem þau gætu komið í verð, hlutabréf í atvinnufyrirtækjum, þannig að ef þau svo kjósa til þess að rétta við fjárhag sinn, þá hafa þau eitthvað að selja. Fjárhagslegur vandi sveitarfélaga er ekki eingöngu bundinn við Vestfirði, en fjárhagur stærri sveitarfélaga á Vestfjörðum er því miður mjög þröngur. Það þýðir ekkert annað en horfast í augu við það. Það er að vísu hægt að finna sveitarfélög annars staðar á landinu sem eru næstum því í áþekkri stöðu og þó ekki og ekki nokkur saman í röð. Ég vil taka það fram að það eru líka sveitarfélög á Vestfjörðum sem eru ágætlega sett fjárhagslega. Sveitahreppanir á Ströndum t.d. eru ekki með neinar teljandi skuldir en þeir eiga hins vegar ekki stóran hlut í orkubúinu, kannski 1--2% eða eitthvað svoleiðis hvert sveitarfélag þannig að það er ekki nein knýjandi nauðsyn fyrir þau að selja. Ég veit ekki hvort það eru öll sveitarfélögin, jafnvel þau sem eiga við erfiðan fjárhag að stríða, sem kjósa það að selja hlut sinn í orkubúinu. Það er einungis verið að búa orkubúið í þann stakk að einstök sveitarfélög geti gert sér peninga úr því ef þau kjósa sjálf til þess að létta á skuldabyrði og ríkisstjórnin vill aðstoða sveitarfélögin á Vestfjörðum við það að koma sér í rekstrarhæft ástand með því að hjálpa þeim til að létta á skuldabyrðinni ef þau óska eftir því. Með hliðsjón af því er verðmat orkubúsins mjög hátt.

Það er unnið af því af krafti að gera félagslega íbúðakerfið bærilegt fyrir sveitarfélögin og sú vinna er komin vel á veg. Ég vil undirstrika það að að sjálfsögðu eru sveitarfélögin í ábyrgð fyrir þeim skuldum sem hvíla á þeim íbúðum sem þau hafa þurft að innleysa og þurfa að innleysa og þar af leiðir að þau vanskil eru ekkert léttbærari fyrir sveitarsjóðina heldur en önnur vanskil.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Ég er sammála hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni um eitt atriði í ræðu hans og það var að ég tel að Rarik þurfi að framleiða miklu meiri orku og það tel ég að heppilegast sé að gera með því að virkja Héraðsvötnin hjá Villinganesi.