Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:25:54 (5266)

2001-03-06 18:25:54# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er feginn því að við hæstv. félmrh. getum verið sammála um eitthvað. En varðandi orkusölu eða orkuframleiðslu hjá Rarik, þá er það kannski ekki svo einfaldur hlutur. Ég var að benda á að þetta væri flókið samhengi. Ætli orkukaup Rariks séu ekki á þessu háa verði um 5 milljarðar og það kemur auðvitað víða við í öllu kerfinu.

En ég spyr hæstv. félmrh. í sambandi við félagslegu íbúðirnar sem standa tómar. Það getur ekki verið rétt að sveitarfélög sem standa frammi fyrir hækkun, sum svo nemur tugum prósenta, að þeir skattborgarar sem þó þrauka og eru eftir á stöðunum séu bara skildir eftir með vandamálið. Ég segi það enn og aftur, og við erum tilbúin að standa að því og höfum lagt fram tillögur þar að lútandi, að það verður að leysa þetta mál því að þetta vindur upp á sig. Það býr enginn í sveitarfélagi sem er orðið gjörsamlega vanmáttugt til nokkurrar þjónustu og þetta er stór hluti af því. Við höfum horft upp á það í sveitarfélögum að þau hafa kannski tapað 10--17% af íbúunum á einu ári, t.d. úti í Hrísey. Auðvitað er það ekkert réttlætismál. Við stóðum öll að þessu kerfi og það er ekkert réttlætismál að skilja þetta fólk eftir gjörsamlega úti á klakanum og segja bara: Þetta er ykkar mál, þið verðið að borga. Í mörgum tilfellum var það ekki einu sinni fólkið sem tók ákvörðun um að byggja íbúðirnar.