Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:37:17 (5271)

2001-03-06 18:37:17# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp til að skýra ofurlítið betur hvað ég átti við þegar ég talaði um að rétt væri að orkubúið fengi að vera í hlutafélagsformi um einhvern tíma áður en ríkið hjólaði beint í að kaupa upp eignarhluta sveitarfélaganna.

Í núverandi lögum um Orkubú Vestfjarða eru ákvæði um að engu sameignarfélaganna sé heimilt að ganga út úr fyrirtækinu án samþykkis allra sameigenda. Þetta hamlar því að menn fari út úr fyrirtækinu og var auðvitað ætlað til að halda fyrirtækinu saman. Ég tel að þegar núverandi frv. verður orðið að lögum og búið að breyta orkubúinu í hlutafélag þá væri eðlilegt að orkubúið ætti framtíð þar sem ekki væri sjálfgefið og helst takmarkaður möguleiki, reyndar komið í veg fyrir það með lagasetningu, að menn seldu hlut sinn í orkubúinu þannig að raunverulega verði tekist á við að reyna að nýta orkubúið til uppbyggingar atvinnutækifæra og farið í frekari orkuöflun og orkuiðnað á Vestfjörðum. Það var hugsunin á bak við orð mín áðan og ef aðrir þingmenn Vestfjarða líta svo á að það sé neikvætt fyrir Vestfirði að hafa þá hugsjón að byggja upp gegnum orkubúið þá verður bara að hafa það. Ég lít svo á að það væri gott hlutskipti fyrir nýja stjórn orkubúsins að takast á við slíkt undir nýjum lögum. Ég tel að það mundi geta þjónað hagsmunum Vestfirðinga mjög vel í framtíðinni. Það er ekkert vit í því að stíga öll skrefin í einu og selja.