Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:31:55 (5275)

2001-03-07 13:31:55# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég er kominn til að leita aðstoðar hæstv. forseta til að ég geti fylgt eftir stjórnarskrárbundinni eftirlitsskyldu minni með framkvæmd laga. Nú liggur fyrir túlkun hæstv. menntmrh. á 53. gr. grunnskólalaga er lýtur að þróunar- og tilraunastarfi í grunnskólum. Hæstv. ráðherra hefur gefið Hafnarfjarðarbæ vilyrði þess efnis að meiri hluta bæjarstjórnar þar í bæ sé heimilt að láta fara fram útboð á kennsluþætti grunnskólastarfsins. Miklar deilur eru uppi í samfélaginu um þessi mál auk þess sem sérfræðingar eru langt í frá sammála því hvort hæstv. menntmrh. hafi heimild til að gefa vilyrði eða heimila slíkt útboð, hvað þá að blessa væntanlegan verksamning við lægstbjóðanda.

Við nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar vöktum athygli hæstv. forseta á þessu máli fyrir nokkrum dögum og greindum hæstv. forseta frá því að þrátt fyrir tillögur þess efnis að málið fengi efnislega og faglega umfjöllun í menntmn. var því hafnað af meiri hluta nefndarinnar, þremur fulltrúum Sjálfstfl.

Hæstv. forseti taldi sig aðspurður ekki hafa ráð í hendi til þess að stjórna starfi fagnefnda. Þá var því svarað til að hæstv. menntmrh. hefði á þeim tíma ekki svarað beiðni meiri hluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar varðandi útboðið og málið því ekki tímabært. Nú hefur það gerst, herra forseti. Bréfið hefur borist frá hæstv. ráðherra og því spyr ég: Hafa þær aðstæður skapast nú að ég fái tækifæri til þess í menntmn. að sinna starfsskyldum mínum þar þannig að þessi mál fáist þar á dagskrá?

Ég spyr líka, herra forseti: Ef rökstuddur grunur er uppi um það að fulltrúar framkvæmdarvaldsins séu ekki að fara að lögum sem Alþingi hefur sett hvernig á þingið að sinna eftirlitsskyldum sínum? Það get ég ekki gert nema að takmörkuðu leyti með því að spyrja hæstv. ráðherra heldur þarf atbeina hlutlægra aðila að málinu.

Mér er kunnugt um að ýmsir aðilar í samfélaginu hafa verið að skoða þetta mál. Þess vegna tel ég eðlilegt að þeir verði kallaðir á fund menntmrn. þar sem fari fram efnisleg og fagleg umræða um málið.