Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:48:55 (5284)

2001-03-07 13:48:55# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það var fróðlegt að heyra hvernig hæstv. forsrh. lítur á þá stefnubreytingu í grunnskólakerfinu sem hér er til umræðu. Einhver vandamál sveitarstjórnarmanna í Hafnarfirði kallaði hann það, rétt eins og þessi vandamál kæmu okkur á hinu háa Alþingi ekkert við.

Herra forseti. Það er nú einu sinni svo að hæstv. menntmrh. er að túlka tiltekna grein grunnskólalaga á umdeildan hátt. Við erum að tala um framkvæmd gildandi laga og minni hlutanum á Alþingi er meinað að fjalla um þetta umdeilda mál á hinu háa Alþingi í fagnefnd þingsins. Um það snýst málið og sú deila sem hér hefur verið rætt um oftar en einu sinni.

Hv. formaður menntmn. vísar í þingmál, frumvörp og utandagskrárumræður um málið og það gerir reyndar hæstv. forsrh. líka. Ég hef hins vegar ekki séð, herra forseti, að sú umræða breyti neinu um ætlan ráðherrans í málinu. Þess vegna er málið tekið upp enn og aftur. Við fengum á því staðfestingu í gær að hæstv. menntmrh. ætli að túlka og framfylgja lögunum á þennan umdeilda hátt og hv. formaður menntmn. hefur ekki svarað því efnislega, hvorki hér og nú né áður, hvers vegna hún hefur lagst gegn faglegri umræðu um málið í fagnefnd þingsins um menntamál.

Ég krefst þess, herra forseti, að hv. formaður menntmn. svari þessari einföldu spurningu.