Aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:56:25 (5288)

2001-03-07 13:56:25# 126. lþ. 84.1 fundur 357. mál: #A aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Í desember sl. samþykkti Alþingi breytingar á lögum um landmælingar og kortagerð. Þær fólu m.a. í sér skýrari ákvæði en áður höfðu verið í lögunum um með hvaða hætti Landmælingar Íslands mættu afla sértekna.

Í fjárlögum ársins 2001 er Landmælingum gert að afla sértekna upp á 48 millj. kr., en heildargjöld stofnunarinnar í ár eru um 225 millj. kr. á fjárlögum. Sértekjurnar eiga því að standa undir liðlega fimmtungi gjalda stofnunarinnar.

Í umræðum um breytingar á lögum um landmælingar og kortagerð hér í þingsal og í hv. umhvn. lýstu forsvarsmenn stofnana áhyggjum sínum af verðlagningu þeirra vísindagagna sem Landmælingar hafa umsjón með. Fram kom að verð gagnanna væri svo hátt að menn veigruðu sér við að nýta þau. Í sumum tilvikum nýttu menn þá lélegri og jafnframt ódýrari gögn.

Herra forseti. Vinnuhópur á vegum Rannsóknaráðs ríkisins ritaði forsrn. bréf þann 3. febr. 1999 þar sem fjallað er um nauðsyn þess að stjórnvöld marki stefnu um aðgengi og verðlagningu opinberra gagna. Þar er vitnað til skýrslu frá Evrópusambandinu, sem þá var ný, þar sem lögð er áhersla á samræmda stefnu um aðgengi og verðlagningu gagnanna og nauðsyn þess að aðgangur að slíkum upplýsingum sé auðveldur, m.a. í ljósi þess hversu mikilvægur hann sé þróun samfélags og atvinnulífs.

Í bréfi þessu segir einnig, með leyfi forseta:

,,Það er kunnara en frá þurfi að segja að stofnunum hins opinbera hefur á liðnum árum og áratugum verið uppálagt að leita allra ráða til að afla sértekna, bæði til að styrkja starfsemi sína en líka til að draga úr þörf á fjárveitingum. Meðal þess sem þá hefur verið gripið til er að verðleggja gögn og aðrar upplýsingar sem veittar eru en áður voru afhentar ókeypis.

Ekki verður séð að samræmi sé í aðgerðum stofnana í þessum efnum og hætt er við því að í gangi sé eins konar kapphlaup. Þannig kann sá sem þarf að greiða fyrir gögn að svara með því að verðleggja aftur sínar upplýsingar. Og þar sem slík gagnaskipti eru einkum á milli opinberra stofnana má spyrja hvort einhver fjárhagslegur ávinningur fáist að lokum fyrir ríkissjóð, enda má ekki gleyma því að sjálf gjaldtakan hefur umtalsverðan kostnað í för með sér.``

Hafa ber í huga, herra forseti, að forstjórar helstu rannsóknastofnana landsins voru í vinnuhópi Rannsóknaráðs og skýrt kemur fram í bréfinu að ekki er lagst gegn skynsamlegri gjaldtöku en fyrst og fremst verið að benda á nauðsyn þess að stjórnvöld hafi stefnu í málinu.

Hæstv. forseti. Nýlegar breytingar á lögum um landmælingar og kortagerð eru tilefni þess að við hv. þm. Jóhann Ársælsson leyfum okkur að spyrja hæstv. forsrh. hvort ríkisstjórnin hafi mótað stefnu um aðgengi og verðlagningu opinberra rannsóknargagna og ef svo er hver sú stefna sé.