Aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:05:49 (5291)

2001-03-07 14:05:49# 126. lþ. 84.1 fundur 357. mál: #A aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:05]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Spurningin var: Hefur ríkisstjórnin mótað stefnu um aðgengi og verðlagningu opinberra rannsóknargagna? Svarið var auðheyrilega nei. Og seinni hlutinn var: Ef svo er, hver er sú stefna? Og henni var auðvitað ekki lýst hér.

Því var hins vegar lýst yfir að hæstv. forsrh. hefði falið menntmrh. að ganga í málið og út af fyrir sig er ágætt að heyra það. En þessi rannsóknargögn eru seld dýrum dómum og stefna stjórnvalda birtist auðvitað í verðlagningu þeirra því að þær stofnanir sem hafa þurft að selja slík gögn hafa þurft að gera það vegna þess að þær hafa ekki séð önnur úrræði. Og meðan stefnan hefur ekki verið mótuð þannig að þessar stofnanir geti í sínum rökstuðningi fyrir fjárheimildum á fjárlögum notað slíka stefnu sér til varnar heldur þetta áfram að vera svona. Og hæstv. forsrh. þarf auðvitað að sjá til þess að hæstv. menntmrh. skili slíkri stefnumörkun af sér sem allra fyrst. Það er mikil nauðsyn á því og það kom mjög í ljós í umræðum sem urðu í vetur.