Íslenskir aðalverktakar hf.

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:13:29 (5295)

2001-03-07 14:13:29# 126. lþ. 84.2 fundur 492. mál: #A Íslenskir aðalverktakar hf.# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Svarið við fyrstu spurningunni er já. Unnið er að undirbúningi sölu hlutarins og verður tekin ákvörðun um það með hvaða hætti það verður gert eftir að fyrir liggja helstu skýringar félagsins um afkomu o.fl. á aðalfundi þess í apríl á þessu ári. Og vegna þess sem hv. þm. sagði um eignarhlut ríkisins í félaginu, þá er hlutur ríkisins í félaginu nú 39,86% af heildarhlutafé en rúm 60% eru í eigu nær 800 hluthafa og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið á Landsbanki Íslands ekki neitt lengur í fyrirtækinu. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun annast söluna þegar ákvörðun hefur verið tekin.

[14:15]

Varðandi aðra spurningu þá er það svo að fyrirtækið er skráð á Verðbréfaþingi Íslands og jókst markaðsverðmæti þess í kaupum og sölum á þinginu um 42% frá ársbyrjun til ársloka árið 2000. Samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins var fyrirtækið í 6. sæti þeirra fyrirtækja sem voru með mesta hækkun á Verðbréfaþingi á nýliðnu ári en eins og fyrirspyrjanda er væntanlega kunnugt var árið 2000 ár mikilla verðlækkana á Verðbréfaþingi. Gengi á hlutum félagsins í síðustu viku var á bilinu 3,4--3,6 en til samanburðar má geta þess að gengi á hlutum í félaginu í desember 1998 var 1,75 en þá fór fram fyrsti söluáfangi íslenska ríkisins í félaginu.

Varðandi þriðju spurninguna, þá hefur utanrrn. engar upplýsingar um rekstur og afkomu fyrirtækisins sl. 10 mánuði sem ekki hafa verið gerðar opinberar af fyrirtækinu sjálfu fremur en aðrir hluthafar, enda fyrirtækið háð ströngum reglum Verðbréfaþings Íslands um innri mál og upplýsingagjöf.

Vegna orða hv. þm. er rétt að taka fram að gengisþróun hlutabréfa félagsins bendir ekki til þess að markaðurinn telji rekstur félagsins verulega erfiðan. Fyrirtækið hefur tilkynnt að ársreikningur þess fyrir árið 2000 verði birtur í síðustu viku marsmánaðar og geta þá hluthafar sem aðrir kynnt sér niðurstöður rekstrar félagsins. Vegna orða hv. þm. er jafnframt rétt að taka fram að fyrirtækið hefur ekki gefið út neina afkomuviðvörun vegna afkomu þess eða einstakra verka. Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að framkvæmdir við Vatnsfellsvirkjun séu á áætlun og ég er viss um að þær upplýsingar eru réttar.