Íslenskir aðalverktakar hf.

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:16:45 (5296)

2001-03-07 14:16:45# 126. lþ. 84.2 fundur 492. mál: #A Íslenskir aðalverktakar hf.# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Það mátti svo sem búast við að ekki væri hægt að fá önnur svör en þau sem hann gaf. Hann vitnaði vitanlega aðeins í það sem opinbert er á Verðbréfaþingi.

Ég minntist hins vegar á það sem sagt var á almennum starfsmannafundi 8. febrúar sl. þar sem til þess horfði að fjárvöntun yrði vegna verkskila hjá Ísafli upp á 600 millj. eða jafnvel 1 milljarð. Það er talið liggja í svonefndum ,,Claim`` eða Claim-verkum. Ef þau verk eru eignfærð þá lítur þokkalega út með reikninga fyrir árið, en þá kemur ekki í ljós fyrr en við næsta reikningsuppgjör hver staðan er. Það er ástæðan fyrir því að undirritaður veltir þessum málum fyrir sér, ekki síst í ljósi þess að hæstv. forsrh. varaði við í áramótaræðu að almenningur færi óvarlega í bæði hlutabréfa- og verðbréfakaupum og hvatti fólk til að athuga vel sinn gang. Ef þetta er eins og ég er að lýsa þá hlýtur að liggja fyrir frá endurskoðendum athugasemd, þ.e. ef reikningar eru þannig færðir. Ef ekki þá sýnist mér allt mæla með því fyrir almenning að kaupa í þessu fyrirtæki.