Umönnunargreiðslur vegna hjartveikra barna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:46:25 (5309)

2001-03-07 14:46:25# 126. lþ. 84.4 fundur 473. mál: #A umönnunargreiðslur vegna hjartveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hafði ekki orðið vör við þessa reglugerðarbreytingu þegar ég kom fram með fyrirspurn mína enda fékk Neistinn ekki af henni að vita fyrr en fyrir rúmri viku. Aftur á móti vil ég taka undir spurningar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram varðandi langveiku börnin en bendi á að í svari hæstv. ráðherra kemur fram að af 73 hjartveikum börnum, sem eru á umönnunargreiðslum hjá Tryggingastofnun ríkisins, eru aðeins þrjú í 1. flokki. Eins og kom fram í máli mínu áðan hafa þessi hjartveiku börn fengið greiðslu samkvæmt 1. flokki tímabundið þegar um mikil veikindi hefur verið að ræða. Aftur á móti hef ég ákveðnar efasemdir um að þessi reglugerðarbreyting sé í þá veru sem umboðsmaður lagði til vegna þess að umboðsmaður er í rauninni að benda á að það eigi að fara eftir umönnunarþörfinni og tilfinnanlegum útgjöldum. Það fer kannski ekki eftir því hvort veikindi eru alvarleg og langvarandi hversu mikil útgjöldin eru. Það getur líka verið með langvarandi veikindi sem eru kannski ekki eins alvarleg en eru þó mjög útgjaldafrek þannig að mér sýnst engu að síður að þarna sé verið að þrengja lagagreinina með reglugerðinni. Þó er ég ekki sérfræðingur í því og tel að hæstv. ráðherra þurfi að skoða þetta jafnvel betur því að ég tek undir að endurskoða þurfi betur reglugerðina og spyr hæstv. ráðherra aftur hvort áform séu uppi um að gera það.

Annars þakka ég ráðherranum kærlega fyrir svörin og veit að ýmislegt hefur verið gert í þessum efnum en kannski þarf að skoða þetta betur.