Spilliefni

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:24:27 (5327)

2001-03-07 15:24:27# 126. lþ. 84.8 fundur 466. mál: #A spilliefni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt á þskj. 745:

Í fyrsta lagi: Hvað hefur mikið fallið til af spilliefnum hér á landi sl. þrjú ár:

a. í föstu formi,

b. í fljótandi formi?

Því er til að svara að heildarmagn spilliefna var um 8.500 tonn árið 1998, 9.800 tonn árið 1999 og 12.600 tonn árið 2000. Aukið magn spilliefna milli áranna 1998 og 1999 varð aðallega vegna aukinna skila á úrgangsolíu. Sú aukning sem varð á milli 1999 og 2000 stafar af auknu magni kerbrota frá álframleiðslu.

Varðandi a-lið spurningarinnar, um spilliefni í föstu formi, er því til að svara að árið 1998 féllu til um 3.100 tonn af spilliefnum í föstu formi, 3.400 tonn árið 1999 og 6.300 tonn árið 2000.

Varðandi b-liðinn, um fljótandi spilliefni, þá er því til að svara að árið 1998 féllu til um 5.400 tonn af fljótandi spilliefnum, um 6.400 tonn árið 1999 og 6.300 tonn árið 2000.

Önnur spurning: Hvernig er spilliefnum eytt? Hve mikið af þeim er flutt úr landi og hve miklu er eytt hérlendis og þá hvernig? Því er til að svara að úrgangsolía og kerbrot námu að jafnaði 87% af þeim spilliefnum sem féllu til á árunum 1998--2000. Úrgangsolían var nýtt sem orkugjafi, aðallega í Sementsverksmiðjunni, en eitthvað líka í Funa á Ísafirði og kyndistöðinni í Vestmannaeyjum. Kerbrotin voru urðuð í kerbrotagryfjum við álverin.

Um 1.300 tonn spilliefna var sent úr landi hvert ár til endurvinnslu eða förgunar árin 1998--2000. Útflutningurinn nam því um 13% af þeim spilliefnum sem féllu til á tímabilinu.

Blýrafgeymar vega þyngst í útflutningnum, eða 900--1.000 tonn á ári. Þeir eru sendir til endurvinnslu í Bretlandi og Svíþjóð, en önnur spilliefni sem flutt voru út voru send til Danmerkur og verulegum hluta þeirra var eytt með brennslu.

Þá endurvann fyrirtækið Íslakk í Kópavogi 8--10 tonn af þynni frá lakksprautun á ári á umræddu tímabili.

Þriðja og síðasta spurningin, virðulegur forseti, er svohljóðandi: Hvað má ætla að verði mikil aukning spilliefna hér á landi á næstu árum? Því er til að svara að það er erfitt að sjá fyrir um þróun á magni spilliefna á næstu árum. Með aukinni starfsemi og eflingu iðnaðar í landinu má búast við einhverri aukningu spilliefna. Fyrirsjáanlegt er t.d. að aukin framleiðsla á áli muni leiða til aukningar á kerbrotum.

Mikil aukning hefur orðið á innflutningi rafgeyma og ökutækja sem innihalda rafgeyma á undanförnum árum. Ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir að 50% aukning verði í skilum rafgeyma á næstu 5--10 árum, en líftími rafgeyma er langur. Með sífellt aukinni notkun vélknúinna ökutækja og vinnuvéla hefur notkun olíu aukist. Af þeim orsökum má ætla að olíuúrgangur aukist, en á móti kemur að smurolía er sífellt að verða endingarbetri, sem leiðir til færri olíuskipta á vélum.

Aftur á móti dregur stöðugt úr notkun umhverfisskaðlegra efna, enda er það eitt af markmiðum spilliefnagjaldsins. Með aukinni stafrænni myndatöku má t.d. ætla að notkun framköllunarvökva muni minnka verulega. Olíubundnar málningar og lökk eru fremur á undanhaldi fyrir vistvænni afurðum. Notkun prentlita mun væntanlega minnka verulega með tilkomu stafrænnar vinnslu.

Skaðlegar rafhlöður, sem flokkast til spilliefna, hafa verið á hröðu undanhaldi fyrir vistvænni rafhlöðum. Eru þær skaðlegu nú taldar innan við 5% af rafhlöðum sem skilað er og munu væntanlega fara enn minnkandi. Þá er öll notkun kvikasilfurs mjög á undanhaldi og orðin óveruleg miðað við það sem var fyrir fáum árum.

Reikna má með svipaðri notkun varnarefna, ísósíaníða og halógeneraðra efnasambanda á allra næstu árum, en skil gætu aukist með vaxandi beitingu spilliefnagjaldsins.