Spilliefni

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:29:55 (5329)

2001-03-07 15:29:55# 126. lþ. 84.8 fundur 466. mál: #A spilliefni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. umhvrh. hefur Sementsverksmiðjan nýtt stærstan hluta úrgangsolíu sem til fellur og þar hefur tekist afskaplega vel til, menn hafa slegið tvær flugur í einu höggi, bæði náð að nýta þennan úrgang og í leiðinni að stórlækka orkukostnað Sementsverksmiðjunnar og gera rekstur hennar hagstæðari fyrir bragðið. Þar hefur tekist vel til. Þar er einnig í athugun frekari vinnsla á úrgangsefnum, fyrst og fremst á hjólbörðum, jafnvel líka á rúllubaggaplasti. Tæknimenn Sementsverksmiðjunnar hafa verið í viðræðum við þar til bær yfirvöld og ráðuneyti varðandi þessi efni og ég vona að þar megi einnig nást góður árangur. Það skiptir auðvitað máli að þetta sér gert í góðum friði við umhverfið. Nágrannarnir hafa auðvitað nokkrar áhyggjur af því að fara eigi að brenna hjólbarða, en verið er að leita leiða til að gera það þannig að það skaði ekki umhverfið og ég held að ef árangur næst í því, þá væri það til mikilla bóta.