Spilliefni

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:31:08 (5330)

2001-03-07 15:31:08# 126. lþ. 84.8 fundur 466. mál: #A spilliefni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir svör hennar. Athyglisverð svör að mörgu leyti. Sannleikurinn er sá að menn hafa verið að búast við því að aukning á spilliefnum væri í miklu meira mæli en hér kom fram. Og af því hv. þm. Katrín Fjeldsted kom inn á þau spilliefni sem væru á heimilum er rétt að benda á það sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. hve það er orðið miklu minna magn af rafhlöðum, eða innan við 5% af öllum rafhlöðum sem skilað er, sem flokkast sem spilliefni, þannig að hér kemur margt athyglisvert fram. Eins og kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni um eyðslu úrgangsolíu í Sementsverksmiðjunni á Akranesi er það merkt framtak sem þar er unnið. Í stað þess að eyða miklu fé í að flytja óhreinsaða olíu út aftur er hún brennd í Sementsverksmiðjunni á Akranesi.

Við sjáum líka alla þá hauga notaðra hjólbarða sem safnast hér upp og það er vissulega mjög athyglisvert ef tekið verður á því máli og þeim eytt.

Ég vil að lokum einnig minna á það svar sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. að aðeins 13% af þeim spilliefnum sem til falla hér á landi eru flutt út aftur. Verulegur árangur hefur því náðst í að eyða spilliefnum hér á landi. Ég vil endurtaka þakkir mínar til umhvrh. fyrir ítarlegt svar hennar.