Spilliefni

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:32:48 (5331)

2001-03-07 15:32:48# 126. lþ. 84.8 fundur 466. mál: #A spilliefni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Katrínar Fjeldsted að heimilin þurfa auðvitað líka að vera virk í þessum málaflokki. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson fyrirspyrjandi minntust á málefni Sementsverksmiðjunnar, og það er rétt að það er mjög sniðug leið að láta Sementsverksmiðjuna taka úrgangsolíuna og nýta hana. Það er ekki bara gott fyrir umhverfið vegna skaðans sem úrgangsolían veldur í umhverfinu, heldur er það líka gott fyrir Sementsverksmiðjuna, þannig að þetta er svona ,,win-win`` staða eins og það heitir á ensku, vinnings-staða, það græða allir á þessu að hafa málin í þeim farvegi.

Einnig var minnst á hjólbarða og rúllubaggaplast. Á miðju næsta sumri þurfum við að uppfylla ákveðnar aðgerðir í sambandi við tilskipanir frá Evrópusambandinu um endurvinnslu og endurnýtingu á úrgangi. Verið er að vinna núna frv. í ráðuneytinu varðandi þau mál og ég vona að það komi inn í þingið bráðlega þar sem við munum freista þess að koma upp nýju skipulagi með umbúðir sem tryggir það að við getum staðist tilskipanir Evrópusambandsins. Við þurfum þá að skora á ákveðinn hátt í ýmsum flokkum af umbúðaúrgangi. Við þurfum að ná ákveðnum prósentum í endurvinnsu eða endurnýtingu. Og við þurfum einnig í leiðinni að skoða rúllubaggaplast og hjólbarða og hugsanlega bíla, þ.e. bílflök. Ég býst því við að þessi mál verði mjög til umræðu á næstunni í samfélaginu, hér í þinginu, hjá sveitarfélögunum og hjá þeim sem málið varðar.