Flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:38:23 (5333)

2001-03-07 15:38:23# 126. lþ. 84.7 fundur 463. mál: #A flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Svarið við fyrri spurningu hv. þm. er eftirfarandi:

Síðasta sumar fól ráðuneytið ráðgjafarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers að gera athugun á flutningi einstakra verkefna eða stofnana sem starfa á sviði iðn.- og viðskrn. út á land. Verkinu lauk um síðustu áramót og hefur skýrslan verið kynnt í ríkisstjórn og gerð opinber á heimasíðu iðnrn. Alls náði athugunin til sjö stofnana, þ.e. Einkaleyfastofu, Fjármálaeftirlitsins, Iðntæknistofnunar, Löggildingarstofu, Orkustofnunar, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Samkeppnisstofnunar.

Skýrslan var unnin í samræmi við þál. um stefnu í byggðamálum 1999--2001, en þar segir: ,,Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.``

Við lestur skýrslunnar ber að hafa í huga að hér er ekki um að ræða hagkvæmniathugun. Vinna ráðgjafarfyrirtækisins beindist fyrst og fremst að því að koma auga á hvort hægt er að flytja þau verkefni sem unnin eru á vegum þeirra stofnana sem athugunin náði til út á land. Í þessari vinnu voru viðmiðin tvö, hið fyrra var hversu staðbundin starfsemi viðkomandi stofnunar er við höfuðborgarsvæðið að mati ráðgjafarfyrirtækisins, hið síðara var hvort störf í stofnuninni krefjist mikillar sérfræðimenntunar og reynslu.

Samandregnar tillögur ráðgjafarfyrirtæksins eru:

Að símaþjónusta og útgáfu- og kynningarmál, viðhald heimasíðna og gagnagrunna, gagnavinnsla og þýðingarvinna allra stofnana sem heyra undir iðn.- og viðskrn., verði færð til einnar eða fleiri stofnana eða fyrirtækja á landsbyggðinni þar sem því verður við komið.

Kannað verði í hve miklum mæli menntastofnanir á háskólastigi og framhaldsskólar á landsbyggðinni geti tekið að sér námskeiðahald fyrir þær stofnanir sem athugunin náði til.

Athugað verði hvort eftirlitsstofnanir á landsbyggðinni, einstök útibú eða fyrirtæki geti tekið við ýmsum eftirlitis-, prófunar- og mælingaverkefnum sem nú eru unnin á vegum framangreindra stofnana.

Að gerð verði hagkvæmniathugun á því að flytja starfsemi Einkaleyfastofunnar út á land, sem og vatnamælingadeildar Orkustofnunar.

Enn fremur lögðu skýrsluhöfundar til að könnuð yrði hagkvæmni þess að flytja hluta af Impru út á land, en hér er um að ræða frumkvöðlaverkefni sem er vistað hjá Iðntæknistofnun.

Ekki hefur verið lagt mat á það hversu mörg störf það eru sem ekki eru staðbundin við höfuðborgarsvæðið í þeim sjö stofnunum sem athugunin náði til.

Síðari spurningin er: ,,Hvernig ætlar ráðherra að fylgja þessari úttekt eftir þannig að einhver störf flytjist út á land?``

Samningar iðn.- og viðskrn. um árangursstjórnun við framangreindar stofnanir eru lausir. Ráðuneytið hefur ákveðið að í tengslum við gerð nýrra þriggja ára samninga, verði hverri stofnun fyrir sig sett markmið um flutning verkefna út á land. Skýrsla ráðgjafarfyrirtækisins verður lögð til grundvallar við þá samningagerð.