Flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:47:51 (5339)

2001-03-07 15:47:51# 126. lþ. 84.7 fundur 463. mál: #A flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að hlusta á hv. þm. hvernig þeir ræða um atvinnumál Reykjavíkur og hinnar dreifðu byggðar. Þeim finnst eðlilegt og hárrétt að flytja störf frá Reykjavík út á land. En óarðbær störf úti á landi má ekki leggja niður. Þau skulu áfram iðkuð.

Í annan stað er dálítið merkilegt líka að rifja það upp þegar sumir dreifbýlisþingmenn stuðla að því að starfsemi eins og Byggðastofnun flytji að hálfu leyti á Sauðárkrók, og segja svo nokkrum mánuðum seinna: Ja, nú er óarðbær rekstur á Byggðastofnun, þess vegna verðum við að flytja hinn hlutann út á land líka. Í mörgum tilfellum eru hér um störf að ræða sem skipta Reykvíkinga miklu máli, en oftar en ekki tala þingmenn hinnar dreifðu byggðar eins og það skipti ekki nokkru máli með þær fjölskyldur hér sem búa í Reykjavík, en það skipti máli hins vegar með fjölskyldurnar úti á landi ef þær missa störf. En þetta er gagnkvæmt, ágætu þingmenn. Ég hélt að ég hefði samþykkt það sem þingmaður að sjálfsagt væri að stofna ný störf, ný fyrirtæki og ríkisstofnanir úti á landi, en ekki að stuðla að því með þeim hætti sem hér er verið talað um, að það skuli bara drífa allar stofnanir ríkisins út á land, skítt með hvort það sé arðbært eða ekki.