Flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:49:14 (5340)

2001-03-07 15:49:14# 126. lþ. 84.7 fundur 463. mál: #A flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki orða bundist í þessari umræðu um flutning starfa út á land og koma hér aðeins í ræðustól.

Auðvitað ber okkur að auka og fjölga störfum úti á landi, en ég er algjörlega á móti því að vera að flytja heilu stofnanirnar út á land. Og sérstaklega vil ég segja, af því hv. þm. Drífa Hjartardóttir minntist hér á Jafnréttisstofu, að ég tel að það hafi verið mjög misráðið og jafnréttismálin hafi tapað heilmiklu á því að fara út á land, með fullri virðingu fyrir þeim sem þar vinna, því það voru margir sem höfðu mikla reynslu sem fóru ekki með stofnuninni norður.

Aftur á móti varðandi Landmælingar og flutning Landmælinga á Akranes, þá er ég líka ósátt við þá ráðstöfun og vildi gjarnan fá svar við því hér í þessum fyrirspurnatíma hjá hv. ráðherra: Hvað kostaði flutningur Landmælinga til Akraness, þeir flutningar hér í næsta nágrenni? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það fyrst þessi umræða er komin upp.

Ég ætla ekki að svara hér fyrir borgarstjórann í Reykjavík, en það er alveg áreiðanlegt, herra forseti, að ég er algjörlega á móti því að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur út á land.