2001-03-07 16:23:18# 126. lþ. 84.10 fundur 468. mál: #A yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég tel raunar að ákvæði íslenskra hegningarlaga taki á mjög mörgum atriðum sem hér hafa verið rædd í tengslum við þessa fyrirspurn. En til þess að skýra frekar þennan samning sem undirritaður var í Palermó, þá hefur hann m.a. að markmiði að samræma löggjöf aðildarríkjanna að því leyti að það sé engum vafa undirorpið að það sem talið er glæpur í einu ríki sé það líka í öðru. Hann beinist að glæpastarfsemi sem teygir anga sína yfir landamæri og mælir fyrir um samvinnu ríkja í baráttunni gegn henni. Hann mælir einnig fyrir um að öll ríki hafi í lögum sínum bann við aðild að glæpahringjum, peningaþvætti, spillingu og aðgerðum til að hindra að réttlæti nái fram að ganga. Þetta eru auðvitað allt ákaflega mikilvæg markmið.

Samningurinn skilgreinir ýmis hugtök, svo sem hugtakið glæpastarfsemi sem teygir anga sína yfir landamæri, og verslun með einstaklinga, svo eitthvað sé nefnt og sem nánar verður rakið þegar Alþingi fjallar um samninginn.

Á hverju ári er verslað með, svo vísað sé til skilgreiningar samningsins, hundruð þúsunda kvenna og barna um allan heim og áætlað hefur verið að tekjur glæpahringja af slíkri starfsemi, nemi jafngildi um 7 milljarða Bandaríkjadala. Hér er að sjálfsögðu um alvarleg mannréttindabrot að ræða sem leggja ber harðar refsingar við, en einnig verður að grípa til aðgerða til þess að vernda og aðstoða fórnarlömb slíkra glæpa.